Gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur er vinsælasta gönguleið landsins og er orðin þekkt um allan heim á meðal göngufólks. Einstök náttúrufegurð, litadýrð og fjölbreytileiki er einkennandi fyrir gönguleiðina. Friðland að Fjallabaki er eitt fegursta svæði Íslands og náttúra og víðerni á Torfajökulssvæðinu eru einhver mestu verðmæti á hálendinu. Jarðmyndanir, landslag og hveravirkni eru óvenjulega fjölbreytt, litrík og stórfengleg. Svæðið er að mestu óraskað og friðlýsing hefur orðið til þess að landnýting hefur verið skynsamleg.
Þegar Ferðafélag Íslands hóf undirbúning að uppbyggingu Laugavegarins var gönguleiðin bæði ófær og óaðgengileg og var stærsta verkefnið að yfirstíga óbrúaðar ár og byggja skála. Það þurfti mikinn dugnað og áræði frumkvöðlanna til að láta drauminn verða að veruleika. Frá stofnun Ferðafélags Íslands hefur félagið beitt sér fyrir því að byggja upp skála og gönguleiðir á hálendinu og var fyrsti skálinn reistur í Hvítárnesi árið 1930. Var það liður í uppbyggingu félagsins á gönguleiðinni um Kjalveg hinn forna. Á árunum sem fylgdu voru byggðir upp fjallaskálar á Kjalvegi, í Kerlingarfjöllum og Þjófadölum og síðar í Þverbrekknamúla.
Hugmyndin að Laugaveginum í núverandi mynd mun hafa kviknaði upp úr 1970. Ferðafélagið hafði reist skála í Landmannalaugum árið 1951 og Þórsmörk árið 1954. Það var því nærtæk hugmynd að ganga á milli þessara einstöku og margrómuðu skálasvæða. Könnunarferðir voru farnar af harðduglegum göngumönnum og þurfti mikið áræði til að takast á við óbrúað straumvatnið. Árið 1975 hófst eiginlegur undirbúningur og var gengið hratt til verks. Strax árið 1976 var skáli reistur í Botnum á Emstrum og ári síðar kom skáli í Hrafntinnusker. Göngubrú, 18 m löng, var byggð á Fremri-Emstruá árið 1978 og var þá eitt stærsta skrefið í að opna leiðina. Leiðin var síðan stikuð sumurin 1978 og 1979 og unnu 36 sjálfboðaliðar félagsins lokahnykkinn haustið 1979. Tveir skálar voru reistir við Álftavatn sumarið 1979 og tók annar 20 manns í gistingu en hinn 40. Fyrstu Laugavegargönguna fór Ferðafélagið dagana 13. til 18. júlí 1979 og gengu þá 17 farþegar leiðina undir leiðsögn Kristins Zophóníassonar. Á einungis fjórum árum höfðu sjálfboðaliðar félagsins byggt upp nýja gönguleið og hefur viðhald og rekstur gönguleiðarinnar verið stærsta verkefni félagsins allar götur síðan.