Sauðfjárbændur á fjallahjólum

Guðmundur Fannar Markússon, eða Mummi eins og hann er kallaður, og Rannveig Ólafsdóttir eru sauðfjár- og fjallahjólabændur á bænum Mörtungu sem staðsettur er rétt austan við Kirkjubæjarklaustur. Þau hafa verið ötul að þróa nýjar hjólaleiðir á svæðinu sem er nokkuð fáfarið og framúrskarandi fallegt. „Við tókum við sauðfjárbúi af foreldrum Rannveigar árið 2017 en höfðum þá starfað með þeim í búskapnum í nokkur ár, ásamt því að vera að þróa hjólaferðir á svæðinu. Samhliða búskapnum höfum við svo verið að vinna í því að breyta kindagötum í fjallahjólaslóða á okkar landi sem telur um 11 þúsund hektara sem jafngildir 11 þúsund fótboltavöllum,“ segir Mummi sem hefur verið á ýmiss konar hjólum allt frá barnæsku.

Fegurðin í sveitinni er engri lík.
Fegurðin í sveitinni er engri lík. Ljósmynd/Rozle Bregar

Eftir að þau Rannveig kynntust var Mummi fljótlega farinn að hjóla um allt á svæðinu og var Rannveig fljót að smitast af íþróttinni. „Mummi sá strax tækifæri í að hjóla eftir kindagötunum sem eru hér út um allt meðfram gljúfrum og upp og niður um heiðarlönd. Við höfum verið að vinna að því að gera slóða sem henta til fjallahjólreiða hér allt um kring og mælum eindregið með því að fólk kíki til okkar í sumarfríinu, hvort sem er með fjölskyldu eða vinum,“ segir Rannveig og bætir við að hjá þeim í Skaftárhreppi séu heilmiklir möguleikar á skemmtilegum hjólaleiðum. Lakahringurinn sé glæsileg þriggja daga leið sem og á Skaftártunguafrétti sé að finna margar fallegar dagleiðir.

Námskeið fyrir þá sem vilja ná betri tökum

Íslenskir ferðamenn eru sífellt duglegri að sækja Iceland Farm Bike heim og voru helmingur allra gesta síðasta sumar en fram að því höfðu gestir aðallega verið af erlendu bergi brotnir. „Þetta voru oftast einstaklingar, fjölskyldur, pör og litlir hópar í léttari hjólaferðum en eftir að við opnuðum landið okkar til að hjóla fóru að koma reyndari hjólarar og eru margir Íslendingar í þeim hópi,“ segir Mummi.

Bærinn Mörtunga stendur á fallegum stað austan við Kirkjubæjarklaustur.
Bærinn Mörtunga stendur á fallegum stað austan við Kirkjubæjarklaustur. Ljósmynd/Rozle Bregar

Síðastliðið sumar buðu þau Rannveig og Mummi upp á fjallahjólanámskeið fyrir þá sem vildu verða öruggari á hjólinu og fengu þá Emil Þór Guðmundsson og Jónas Stefánsson, tvo af færustu fjallahjólurum landsins, til að leiðbeina. „Það heppnaðist rosalega vel og verður klárlega endurtekið næsta sumar,“ segir Rannveig og bætir við að hægt sé að leigja fulldempuð fjallahjól til þeirra sem ekki eiga hjól. „Fólki er velkomið að nota sín eigin hjól og búnað. Ferðirnar okkar eru alltaf með leiðsögn eða fylgd okkar, það er öruggara þar sem hjólað er um afskekktar slóðir, fólk fær meira út úr því til dæmis með því að njóta fallega landslagsins í leiðinni, og af umhverfissjónarmiðum viljum við passa upp á það að hjólað sé á slóðunum en ekki utan þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert