Brúðkaupið verður að bíða

María og Ellert í Singapúr.
María og Ellert í Singapúr. Ljósmynd/Aðsend

María Björk Einarsdóttir er framkvæmdastjóri Ölmu leigufélags. Hún elskar að ferðast og lærir kínversku í frístundum til þess að búa sig undir langþráða Kínaferð sem verður vonandi farin á næstu árum. Hún og unnusti hennar Ellert Arnarson eru hokin af reynslu þegar kemur að ferðalögum um heiminn en ætla nú að beina sjónum að Íslandi.

María segir að áætlanir sínar hafi tekið nokkrum breytingum vegna kórónuveirunnar. „Það stóð til að fara í árshátíðarferð með vinnustað unnusta míns til Dublin í apríl. Skemmst er að segja frá því að sú ferð var ekki farin. Við ætluðum að vísu líka að gifta okkur í sumar, sem einnig þarf að bíða betri tíma! Annars voru engin önnur ferðaplön á borðinu, sem var óvenjulegt en heppilegt því ég elska að ferðast og reyni yfirleitt að vera með eitthvað skemmtilegt á döfinni í þeim efnum.“

Veiða silung og verja tíma með góðu fólki

Í sumar ætlar fjölskyldan að vera dugleg að ferðast innanlands. „Við fjölskyldan ætlum, eins og svo margir aðrir, að nýta tækifærið og skoða landið okkar betur. Mínar rætur liggja í Fellunum á Fljótsdalshéraði þar sem dugmiklir ættingjar hafa byggt upp dásamlega útivistarparadís á landi fjölskyldunnar við Ekkjuvatn. Við ætlum að heimsækja þennan dásamlega stað og hitta fólkið okkar fyrir austan. Á bakaleiðinni er ætlunin að stoppa í Hofsá í Vopnafirði þar sem við vonumst til að veiða silung samhliða því að verja tíma með góðu fólki. Hvaða fleiri staðir verða fyrir valinu mun ráðast af veðri og vindum,“ segir María.

Svartur sandur svo langt sem augað eygir

Tengdaforeldar mínir stunda ýmiss konar búskap á bænum Sandhóli í Meðallandi sem er sannkölluð paradís. Sjóndeildarhringurinn þar er ólýsanlegur þar sem flatlendið er algjört og „panorama“-sýn af Vatnajökli og Mýrdalsjökli blasir við. Að fara um strandlengjuna þar sem svartur sandur er svo langt sem augað eygir er mikilfengleg og smá „post-apocalyptic“ upplifun. Mér þykir líka vænt um Fljótsdalshérað og Strandir sem eru staðir sem tengjast æsku minni sterkt, en bæði svæðin skarta ótrúlegum náttúruperlum.“

Lærir kínversku í frístundum

Aðspurð um eftirminnilegasta ferðalagið nefnir María ferðalag um Suðaustur-Asíu ásamt Ellert unnusta sínum.

„Við heimsóttum ýmsa staði í Taílandi, Kambódíu og Malasíu og enduðum ferðalagið í Singapúr. Að fá að kynnast menningu og sögu þessara ólíku landa á þennan hátt er virkilega verðmætt. Það skemmdi ekki fyrir að við erum bæði „foodies“ og elskum austurlenska matargerð. Mig dreymir einnig um að fara til Kína, en ég hef vandræðalega mikinn áhuga á sögu og menningu landsins. Ég hef lært mandarínkínversku í frístundum síðustu tvö ár og ætla mér að vera orðin spjallfær þegar ég loksins fer. Ef ég fer til Kína mun ég eflaust nýta tækifærið og skoða Japan í leiðinni, sem er annar áfangastaður sem heillar. Ég elska að ferðast létt og nota helst bara ferðatöskur sem komast í handfarangur. Fyrir utan vegabréf, síma og kreditkort er það eina sem má ekki gleymast Kindle-lesbrettið og Bose-heyrnartólin. Það er allt annað að fljúga með „noise-cancelling“-stillinguna á,“ segir María að lokum.

María og Ellert við fornu borgina Angor Wat í Kambódíu …
María og Ellert við fornu borgina Angor Wat í Kambódíu 2017. Ljósmynd/Aðsend
María og Ellert ásamt frumburðinum á Cocoa Beach í Flórida …
María og Ellert ásamt frumburðinum á Cocoa Beach í Flórida árið 2019. Fyrsta utanlandsferð einkasonarins. Ljósmynd/Aðsend
María (lengst til hægri) ásamt vinkonum sínum á Buddha-Bar Hotel …
María (lengst til hægri) ásamt vinkonum sínum á Buddha-Bar Hotel í Búdapest 2017. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert