Mælir ekki með að gleyma tjaldhælum

Harpa í skútusiglingu ásamt dóttur sinni Ásu Björgu.
Harpa í skútusiglingu ásamt dóttur sinni Ásu Björgu. Ljósmynd/Aðsend

Harpa Ingólfsdóttir Gígja fjármálastjóri er dugleg að ferðast og hefur heimsótt fjarlæga staði á borð við Kúveit, Jeríkó og Havaí. Hún ætlar að nýta sumarið á Íslandi og ferðast vítt og breitt um landið. Útilegur, skútusiglingar og hringferð um landið er meðal annars á dagsskrá. 

Harpa og maður hennar Guðni Þorsteinn Guðjónsson saman í siglingu.
Harpa og maður hennar Guðni Þorsteinn Guðjónsson saman í siglingu. Ljósmynd/Aðsend

Maðurinn aldrei komið á Austfirði

Það er margt á döfinni hjá Hörpu í sumar en hún er nýkomin af Goslokahátíð í Vestmannaeyjum. „Ég fór með yngri börnin mín á Goslokahátíð í Vestmannaeyjum en þau höfðu aldrei komið til Eyja. Þar tjölduðum við í Herjólfsdal og tókum þátt í viðburðum helgarinnar, sprönguðum og kíktum á mjaldrana.

Sumarfríið hefst svo formlega á því að ég bruna norður á Akureyri að sækja dótturina og vinkonu hennar í sumarbúðir á Hólavatn. Í kjölfarið ætlum við að tjalda í Kjarnaskógi eins og við höfum margoft gert áður. Ef veður leyfir þá förum við kannski í skútusiglingu en pabbi minn er með skútu á Pollinum.

Í ágúst er svo planið að fara með fjölskylduna í hringferð þar sem að maðurinn minn hefur aldrei komið á Austfirðina. Við vonumst til að komast líka á Vestfirðina en tengdaforeldrar mínir eiga hús á Tálknafirði og langar okkur að stoppa þar í tvo, þrjá daga“.

Aðspurð um hvað sé nauðsynlegt að taka með í ferðlagið segir nefnir hún nokkra mikilvæga hluti. „Ég hef farið í tjaldútilegur þar sem að ég hef annað hvort gleymt tjaldhimninum, tjaldhælunum eða millistykkinu fyrir rafmagnsofninn en allt þetta tel ég vera bráðnauðsynlegt,“ segir Harpa.

Börnin við Jökulsárlón.
Börnin við Jökulsárlón. Ljósmynd/Aðsend

Dreymir um að toppa Hvannadalshnjúk

„Ég er búin að fara á flesta þá staði sem mig hafði dreymt um en ég væri alveg til í að fara á einhverja fallega, litla hitabeltiseyju og slaka á í sólinni. Hérna heima á ég eftir að fara Laugaveginn og á Hornstrandir. Það er líka draumur að toppa Hvannadalshnjúkinn.

Aðspurð um uppáhaldsstaði á Íslandi nefnir Harpa Jökulsárlónið. „Jökulsárlónið hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég fór svo á Vestfirði í fyrsta skipti á síðasta ári og fannst allt svo fallegt en við gistum á Látrum. Svo finnst mér alltaf gaman að koma til Akureyrar og Vestmannaeyja.“

Harpa ásamt vinkonu sinni á Havaí.
Harpa ásamt vinkonu sinni á Havaí. Ljósmynd/Aðsend

Nýtir tímann milli fluga

Harpa er dugleg að leita uppi ódýr flug með áhugaverðum millilendingum. „Ég myndi segja að ég væri svona „low budget“ týpa. Ég elska fátt meira en að kaupa ódýr flug t.d. með millilendingu þar sem að ég get nýtt tímann á milli fluga í að skoða staðinn. Vinir mínir hafa gert óspart grín að því að mér hljóti að finnast alveg rosalega gaman að bíða á flugvöllum.“

Dvaldi í mánuð í Kúveit

Spurð um eftirminnilegustu ferðalögin nefnir hún ferðalag til Ísraels og Palestínu. „Ég byrjaði á því að ferðast til Dúbaí þar sem litli frændi minn bjó. Þaðan lá leiðin til Kúveit þar sem að ég dvaldi í tæpan mánuð. Á meðan ég dvaldi þar flaug ég til Jórdaníu og ferðaðist þaðan til Palestínu og Ísraels. Leiðin í gegnum landamærin tók rúmlega þrjá tíma en þegar maður kemst í gegn þá lendir maður í bænum Jeríkó en það er talin ein elsta borg í heiminum. Hún er einnig lægsta borg í heiminum en hún er um 258 metrum undir sjávarmáli. Ég heimsótti Betlehem og gisti í Jerúsalem.“

Myndir náðu ekki að grípa fegurðina

„Að vera í Jerúsalem var mögnuð upplifun en gömlu borginni er skipt í fernt þar sem búa Armenar, Gyðingar, kristnir menn og múslimar. Ég man svo vel að þegar ég stóð á Golgata hæð og horfði yfir og var að taka myndir. Ég skoðaði myndirnar og áttaði mig þá á að það þýddi ekkert að taka myndir þarna. Þær náðu á engan hátt að grípa fegurðina og tilfinninguna sem maður fékk af því að vera þarna.“

„Á leiðinni heim stoppaði ég svo við Dauða hafið, Jórdaníu megin, það var mögnuð upplifun að fljóta í vatninu. Þaðan lá leiðin til Istanbúl þar sem ég stoppaði í tæpan sólarhring, kíkti á Hagia Sofia og gekk um borgina. Ég hafði dvalið þar í þrjár vikur 15 árum fyrr þegar ég keppti á mínu fyrsta Ólympíuskákmóti. Þaðan flaug ég til Noregs að hitta systur mína og vikugamla dóttur hennar sem ég var svo heppin að kom á hárréttum tíma fyrir mig að heimsækja. Þetta var því ansi víðfeðmt og litríkt ferðalag uppfyllt af skemmtilegum upplifunum og ég er reynslunni ríkari.“

Látrabjarg í fallegu veðri.
Látrabjarg í fallegu veðri. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert