„Er að bíða eftir prinsinum að fara í draumaferðalagið með“

Bryndís kann hvergi betur við sig en á hvítri strönd.
Bryndís kann hvergi betur við sig en á hvítri strönd.

Bryndís Líndal Arnbjörnsdóttir starfaði sem flugfreyja um árabil þar sem ferðalög voru fastur liður í tilverunni. Vegna breytinga í ferðaþjónustu starfar hún núna sem skrifstofufulltrúi Hrafnistu í Reykjanesbæ. 

Hún á þrjú börn og eitt barnabarn og finnst fátt skemmtilegra en að ferðast með fjölskyldunni sinni. 

„Öll mín ferðalög hafa verið stórkostlega skemmtileg enda hef ég mikla unun af því að ferðast og upplifa nýja staði og kynnast menningu annarra landa. Ég á því mjög erfitt með að velja eitt ferðalag sem að flokkast undir skemmtilegasta ferðalagið.

Ég hef mjög gaman af borgarferðum, skíðaferðum, sólarlandaferðum og svo bættust golfferðir við á síðasta ári.“
Bryndís hefur alltaf haft sérstaklega sterkar taugar til Ítalíu. 
„Það kæmi mér ekki á óvart hefði ég verið Ítali í fyrra lífi. Það sem mér líkar við Ítalíu er matarmenningin, tungumálið og fegurðin. Svo er Gardavatnið (lake di Garda) og Como vatnið (lake di Como) einnig í miklu uppáhaldi svo ekki sé talað um fjalladýrðina og fegurðina þar sem er að mínu mati ómótstæðileg.“
„Besta lýsingin af þessum stöðum er eins og að vera staddur inn í fallegu málverki, þá sérstaklega nálægt Como vatninu. Síðan verð ég að nefna að hvít strönd og tær sjór er í miklu uppáhaldi hjá mér og þess vegna er ég mikill aðdáandi Karabíska hafsins. Ég get mælt með Mexíkó, Bahama, Jamaíka enda fátt sem toppar það að vera á fallegri hvítri strönd með tærum sjó.
Ég er eins mikið fyrir að leika mér á jetski í sjónum og þá helst á Bahama. Held það sé það skemmtilegasta sem ég hef gert. Sem og að læra köfun á Jamaíka en það er ólýsanleg sýn að sjá og upplifa undraheim hafsins.“
Bryndís segir ekkert eins dýrmætt og að ferðast með börnum og barnabarni. 
„Að vera ástfangin og að ferðast með maka sínum er mér einnig mjög kært. Það eru allt öðruvísi ferðir og nauðsynlegar líka.“
Áttu þér uppáhalds strönd?
„Að ganga meðfram allri strandlengjunni í Cancun í Mexico er algjört æði, en ef ég tæki ströndina og sjóinn til samans þá á Bahamas vinninginn.“
Hvað með besta staðinn að versla á?
„Einn af góðum kostum þess að vinna sem flugfreyja eru ferðalögin og hef ég farið víða í vinnunni, bæði hjá WOW air og Icelandair. Ég ætti eflaust ennþá eftir að fara til sem dæmi til  Ísraels, Los Angeles og Kansas City og margra annarra staða ef ég hefði ekki verið að fljúga. Mér finnst alltaf skemmtilegast að versla í Bandaríkjunum og get ég hreinlega tapað mér í slíkum ferðum.“
Bryndís segir hótelin á Ítalíu og í Karabískahafinu heillandi. 
„Hyatt Zilara í Cancun Mexico er æðislegt en Sandals keðjan stendur líka alltaf fyrir sínu og finnst mér Sandals South Coast á Jamaica rosalega fallegt hótel og alltaf gaman að gista þar. Á þessum hótelum er allt til alls, sex til níu veitingastaðir með öllu inniföldu svo þú tekur ekki upp veskið á meðan á dvöl þinni stendur.“
Hvert er draumaferðalagið þitt?
„Draumaferðin mín er til Maldiva eyja og hana myndi ég vilja fara með draumaprinsinum sem ég er ennþá að bíða eftir.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert