Eyða jólunum frá öllu áreiti á Lanzarote

Oddný og Sondre hafa verið á siglingu frá því í …
Oddný og Sondre hafa verið á siglingu frá því í apríl. Ljósmynd/Oddný Sunna Davíðsdóttir

Oddný Sunna Davíðsdóttir og eiginmaður hennar Sondre Jør­gensen njóta nú lífsins á Lanzarote og ætla að halda upp á jólin þar. Þau komu siglandi á skútunni sinni Freyju frá Danmörku en þau lögðu fyrst af stað um miðjan apríl. Fyrst sigldu þau upp með strandlengju Noregs áður en þau sigldu aftur suður. 

Oddný segir í samtali við mbl.is að þetta ferðalag hafi verið alveg ótrúlegt og hún sé mjög stolt af því að þeim hafi tekist að sigla niður að ströndum Afríku upp á eigin spýtur. Upphaflega planið var að sigla niður með ströndum Evrópu til Lanzarote, halda jólin þar og sigla svo yfir Atlantshafið til Karíbahafsins. Vegna kórónuveirunnar hafa plön þeirra tekið breytingum og stefna þau nú á að dvelja aðeins lengur á Lanzarote og skoða svo málin með vorinu.

Hvernig hefur siglingin frá Danmörku verið hingað til?

„Hún hefur verið alls konar. Frábær að mestu leyti en líka ansi erfið á köflum. Að sigla í Noregi var stórfenglegt, þvílík náttúra! En Noregshaf og Norðursjórinn geta verið erfið höf að sigla. Siglingin yfir Skagerak var í fyrsta skipti sem við sigldum yfir opið haf og hún var ansi erfið, þá sérstaklega seinustu 10 tímarnir.

Við vorum alveg búin á því í nokkra daga eftir á. Það var líka mikil spenna að sigla Ermarsundið svona seint á árinu, um miðjan september. Þar eru svakalegir straumar og mikil umferð, en rosalega fallegt líka. Það tók okkur að vísu ansi langan tíma að komast í gegnum sundið út af veðri. Til dæmis kom fellibylurinn Alex í heimsókn á meðan við vorum í Normandí í Frakklandi. Þá lá Freyja í höfn og við leigðum okkur bíl í nokkra daga og keyrðum um og skoðuðum svæðið. 

Biskajaflói var sömuleiðis spennandi sigling, þá sérstaklega svona seint að hausti til. Þá sigldum við frá Roscoff í Frakklandi niður til A Coruna á Spáni. Siglingin tók um fjóra daga. Það sem mér fannst sérstaklega spennandi var að líta niður í dimmbláa hafið og vita það að undir okkur er 15.000 metra djúpur sjór. Í Noregi voru firðirnir ansi djúpir en við höfðum aldrei siglt svo djúp höf áður!

Að sigla meðfram ströndum Portúgals var líka mikil upplifun. Aldrei höfum við séð svona mikið af höfrungum áður. Þeir „húkka sér far“  svipað og brimbrettakappi grípur bylgju getur höfrungur farið á bát með svolitlum skriðþunga sem gerir honum kleift að ferðast langar vegalengdir án þess að þurfa að vinna jafn mikla vinnu. Alveg frá Biskajaflóa og niður til Suður-Portúgals sáum við þessi fallegu dýr í hverri einustu siglingu.

Þegar við sigldum frá Lagos í Portúgal niður til Lanzarote fattaði ég allt í einu að við værum komin alla leið niður til Afríku og varð smá stolt. Þessi hugmynd sem kviknaði fyrir nokkrum árum, öll vinnan í bátnum, læra að sigla og allt það og núna er maður bara kominn niður til Afríku i hitann og pálmatrén. Ekki slæmt.“

Oddný og Sondre stoppuðu sjaldnar í borgum og bæjum en …
Oddný og Sondre stoppuðu sjaldnar í borgum og bæjum en þau hefðu gert ef ekki hefði verið fyrir kórónuveiruna. Ljósmynd/Oddný Sunna Davíðsdóttir
Kötturinn Flóki er ávalt með í för.
Kötturinn Flóki er ávalt með í för. Ljósmynd/Oddný Sunna Davíðsdóttir

Hvaða borgir og bæir sem þið hafið stoppað í hafa verið skemmtilegust?

„Við reynum að stoppa sem minnst í stórum borgum  þar er mesta Covid-smithættan. Þar að auki höfum við höfum miklu meiri áhuga á að vera í náttúrunni en í bæjum og borgum. Við erum bæði mikið útivistarfólk og þar líður okkur best.

Auðvitað þurfum við að stoppa af og til í bæjum/borgum til þess að versla í matinn, fylla á dísel og gera við (það er alltaf eitthvað að bila/brotna/skemmast á skútum). En þá reynum við að staldra ekki lengi við og auðvitað passa okkur vel meðan við erum þar (grímur, spritt og forðast almenningssamgöngur og fjölmenna staði). En nokkrir bæir eða staðir sem við vorum mjög heilluð af eru t.d. Hallands Vaderö í Svíþjóð, Bergen, Hardangerfjörden, Lysboten, Bondhus og Olavsundet í Noregi. Holland var líka æðislegt. Þar sigldum við svokallaða „Sandmastrout“ þar sem við siglum um sund í gegnum allt landið. Þar sigldum við í gegnum fleiri sjarmerandi litla hollenska bæi og enduðum niðri við Amsterdam. Við vorum sérstaklega hrifin af bænum Groningen í Norðaustur-Hollandi.

Ljósmynd/Oddný Sunna Davíðsdóttir

Normandíhéraðið í Frakklandi er rosalega fallegt og má þá sérstaklega nefna bæinn Morlaix. Þýska eyjan Helgoland og Cíes-eyjarnar við Spán voru í miklu uppáhaldi  spennandi náttúra. Borgirnar Porto og Lissabon langar okkur að skoða betur á heimleið, það er að segja ef Covid-ástandið er betra þá, við stoppuðum bara stutt og vorum lítið að túristast þar sem það voru ansi rauðar tölur þegar við komum. Í Lagos stoppuðum við lengur og skoðuðum betur  ætli það sé ekki uppáhalds í Portúgal. Þvílík fegurð!“

Hver er helsti kosturinn við að ferðast um siglandi í heimsfaraldri?

„Einveran og plássið. Við erum mikið ein á fallegum stöðum sem venjulega væru fullir af túristum. Við stoppuðum t.d. við Cíes-eyjar á Norður-Spáni. Mjög vinsæll áfangastaður og eru þær venjulega troðnar af fólki. Þegar við komum vorum við algjörlega ein á eyjunum og höfðum þessa paradís fyrir okkur.

Freyja á siglingu.
Freyja á siglingu. Ljósmynd/Aðsend

Má líka nefna t.d Preikestolen í Noregi  venjulega er troðið af fólki uppi á toppnum en við vorum alein þegar við komum. Svona hefur þetta verið víða. Það eru sérstaklega mikil forréttindi að fá að vera alein og heyra ekkert nema yndisleg náttúruhljóð þegar maður veit að venjulega eru þessir staðir troðnir af fólki. Þar af auki er alltaf laust pláss á öllum höfnum. Við þurfum voða lítið að spá í plan B eins og maður er oft með, þar sem það er næstum 100% laust eitthvert pláss fyrir okkur hvert sem við förum.“

Hvað hafið þið lært á siglingunni?

„Margt og mikið. Maður hefur mikinn tíma til að slaka á, hugsa og njóta  „mæta sjálfum sér“ laus við alla þessu venjulegu truflun eins og sjónvarpið og samfélagsmiðlana. Okkur finnst við tengdari náttúrunni og okkur sjálfum á einhvern hátt. Auðvitað erum við fljótt komin „online“ um leið og það er tenging.

Ég reyni að halda instagramsíðunni okkar „up to date“ eins mikið og ég get en það er alveg frábært að taka nokkurra daga eða viku pásu af og til. Við höfum líka þurft að læra að hægja á okkur. Við erum bæði orkumikil, miklir „do-ers“ og hlutirnir gerast oft mjög hratt, of hratt. Þegar þú siglir um þarftu að læra að taka það rólega.

Höfrungarnir húkka sér far með skútunni.
Höfrungarnir húkka sér far með skútunni. Ljósmynd/Oddný Sunna Davíðsdóttir

Við þurfum oft að bíða eftir rétta veðurglugganum og sömuleiðis á lengri siglingum þarf maður að geta skemmt sér til að láta tímann líða hraðar. Þýðir ekkert að berjast á móti straumnum  stressa sig og þannig. Við förum eftir veðri og allt tekur bara þann tíma sem það tekur og þannig er það. Eitt sem við höfum mikið lært á er veðrið  okkur er farið að líða hálf eins og veðurfræðingum. Maður er farinn að þekkja mynstrin og sjá fram í tímann hvernig veðrið getur mögulega þróast. Við fylgjumst með hegðun vinda, hita, gufu, skýja og úrkomu. Windy.com gefur okkur allar upplýsingarnar sem við þurfum.“

Hvar eruð þið stödd núna og hvað ætlið þið að stoppa lengi?

„Núna erum við á eyjunni Lanzarote og reiknum með að taka smá vetrarstopp hér. Upprunalega var planið að halda hér jól og sigla svo yfir Atlantshafið í Karíbahafið í janúar. Þar sem kórónuveiruástandið er ekki sem best þar höfum við ákveðið að fresta þeirri ferð. Margar af eyjunum eru lokaðar, t.d. Kúba, Jamaíka, Dóminíska lýðveldið, Haítí og fleiri. Okkur langar frekar að koma seinna þegar þessar eyjar eru opnar. Í staðinn ætlum við að vera hér fram í mars og sigla um eyjarnar i kring.“

Oddný og Sondre hafa notið fámennis á ferðamannastöðum.
Oddný og Sondre hafa notið fámennis á ferðamannastöðum. Ljósmynd/Oddný Sunna Davíðsdóttir

Hvað tekur við eftir jólin?

„Það er ekki alveg ákveðið en við ætlum að skoða allar eyjarnar í kring, sigla upp til Madeira og svo er spurning hvort við siglum yfir til Azoreyja eða inn Miðjarðarhafið. Ef ástandið á Englandi verður betra langar okkur enn þá rosalega að sigla til Írlands og Skotlands. Þetta kemur allt saman í ljós í vor. Við erum í svona „go-with-the-flow“-hugarfari og viljum alls ekki plana of mikið.“

Ljósmynd/Oddný Sunna Davíðsdóttir
Oddný.
Oddný. Ljósmynd/Aðsend
Sondre og Flóki.
Sondre og Flóki. Ljósmynd/Oddný Sunna Davíðsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka