Helga Braga í leynibransa í 32 ár

Helga Braga Jónsdóttir í Reynisfjöru. Hún útskrifaðist úr Leiðsögurskóla Íslands …
Helga Braga Jónsdóttir í Reynisfjöru. Hún útskrifaðist úr Leiðsögurskóla Íslands í vor.

Leikkonan Helga Braga Jónsdóttir bætti nýjum titli í safnið nýlega þegar hún útskrifaðist sem leiðsögumaður frá Leiðsöguskóla Íslands. Helga hefur unnið í ferðabransanum í yfir þrjá áratugi meðfram leiklist og uppistandi. Hún segist hafa orðið ástfangin af Íslandi aftur í náminu.

Helga var að vinna hjá Wow þegar flugfélagið féll í mars 2019. Seinna sama haust hóf hún leiðsögumannsnámið sem hún tók á fjórum önnum. „Ég byrjaði haustið 2019. Þá fór ég að hugsa hvað ég vildi gera eftir að Wow fór. Þá byrjaði ég fyrri hluta námsins. Síðan eftir áramót fór ég að taka upp Kötlu. Ég kláraði núna í vor ásamt því að leika í The Last Kvöldmáltíð. Það var rosa mikið,“ segir Helga sem fékk Grímutilnefningu fyrir leik sinn í The Last Kvöldmáltíð. 

Erlendir ferðamenn eru hægt og rólega að koma til landsins og Helga fer í sína fyrstu ferð í sumar. „Ég fæ ferð í júlí með amerískum hópi. Það verður amerískur leiðsögumaður og ég. Við förum hringinn. Þetta fer rólega af stað. Svo er ég að fara kynna mig sem leiðsögumaður.“

Helga Braga fremst ánægð með útskriftina úr Leiðsöguskóla Íslands.
Helga Braga fremst ánægð með útskriftina úr Leiðsöguskóla Íslands.

Aðaláherslan í náminu er á ferðalög um Ísland en Helga stefnir engu að síður á að fara til Kúbu á næsta ári í gegnum ferðaskrifstofuna Tripical með hóp af Íslendingum. Hún segist hafa unnið mikið erlendis sem fararstjóri en þær Edda Björgvinsdóttir leikkona voru með kvennaferðir út um allan heim.

„Ferðabransinn er búinn að vera leynibransinn minn í 32 ár. Ég byrjaði á því að vinna á ferðaskrifstofu í sjö sumur, Ferðaskrifstofu Íslands. Það var svo skemmtilegt. Ég var að vinna við að selja útlendingum Ísland. Ég var ein á laugardögum og þar var alls konar fólk sem kíkti við. Ég þurfti að finna hvað fólk langaði og vantaði. Þetta vann ég við í sjö sumur og fannst rosalega gaman. Eftir það komu nokkur ár af þessum kvennaferðum og síðan gerðist ég flugfreyja og var flugfreyja í níu ár. 2011 lærði ég að verða flugfreyja, 2021 lærði ég að verða leiðsögumaður, hvað geri ég 2031?“

Helga segir að leiklistin nýtist vel í leiðsögumannsstarfinu, margir íslenskir leikarar hafa lært leiðsögumennsku og starfa í greininni meðfram leiklistinni.

Helga Braga leikur Vigdísi í Kötlu á Netflix.
Helga Braga leikur Vigdísi í Kötlu á Netflix. Ljósmynd/Lilja Jóns/Netflix

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Ég held mikið upp á Snæfellsnesið af því ég er ættuð þaðan. Það er svo margt að sjá. Við fórum í æfingaferðir í skólanum og ég varð bara ástfangin af landinu aftur. Ég er búin að vera svo mikið að flakka erlendis en ég varð svo innilega ástfangin af landinu. Ég elska Austurland og Vestfirði, ég elska þetta allt saman.“

Það er ekki hægt að sleppa Helgu án þess að spyrja hana út í netflixþættina Kötlu þar sem hún fer með hlutverk Vigdísar læknis í Vík. Helga segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við þáttunum sem frumsýndir voru 17. júní. Fyrstu árin eftir útskrift var Helga fastráðin í leikhúsunum og lék alls konar hlutverk en er kannski þekktust í seinni tíð fyrir gamanhlutverk og uppistand. Hlutverkið í Kötlu er alvarlegt.

„Þetta er dramarulla. Ég fór í áheyrnarprufu. Selma boðaði mig, ég var einmitt í skólanum þegar hún hringdi í mig. Það var yndislegt að taka þátt í þessu,“ segir Helga að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert