Nám á forsendum ferðaþjónustunnar

Jóna Valborg þróar og kynnir verkfæri og fræðsluefni fyrir ferðaþjónustuna …
Jóna Valborg þróar og kynnir verkfæri og fræðsluefni fyrir ferðaþjónustuna ásamt því að halda utan um heimasíðu Hæfnisetursins og ritstýra markaðs- og kynningarefni þess. Ljósmynd/Tinna Stefánsdóttir

Jóna Valborg Árnadóttir, sérfræðingur hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, segir stefnt að því að koma á heildstæðu námi í ferðaþjónustu á framhaldsskólastigi með skýrum tengingum við frekara nám í ársbyrjun 2022. 

Jóna Valborg þróar og kynnir verkfæri og fræðsluefni fyrir ferðaþjónustuna ásamt því að halda utan um heimasíðu Hæfnisetursins og ritstýra markaðs- og kynningarefni þess.

„Hæfnisetrið starfar á forsendum ferðaþjónustunnar og á í samtali við atvinnulífið, ferðaþjónustufyrirtækin, fræðsluaðila, stjórnvöld og opinbera aðila til að greina þarfir fyrir fræðslu og þjálfun. Markmiðið er að efla hæfni og fagmennsku stjórnenda og starfsfólks og stuðla þannig að auknum gæðum, jákvæðri ímynd og arðsemi greinarinnar. Með það að leiðarljósi þróar Hæfnisetrið lausnir og aðlagar verkfæri til að auðvelda ferðaþjónustunni að sækja sér fræðslu og halda utan um hana, kynnir fjölbreytt úrval námskeiða og ýmiss konar stuðningsefni á heimasíðu sinni, hæfni.is. Efnið er opið öllum til afnota. Hæfnisetrið vill auka samvinnu um menntun og fræðslu og heldur reglulega menntamorgna ferðaþjónustunnar þar sem koma saman stjórnendur og starfsfólk ferðaþjónustunnar ásamt fræðsluaðilum og miðla sinni reynslu af því sem efst er á baugi hverju sinni. Hæfnisetrið er vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) og er fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Fimm starfsmenn FA vinna hjá Hæfnisetrinu.“

Liðsheild og starfsánægja skipta máli

Hvaða námskeið eru vinsæl í vetur?

„Fræðslutorgið á hæfni.is geymir fjölbreytt úrval námskeiða í boði fræðsluaðila. Þar má meðal annars finna námskeiðin: Árangursrík teymisvinna, Styrkari og öruggari rödd, Markþjálfun við stjórnun, Toppsímaþjónusta, Framlínustjórnun, Lagaumhverfi ferðaþjónustunnar, Inngangur að viðburðastjórnun og Hönnun ferðaþjónustuumhverfis.

Oft er spurt um námskeið sem snúa að markaðssetningu, liðsheild og starfsánægju.“

Hvaða úrræði eru í boði fyrir stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja?

„Ávinningur fyrirtækja af fræðslu er ótvíræður. Fræðsla skilar sér í meiri starfsánægju, auknum gæðum, minni rýrnun, aukinni framleiðni, minni starfsmannaveltu, minni fjarveru og færri kvörtunum. Á hæfni.is er að finna fræðsluefni, verkfæri og góð ráð fyrir ferðaþjónustuna. Við hjá Hæfnisetrinu erum alltaf reiðubúin að aðstoða ferðaþjónustufyrirtæki við að koma á markvissri fræðslu, benda á leiðir til fjármögnunar fræðslu og meta árangurinn af henni.“

Hefur starfsumhverfi ykkar og kennslan sem þið bjóðið upp á breyst vegna kórónuveirunnar?

„Við hjá Hæfnisetrinu höfum nýtt tímann til að huga að nýjum leiðum, endurskoða verkefni og aukið áherslu á nýsköpun og uppbyggingu á samstarfi aðila innan ferðaþjónustunnar.“

Nám fyrir ungt fólk í greininni

Eitt af markmiðum þjónustusamnings Hæfnisetursins við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið er að koma á starfstengdu þrepaskiptu námi í ferðaþjónustunni með framhaldsfræðslunni og formlega skólakerfinu.

„Í upphafi ársins hófst með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins vinna Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu og FA við samsetningu námsbrauta og námskrárskrif þar sem áhersla er á tengingar á milli skóla, fræðsluaðila og atvinnulífs. Stefnt er að því að koma á heildstæðu námi í ferðaþjónustu á framhaldsskólastigi með skýrum tengingum við frekara nám í ársbyrjun 2022. Með þessari tengingu verður hægt að bjóða upp á tækifæri til náms innan framhaldsskólans fyrir ungt fólk sem langar að vinna í ferðaþjónustunni en ekki síður fyrir þá sem þegar starfa þar og vilja byggja ofan á þá reynslu og færni sem þeir búa yfir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert