Bergrún Íris Sævarsdóttir er margverðlaunaður rithöfundur og teiknari sem hefur vakið mikla athygli fyrir barnabækur sínar. Bergrún er dugleg að ferðast með fjölskylduna sína um tjaldstæði landsins og nær að skapa ógleymanlegar gæðastundir.
Ferðaðistu mikið í sumar?
„Við fjölskyldan ferðuðumst í um fimm vikur samfleytt enda líður okkur hvergi betur en á tjaldstæðum landsins. Síðustu sumur höfum við reynt að nýta sumarfríið sem mest í ferðalög og nú hafa bæst við íþróttamót eldri sonarins svo dagskráin hans stýrir því svolítið hvert ferðinni er haldið.“
Hvað stóð upp úr?
„Þrátt fyrir að ég hafi alla tíð ferðast gríðarmikið tekst Íslandi enn að koma mér á óvart. Náttúran skartaði sínu fegursta og það var stuttbuxnaveður alla daga. Lundabyggðin á Borgarfirði Eystri er nokkuð sem ég hefði ekki viljað missa af. Annars stóð hvað helst upp úr að ná ótal gæðastundum með strákunum mínum.“
Eftirminnilegasta ferðalagið?
„Árið 2018 ferðuðumst við í húsbíl um Danmörku, Þýskaland, Holland og Belgíu. Tjaldstæðin þar ytra eru fyrsta flokks og ferðalagið mun einfaldara en ég hafði haldið. Það var sannkölluð draumaferð og yndislegt að geta keyrt áhyggjulaus um í fjórar vikur. Veðrið lék við okkur og alls staðar eitthvað að sjá og skoða með strákunum.“
Áttu þér draumaferðalag?
„Svo lengi sem ég er með strákunum mínum þá hef ég ekki miklar kröfur. Ég verð þó að viðurkenna að tjaldstæðalífið er auðveldara ef það rignir ekki mikið. Mig dreymir um að fara oftar í húsbílaferðir erlendis, til dæmis til Austur Evrópu og jafnvel Austurríkis og Ítalíu. Ég er þó algjör heimalningur og líður óskaplega vel á Íslandi. Það eina sem ég þarf er heitt grill, fjölskylduna mína og sundlaug í nágrenninu.“
Einhver góð ferðaráð?
„Okkur hefur reynst vel að skipuleggja okkur nær ekkert. Sveigjanleikinn býður upp á svo mörg óvænt ævintýri. Við höfðum ekkert planað Evróputúrinn og nutum hvers einasta dags. Við höfum haft þá reglu að vera í nokkurn vegin skjálausu fríi því það hentar strákunum mínum vel að hvíla allt áhorf og tölvuleiki og leika sér sem mest úti. Svo er bíllinn fylltur af bókum, litum, spilum og góðu nesti og haldið á vit ævintýranna.“
Hvað er framundan?
„Framundan er mikill uppskerutími hjá höfundum landsins. Bókin mín er komin út því mér finnst ágætt að vera aðeins á undan flóðinu. Krakkana þyrstir í eitthvað spennandi að lesa og því skrifaði ég bókina Kennarinn sem kveikti í. Hún hefur fengið frábærar viðtökur og hoppaði meira að segja í efsta sæti metsölulistans svo það er ljóst að börn landsins eru jafn miklir glæpasöguaðdáendur og hinir fullorðnu.
Við Björk Jakobsdóttir erum svo á fullu að vinna í því að koma Langelstur að eilífu á svið og leitum nú logandi ljósi að ungri leikkonu til að leika Eyju á móti Rögnvaldi, en hann verður leikinn af hinum frábæra Sigga Sigurjóns í Gaflaraleikhúsinu á næsta ári.“