Í nostalgíukasti í Malaví

Auður Lóa fór til Malaví ásamt fjölskyldu sinni og heimsótti …
Auður Lóa fór til Malaví ásamt fjölskyldu sinni og heimsótti meðal annars húsið sem fjölskyldan bjó í á árum áður. Auður Lóa er önnur frá vinstri. Ljósmynd/Aðsend

Auður Lóa Guðnadóttir listakona heimsótti nýverið Malaví en þar átti hún heima sem barn. Í ferðinni rifjuðust upp margar minningar og áhugavert að sjá hversu miklum breytingum landið hafði tekið. Henni finnst mikilvægt að fara í ferðalög með opinn hug og vera ekki með fyrirframgefnar hugmyndir.

Síðasta ferðalagið sem þú fórst í?

„Síðasta utanlandsferðin sem ég fór í var vorið 2019, í þriggja vikna ferð með fjölskyldunni minni til Malaví. Við höfðum verið lengi að skipuleggja þessa ferð og safna fyrir henni, en við bjuggum þarna úti þegar ég var yngri. Landið hefur tekið töluverðum breytingum síðan við vorum þarna síðast, enda fólksfjöldi nánast tvöfaldast. Við vorum í miklu nostalgíukasti, hittum gamla vini og heimsóttum marga gamla staði. Við ákváðum meðal annars að keyra framhjá gamla húsinu sem við bjuggum í í Lilongwe, og þá kom í ljós að þar var búið að opna kaffihús. Svo við fengum að fara inn, fengum tebolla og spjölluðum við fólkið sem býr þar núna.

Það var mjög áhugavert að koma þangað sem fullorðin manneskja. Ég er frekar illa áttuð og veit oft ekkert alveg hvar ég er, var reyndar mun verri þegar ég var lítil. Svo það var margt sem ég hafði kannski ekki skýra mynd af í höfðinu, mundi kannski frekar eftir einhverri vissri áferð eða lykt eða eitthvað svoleiðis. Svo vorum við Ásdís systir alltaf að rekast á eitthvað eitt og annað suðurafrískt nammi og snakk, sem hafði greinilega verið einhver mikilvægur punktur í tilveru okkar þarna, svo var kannski svolítið hættulegt að vera þarna sem fullorðinn og fjárráða einstaklingur. Ég get ímyndað mér að þetta hafi verið allt öðruvísi fyrir mömmu og pabba.“ 

Hvað stóð upp úr?

„Það var nú eiginlega mjög margt sem stór upp úr, en það fyrsta sem mér dettur í hug er að við höfðum viðkomu í friðuðu skóglendi sem heitir Namizimu. Við gistum nokkrar nætur hjá írönsku/bresku pari sem á heima þar og leigir út herbergi fyrir ferðamenn í húsi sem þau eru hægt og rólega að gera upp. Hún hafði alist upp í Malaví en foreldrar hennar, eins og margir Íranar, flúðu land vegna byltingarinnar. Skógurinn er töfrandi staður til að vera á og heimili alls kyns dýra.“ 

Auður Lóa og Starkaður eru dugleg að ferðast um landið.
Auður Lóa og Starkaður eru dugleg að ferðast um landið. Ljósmynd/Aðsend

Skemmtilegustu ferðafélagarnir?

„Mér finnst mjög skemmtilegt að ferðast með fjölskyldu minni, Starkaði sambýlismanni mínum, mömmu, pabba og litlu systur. Við fórum saman í þessa fræknu reisu, en ég hef ferðast víða með þeim. Bæði erlendis, um Afríku og Evrópu, en við höfum líka farið í ýmsar skemmtilegar ferðir um Ísland. Í annarri sérstaklega eftirminnilegri ferð gengum við um Hornstrandir með vinafólki okkar, en í þeirri ferð sem öðrum var mikið hlegið og sprellað, og frumsamdir leikir leiknir af miklum móð.“

Einhver góð ferðaráð?

„Ekki beinlínis, ég get nú kannski bara talað fyrir mig sjálfa. Ég reyni að temja mér að fara af stað með opinn hug og ekki með fyrirframgefnar hugmyndir. Svo finnst mér reyndar ekki mjög gaman að fara hratt yfir, mér finnst skemmtilegra að verja lengri tíma á sama stað ef það er möguleiki á því. En fólk er svo misjafnt með þetta.“ 

Auður Lóa dvaldi í Selárdal í sumar og setti þar …
Auður Lóa dvaldi í Selárdal í sumar og setti þar upp sýningu á verkum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Ferðaðistu mikið í sumar?

„Við Starkaður vorum bæði að sýna á Vestfjörðum í sumar, í Selárdal, í tengslum við Staði. Svo í júní dvöldum í viku í Selárdal í húsi Samúels Jónssonar meðan við unnum að uppsetningu verkanna. Við höfðum aðstöðu í litla kastalanum hans og það var frekar ævintýralegt. Veðrið var reyndar skelfilegt og hitinn kringum frostmark, og við líka í stressi að reyna að hafa allt tilbúið fyrir sýninguna. En það var nú bara sport, svo man maður oft meira eftir ferðalögum þar sem allt er í steik.

Við ferðumst talsvert mikið um Ísland á sumrin og erum mikið þarna fyrir norðan, en við vinnum sem safnverðir í Sauðaneshúsi á Langanesi á sumrin, og rekum þar reyndar gestavinnustofu fyrir listamenn líka. Þegar við fáum frídag saman finnst okkur gaman að fara í útilegur og gönguferðir. Veðrið á Norðausturlandi var lygilegt í sumar svo við vorum mikið úti, tíndum mikið af berjum og sveppum sem okkur þykir gaman. Við fórum meðal annars á mjög skemmtilegan stað rétt hjá Vopnafirði sem heitir Kattárdalur, sem mér þótti sérstaklega gaman vegna nafnsins, og gengum um Þerribjörg. Svo hjálpum við oft líka aðeins til í sveitinni, förum í göngur út á nes og svoleiðis.“

Hvað er fram undan?

„Við Starkaður höfum lengi verið að plana ferðalag um Bretlandseyjar með vinum okkar, ég held það verði næsta ferðalagið, allavega næsta utanlandsferðin. Hugmyndin var að fljúga kannski til Skotlands og keyra svo eitthvað um á milli staða, skoða okkur um og borða einhvern góðan mat vonandi.“ 

Systurnar eiga góðar minningar frá lífi þeirra í Malaví.
Systurnar eiga góðar minningar frá lífi þeirra í Malaví. Mynd/Auður Lóa Guðnadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert