„Bestu ferðalögin þegar stress og pressa eru fjarri“

Margrét Rún er mikið fyrir útivist og hreyfingu. Utanbrautargönguskíði eru …
Margrét Rún er mikið fyrir útivist og hreyfingu. Utanbrautargönguskíði eru hennar nýjasta æði. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Rún Rúnarsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Glímusambands Íslands og meistaranemi í ritlist við Háskóla Íslands er ævintýragjörn útivistarkona. Hún er fædd og uppalin á Ísafirði og ólst upp við ferðalög og útilegur.

Ég er ævintýragjörn að upplagi en foreldrar mínir fóru mikið með okkur systkinin í útilegur þegar ég var lítil. Það má segja að ferðabakterían hafi sprottið þaðan en ég lærði snemma að oft þarf ekki að ferðast langt eða lengi til að ferðin verði eftirminnileg,“ segir Margrét Rún en fjölskyldan fór í ófá ferðalögin inn í Ísafjarðardjúp með gamalt fellihýsi í eftirdragi þegar á æskuárum Margrétar.

Margrét dáist að sólsetrinu eftir góðan skottúr á fjöllum.
Margrét dáist að sólsetrinu eftir góðan skottúr á fjöllum. Ljósmynd/Aðsend

Þessi ferðalög fjölskyldunnar kenndu mér að ferðaáætlun getur breyst og íslenska veðráttan getur sett strik í reikninginn. Þá er best að taka því með æðruleysi, gera gott úr aðstæðum því það er jú samveran sem er í lykilhlutverki. Mér finnst þetta eiga jafn vel við fjölskylduferðirnar hér áður sem og fjalla- eða klifurferðir mínar í dag,“ útskýrir hún. 

Meira um stutt ferðalög vegna anna í skólanum

Líkt og áður sagði stundar Margrét Rún meistaranám af fullum krafti. Lífið á námsárunum einkennist oft af bágu fjármagni og tímaskorti til að halda uppi áhugamálum og félagslífi. Margrét segir það geta sett strik í reikninginn að vera námsmaður en að hún leyfi sér þó oft að taka skyndiákvarðanir og skella sér í ferðalög með góðum vinum.

Námsmannalífið veldur því að ég fer sjaldan í löng ferðalög en mun oftar í örferðir með vinunum. Þar sem við stundum fjallgöngur, klifur eða kajakróður svo fátt eitt sé nefnt. Ég á samt mína drauma um lengri ferðir, bæði hér heima sem og erlendis en vonandi líður ekki að löngu þar til þeir geta orðið að veruleika,“ segir Margrét Rún sveimhuga. 

Norður-England hreif Margréti upp úr skónum.
Norður-England hreif Margréti upp úr skónum. Ljósmynd/Aðsend

Í hvers konar ferðalögum nýtur þú þín best?

Ég kann best við mig á ferðalagi þegar tímapressa og annað stress er fjarri,“ segir Margrét. „Ég vil geta notið ferðarinnar í næði og leyft líkamsklukkunni að stjórna för,“ segir hún jafnframt en Margrét kann vel við sig uppi á fjöllum og í velgrónu landslagi þar sem hún fær tækifæri til að dást að og njóta umhverfis og náttúrufegurðar.

Margrét Rún elskar að ganga fjöll og finnst veturinn sjarmafullur.
Margrét Rún elskar að ganga fjöll og finnst veturinn sjarmafullur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hreifst alveg sérstaklega af landslaginu og hlykkjóttu vegunum í Cumberland-héraði á ferðalagi mínu í Norður-Englandi en Skotland býr yfir sterku aðdráttarafli sem togar mig til sín,“ segir Margrét. 

Hver er fallegasti staður sem þú hefur ferðast á?

„Nú get ég ekki annað en nefnt Vestfirði. Þar sem fjöllin faðma mann að sér á meðan sólsetrin jafnt sem norðurljósin dáleiða hugann,“ segir Margrét Rún að lokum og sér sjónarspilið fyrir sér í huganum. 

Vetrarsportið heillar Margréti. Hér er hún á fjallaskíðum í Esjufjöllum …
Vetrarsportið heillar Margréti. Hér er hún á fjallaskíðum í Esjufjöllum í Breiðamerkurjökli. Ljósmynd/Aðsend

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert