Býður upp á kerrufitness í Köben

Anna Svandís Gísladóttir er fitness þjálfari í Kaupmannahöfn.
Anna Svandís Gísladóttir er fitness þjálfari í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Anna Svandís Gísladóttir flutti til Kaupmannahafnar árið 2017 ásamt eiginmanni sínum, Atla Frey Einarssyni, og börnum þeirra þremur, Sigrúnu Ástu, Gísla Má og Sóleyju Ingu. Anna Svandís er hjúkrunarfræðingur að mennt en fyrir rúmu ári bætti hún við sig menntun og gerðist fitness þjálfari. 

„Það kom til vegna heimsfaraldursins. Þegar líkamsræktarstöðvarnar lokuðu hjá okkur á Covid tímanum byrjaði ég að æfa með fjölskyldunni minni úti í garði hjá okkur. Það þróaðist svo í það að ein og ein vinkona kom að æfa með mér og allt í einu var ég farin að vera með tvo til þrjá daga í viku þar sem ég var með æfingarhring fyrir fleiri og fleiri vinkonur,“ segir Anna Svandís um tildrögin. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og fann hvað þetta gaf mér mikið þannig að ég ákvað að ná mér í menntun sem fitness þjálfari,“ útskýrir hún.

Góð þátttaka hefur verið í kerrufitnessinu undanfarið.
Góð þátttaka hefur verið í kerrufitnessinu undanfarið. Ljósmynd/Aðsend

Anna Svandís segist alla tíð hafa verið mikil íþróttakona. Útivera og regluleg hreyfing hefur verið stór partur í lífi Önnu en hún hefur haft hvers kyns líkamsrækt í fyrirrúmi í gegnum tíðina og reynt að huga vel að heilbrigði sínu. Eftir að Anna Svandís nældi sér í þjálfaragráðuna fékk hún hugmynd að þjálfun ætluðum mæðrum og feðrum með börn á kerrualdri. Þar sá hún tækifæri til að sameina tvö sín helstu áhugamál; hreyfingu og útiveru.

„Þegar ég var að hugsa um hvernig ég gæti nýtt mér þessa nýju menntun þá var útiþjálfun fyrir minni hópa alltaf efst á blaði hjá mér,“ segir Anna Svandís. „Ég hafði heyrt talað um kerrupúl fyrir mörgum árum en það var alltaf kennt á Íslandi. Mér finnst konseptið á bak við þá þjálfun mjög spennandi og var það eitthvað sem ég hafði að leiðarljósi við uppsetningu kerrufitness námskeiðsins,“ segir hún. 

Kerrufitness í Köben

„Kerrufitness er námskeið sem fer fram utandyra og hefur það að markmiði að bæta þol og styrk mæðra og feðra í fæðingarorlofi og að auka tengsl við aðra foreldra í svipuðum aðstæðum. Við æfingarnar er notast við umhverfið og eigin líkamsþyngd og hver og einn stjórnar sínum hraða,“ útskýrir Anna. „Veðrið hefur ekki endilega verið það skemmtilegasta það sem af er ári en mæðurnar sem eru skráðar á námskeiðið hafa ekki látið það stoppa sig. Þær klæða sig eftir verðir og taka vel á því,“ segir hún.

„Með þessari þjálfun og námskeiðum get ég líka blandað saman áhuga mínum á útiveru og þjálfun og miðlað reynslu minni sem hjúkrunarfræðingur í ungbarnaeftirliti um margra ára skeið,“ segir Anna Svandís en hún sinnti ungbarnaeftirliti á heilsugæslunni á Seltjarnarnesi þegar hún bjó á Íslandi. 

Góðar vinkonur púla úti í garði undir stjórn Önnu Svandísar.
Góðar vinkonur púla úti í garði undir stjórn Önnu Svandísar. Ljósmynd/Aðsend

Námskeiðin í kerrufitnessinu hafa farið vel af stað að sögn Önnu Svandísar. Hún segist finna fyrir miklum áhuga frá foreldrum enda sé það nauðsynlegt fyrir mæður og feður að hreyfa sig reglulega og anda að sér frísku lofti. „Áhuginn er svo sannarlega til staðar og næsta námskeið hefst í byrjun mars,“ segir hún og bendir á að sjálf sé hún ekki með barn á kerrualdri. „Það er löngu liðin tíð hjá mér,“ segir Anna en börn hennar eru 17 ára, 14 ára og 11 ára gömul. 

Er kerrufitness námskeiðið eingöngu fyrir Íslendinga sem búsettir eru í Kaupmannahöfn?

„Til að byrja með hef ég ákveðið að einbeita mér að íslenskum foreldrum. Svo er aldrei að vita hvað gerist í framhaldinu,“ segir Anna Svandís sem tekur líka að sér að þjálfa einstaklinga sem langar að breyta um lífstíl. „Auk þess að vera með kerrufitnessið hef ég verið með einstaklinga í þjálfun undanfarna mánuði líka,“ segir Anna Svandís og virðist ekki sitja auðum höndum. 

Mikilvægt að hitta aðra Íslendinga

„Ég held að það séu um 6000 Íslendingar búsettir í og við Kaupmannahöfn og ef ég tala fyrir mig og mína þá hefur það gefið okkur mjög mikið að eiga samverustundir með samlöndum okkar. Það er auðvitað mjög misjafnt hversu mikið fólk sækist í að sameinast öðrum Íslendingum á svæðinu,“ segir hún en samfélag Íslendinga er ansi stórt á Kaupmannahafnar-svæðinu og mikil samheldni sem fylgir brottfluttum Íslendingum þar. Þá hefur stöðug dagskrá í Jónshúsi mikil áhrif á Íslendinga sem hafa þörf fyrir að halda hópinn. 

„Krakkarnir okkar hafa farið í íslensku skólann í Jónshúsi. Þau hafa líka sótt íslenska fermingarfræðslu. Maðurinn minn er í íslenskum karlakór og ég er virk í FKA-DK eða Félagi kvenna í atvinnulífinu í Danmörku,“ segir Anna og finnst mikilvægt að njóta samveru Íslendinga á svæðinu. 

Anna Svandís hefur alla tíð verið dugleg að hreyfa sig.
Anna Svandís hefur alla tíð verið dugleg að hreyfa sig. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er það sem þú saknar mest frá Íslandi?

„Fyrir utan fjölskyldu og vina þá sakna ég þess að sjá ekki hafið, fjöllin og geta farið í sund. Þegar við förum heim þá förum við daglega í sund, stundum tvisvar á dag. Það eru ótrúleg lífsgæði að geta farið í sundlaugarnar og heitu pottana. Maður áttar sig kannski ekki á þessum forréttindum fyrr en maður hefur ekki aðgengi að þeim,“ segir Anna Svandís og viðurkennir að fjölskyldan eigi einhvern tímann eftir að flytja aftur heim til Íslands. „Við ætluðum upphaflega að vera hér í tvö til fimm ár. Nú tökum við bara eitt ár í einu og njótum lífsins á meðan við erum hér en það er alveg á hreinu að við eigum eftir að koma aftur heim í náinni framtíð.“

Hvað er það besta við Kaupmannahöfn að þínu mati?

Mér finnst dásamlegt hvað það er mikill fókus á að njóta samverustunda með  fjölskyldu og vina í svokölluðu „hygge“. Ég er mikið fyrir útiveru og hér er endalaust hægt að finna nýjar leiðir til að labba og hjóla“ segir Anna Svandís sem fer fótgangandi eða hjólandi flestar leiðir sínar í Kaupmannahöfn. 

„Ekki skemmir fyrir að vorið og sumarið er mjög langt og það að geta verið úti nánast allan daginn í góðu veðri gefur mér mikið,“ segir hún að lokum.

Hjónin Anna Svandís og Atli Freyr ásamt börnum sínum þremur.
Hjónin Anna Svandís og Atli Freyr ásamt börnum sínum þremur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert