Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur var staddur í Provence héraði í Frakklandi á dögunum. Tilgangur ferðarinnar var bókahátíð í Fuveau (Les Ecrivains en Provence) en þar voru einnig rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir, Ragnar Jónasson, Einar Már Guðmundsson og Eva Björg Ægisdóttir. Hann rekur ferðasöguna undir yfirskriftinni Rósavín og villisvín*
„Ég er snúinn heim eftir langa helgi í Fuveau í Provence héraði. Þar var ég í góðum félagsskap íslenskra höfunda – Einar Már, Eva Björg, Yrsa og Ragnar Jónasson héldu mér uppi á snakki um bókmenntir, sjálfsmynd, dauðann og barnauppeldi; að ónefndum Óla, manni Yrsu, sem hélt hreinlega allri sýslunni upp á snakki enda framúrskarandi selskapsmaður,“ segir Eiríkur Örn á heimasíðu sinni.
„Við sexmenningarnir vöktum langt fram á nótt alla dagana og vorum rekin fram úr eldsnemma á hverjum morgni til þess að sitja við áritunarborð á bókamarkaði – það má nánast heita að við höfum áritað sleitulaust frá 10 til 17-18 síðdegis tvo daga í röð og er þó ekki Fuveau nein stórborg (þótt hún liggi nærri Aix-en-Provence).“
„Við gistum skammt utan við bæinn á litlu sveitahóteli með sundlaug sem kom sér vel þegar búið var að sleppa okkur úr bókamarkaðstjaldinu. Herbergin voru stór og mikill skógur umleikis hótelið, með tilheyrandi dýralífi. Einu sinni fór miklum sögum af því hvað franskt þjónustufólk á veitingastöðum og hótelum væri dónalegt við útlendinga sem kynnu ekki málið – að þeir litu á útlendinga (og kannski ekki síst skandinava) sem hálfgerða (eða algera) plebba. Ég hef lítið orðið var við þessar týpur þrátt fyrir ítrekaðar Frakklandsheimsóknir, sennilega eru þær komnir á válista – en á þessu mikla lúxushóteli var sem sagt einn svona þvottekta dónalegur Frakki sem vildi alls ekkert fyrir neinn gera, alveg sama hvað hann var beðinn um. Átentískara verður það ekki. Nú á ég bara eftir að hitta alvöru franskan pervert og þá er ég kominn með bingó. “
Í lokin útskýrir Eiríkur Örn forvitnilega yfirskrift færslunnar.
„*Yfirskrift þessarar færslu er tillaga Ragnars Jónassonar að enn óskrifaðri ferðasögu okkar sexmenninganna til Provence. Við þá tillögu bætti afbrotafræðingurinn Einar Már: „Greinilega tvennt sem þurfum að vera góð í: að forða vandræðum og valda vandræðum! To live outside the law you must be honest!“ Í sem stystu máli og án þess að koma óorði á neinn eða setja af stað einhver óþarfa sakamál má segja að þetta hafi allt einmitt gengið svolítið út á rósavín og villisvín, en auk þess komu nauðungarvistun, leðurblökur, ættarmót, kókaínreykingar og spariskór með jarðarberjalykt við sögu. Ég leyfi ykkur að fylla í eyðurnar sjálfum en vísa að öðru leyti á ljóð Ófeigs Sigurðssonar í áðurnefndri Provence í endursýningu, sem heitir „Hvað gera íslenzk skáld andspænis villisvíni?“.“