Fór í draumaferðalag um Sviss, Frakkland og Ítalíu

Það var fallegt við château de Charance þar sem Viktoría …
Það var fallegt við château de Charance þar sem Viktoría og Aron stoppuðu til að fara í lautarferð. Ljósmynd/Aðsend

Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir er verkefnastjóri markaðs- og söluferla hjá Skaganum 3x og BAADER Ísland. Í sumar fór hún í draumaferðalag um Sviss, Ítalíu og Frakkland ásamt kærasta sínum Aroni Heimissyni. 

Fórstu eitthvert í sumar og þá hvert?

„Já, ég og kærastinn minn fórum til Sviss og þaðan keyrðum við um Ítalíu og yfir til Frakklands. Við stoppuðum stutt á hverjum stað, oftast til einnar nætur og vorum dugleg að heimsækja litla bæi og kastala þegar við keyrðum á milli áfangastaða. Fyrsta stoppið var Como-vatnið þar sem við leigðum bát og sigldum að helstu bæjum á því svæði. Það var virkilega gaman að sjá þessa náttúruperlu frá vatninu og með þeim hætti náðum við að nýta tímann vel þar sem umferðin á svæðinu er þung vegna mikils ferðamannastraums.“

Ferðalagið leit svona út í heild sinni:
Como-vatn -> Milano -> Piedmont -> Cannes -> Chamonix -> Bourgogne -> Zurich

Útsýnið úr bátnum á Como vatni.
Útsýnið úr bátnum á Como vatni. Ljósmynd/Aðsend

Hvað stóð upp úr?

„Það er erfitt að segja hvað stóð upp úr þar sem hver einasti dagur í þessu fríí var algjört ævintýri. Við fórum á milli svo margra staða að við sáum allt það besta sem þessi lönd hafa upp á að bjóða, allt frá hvítum ströndum og tærum sjó, að þéttum skógum, fjallagörðum og vínekrum.“

„Ef ég ætti að nefna eitthvað þá væri það skyndileg lautaferð sem við áttum í garðinum í Château de Charance. Við vorum á leiðinni til Chamonix og ákvaðum að stoppa í hádegismat við fyrsta tækifæri. Þessi staðsetning kom skemmtilega á óvart þar sem við fengum að njóta hádegisverðar í þessum fallega garði beint undir kastalanum og með útsýni yfir bæinn.“

Viktoría og Aron fóru í lautarferð við château de Charance …
Viktoría og Aron fóru í lautarferð við château de Charance í Gap í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend

Eitthvað sem þú myndir gera öðruvísi næst?

„Ég komst að því að ég er ekki mikið fyrir stærri borgir þegar ég er í slökunarfríí þannig að ég myndi ekki dvelja lengi í Cannes en við eyddum þremur nóttum þar og sáum eftir því.“

Hver er uppskriftin að góðu fríi?

„Að finna jafnvægi á milli þess að skipuleggja og að eiga óplanaðan tíma. Ég vil ekki hafa þétta dagskrá og elska að spila fríið eftir eyranu því þá uppgötvar maður eitthvað nýtt, plús að ferðalagið verður afslappaðra. En ég skoða alltaf vel áfangastaði og punkta niður hvað ber að sjá og gera auk þess sem ég punkta niður bestu veitingastöðina. Þá veit ég alltaf í hvað tímanum er best varið.“

Viktoría í Abbaye De Fontenay sem er fyrrum munkaklaustur í …
Viktoría í Abbaye De Fontenay sem er fyrrum munkaklaustur í Marmagne í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend

Besti ferðafélaginn?

„Klárlega kærasti minn en við komumst að því í sumar að við höfum mjög svipaðar áherslur hvað ferðalög varða og hvernig við viljum hafa frííð okkar.“

Uppáhaldsveitingastaður í útlöndum?

„Það er Ristorante il Veliero í Atrani á Ítalíu. Mig dreymir enn um sjávarréttapasta sem ég fékk þar.“

Fallegasta ströndin?

„Ströndin í Cannes er virkilega flott með frábæru útsýni yfir fjöllin.“

Áttu þér draumaferðalag?

„Ætli það yrði ekki ferð til Japans. Mér finnst japönsk menning mjög heillandi og hugsa að ferðalag þangað yrði mjög framandi.“

Einn af gististöðum var þessi fallega villa í Bourgogne í …
Einn af gististöðum var þessi fallega villa í Bourgogne í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend
Einhver góð ferðaráð?

„Ég mæli alltaf með að finna gististað sem er vel staðsettur með tilliti til þeirra staða sem maður ætlar sér að skoða. Ég vel alltaf hótel eða Airbnb í göngufæri frá því helsta sem ég ætla mér að gera á hverjum áfangastað. Mér finnst leiðinlegt að eyða tíma og pening í samgöngur og vil helst ganga á alla staði og skoða umhverfið í leiðinni.“

Hvað er fram undan?

„Fram undan er óvænt ferðalag sem ég skipulagði fyrir afmæli kærasta míns. Hann veit ekki hvert við erum að fara og hvað við munum gera, sem gerir þetta enn skemmtilegra.“

Parið á leið í ostasmökkun í Fromagerie Antony, Frakklandi.
Parið á leið í ostasmökkun í Fromagerie Antony, Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert