Arkitektúrsneminn Ólavía Grímsdóttir hefur verið dugleg að ferðast í ár, bæði með kærasta sínum, körfuboltamanninum Kristófer Acox, og systur sinni, ljósmyndaranum Önnu Maggý Grímsdóttur sem tók Ólavíu í óvænta ævintýraferð til Egyptalands.
Ólavía sagði okkur frá ferðalögum sínum, hvernig hún kynntist ástinni og skyndilegri ferð á bráðamóttökuna í Egyptalandi. Þar að auki deildi hún með okkur undurfögrum myndum sem kynda án efa undir ferðaþrá lesenda nú þegar veturinn nálgast.
Ólavía og Kristófer kynntust í gegnum samfélagsmiðla sumarið 2021 og hafa síðan þá ferðast víðsvegar um heiminn saman. „Við Kristófer kynntumst á þennan „týpíska“ hátt. Hann byrjaði að fylgja mér á Instagram og spurði hvort ég vildi hitta sig. Ég vissi hver hann var og hef alltaf verið smá skotin í honum svo ég sagði auðvitað já,“ segir Ólavía.
„Við elskum að ferðast og upplifa nýja staði saman. Ferðalögin okkar hafa tengt okkur og gert okkur nánari, en í ár erum við búin að ferðast saman til Póllands, Kaliforníu, Spánar og Ungverjalands,“ bætir hún við.
Ólavía hefur ferðast heilmikið innan Evrópu, en hún segir sína uppáhaldsborg vera Búdapest í Ungverjalandi. „Ég hef farið þangað tvisvar og í bæði skiptin hef ég hugsað um að flytja þangað einn daginn. Búdapest er ótrúlega falleg borg, full af lífi og fallegum arkitektúr. Hún er borg sem hentar öllum að mínu mati því það er svo auðvelt að njóta hennar, enda býður hún upp á svo margt,“ útskýrir Ólavía.
„Búdapest er stútfull af geggjuðum veitingastöðum, matarmörkuðum, verslunum og fleira. Þar að auki eru borgarbúarnir sérstaklega indælir og verðið hagstætt,“ bætir hún við.
Aðspurð segir Ólavía Los Angeles í Kaliforníu vera uppáhaldsborgina utan Evrópu. „Við Kristófer fórum þangað síðasta sumar í tvær vikur. Veðrið þar var fullkomið að mínu mati, sólin skein alla daga en samt var ekki of heitt. Þar upplifði ég líka fallegustu sólsetur sem ég hef séð,“ segir hún.
„Það var alltaf hægt að gera eitthvað skemmtilegt, en við leigðum okkur bíl og keyrðum meðal annars á alla þessa helstu túristastaði sem var geggjuð upplifun. Síðan eyddum við líka miklum tíma í að borða góðan mat og slaka á við sundlaugabakkann eða á ströndinni,“ segir Ólavía.
Ólavía ferðaðist einnig til Egyptalands og Ítalíu með systur sinni í sumar, en aðspurð segir hún Egyptaland klárlega hafa staðið upp úr. Hún segir upplifunina hafa farið vonum framar.
„Rétt fyrir sumarið hringdi Anna Maggý systir mín í mig og spurði hvort ég væri með eitthvað plan næstu dagana. Ég var nýbúin að klára annað árið í skólanum og var ekki komin með neitt vinnuplan fyrir sumarið. Ég sagði henni því að ég væri í raun ekki með neitt plan og hún svarar: „Gott, því við erum að fara til Egyptalands eftir tvo daga“. Þetta er týpísk Anna Maggý,“ segir Ólavía og hlær.
„Ég trúði þessu varla en varð strax spennt og dreif mig að pakka í töskur. Við erum ótrúlega góðar vinkonur og ég er svo þakklát fyrir að hún hafi boðið mér með sér. Ég vissi í raun ekkert hvert til Egyptalands við værum að fara eða á hvaða hóteli við vorum að gista á. Þegar við vorum komnar á áfangastað leið mér eins og ég væri í draumi eða einhverri paradís,“ bætir hún við.
Ólavía lýsir umhverfinu í Egyptalandi sem einstakri blöndu af eyðimerkursandi, klettum og hinu fallega Rauðahafi. „Við vorum í strandbænum Sharm El Sheikh, en hann er staðsettur við Rauðahafið á Sínaískaganum. Hótelið sem við gistum á var umkringt hreinni náttúru með töfrandi sjávarútsýni. Fallegar strendur voru við hótelið með tærasta sjó sem ég hef séð. Hann var ljósblár með kóralrif og fiskum í öllum heimsins litum,“ segir Ólavía.
„Það var einstök og hrein upplifun að synda þar og skoða lífið í sjónum, en hótelið bauð einnig upp á köfun sem systir mín tók þátt í á hverjum degi. Ég er smá hrædd við að kafa og þorði því ekki að fara með henni, en ég geri það kannski næst,“ bætir hún við og hlær.
Systurnar lentu í ýmsum ævintýrum á ferðalagi sínu, en Ólavía segir Safarí ferðir þeirra út í eyðimörkina þó hafa staðið upp úr í ferðinni. „Þær voru þvílíkt ævintýri. Við systurnar fórum þangað nokkrum sinnum og skemmtum okkur alltaf jafn vel. Við fórum í kapp yfir sandhólana á fjórhjólum með adrenalínið í botni og stoppuðum nokkrum sinnum á svokölluðum „bergmálssvæðum“ þar sem við öskruðum í fjallgarðana og heyrðum raddir okkar enduróma,“ útskýrir Ólavía.
„Það sem kom mér mest á óvart við Egyptaland var hvað allir voru góðir og almennilegir. Allir voru til í að hjálpa okkur með hvað sem er og við upplifðum okkur öruggar alla ferðina. Ferðamenn eru Egyptum afar mikilvægir og þjónustustigið hátt, en það er lagt mikið upp úr öryggi og að ferðamönnum líði vel á meðan á dvöl þeirra stendur,“ segir Ólavía.
Þrátt fyrir að hafa upplifað mikið öryggi lenti Ólavía á bráðamóttökunni fyrsta kvöldið á Egyptalandi. „Fyrsta kvöldið sátum við systur úti við ströndina að horfa á Val verða Íslandsmeistara í körfubolta í beinni. Þegar við komum svo upp á hótelherbergi tók ég eftir því að fæturnir mínir voru þaktir rauðum doppum. Ég ákvað að pæla ekkert mikið í þessu, ég hélt að þetta væru bara saklaus moskítóbit og fór að sofa,“ segir Ólavía.
„Um morguninn vaknaði ég svo við hræðilega verki. Ég átti erfitt með að anda og bitin voru öll búin að breytast í gular blöðrur. Við fórum því beint upp á bráðamóttöku, en ég var ekkert bólusett þar sem ferðin var algjör skyndiákvörðun. En þetta reddaðist allt saman og ég fór upp á spítala fimm daga í röð, fékk lyf í æð, nokkrar sprautur, töfrakrem og fleira,“ segir Ólavía.
„Ef ég ætti að gefa eitthvað ráð áður en farið er til Egyptalands þá væri það klárlega að nota skordýrafælandi smyrsl eða úða,“ bætir hún við.
Ólavía segir það vera ómissandi að rölta um og skoða borgina, njóta fegurð strandanna og fara í eyðimörkina og upplifa allt það sem hún hefur upp á að bjóða. „Einnig er alveg ómissandi að fara á kaffihús sem kallast Farsha Cafe. Þetta er ekki bara kaffihús heldur er þetta einnig magnaður staður, staðsettur í kletti og ótrúlega vel hannaður með litríkum röndóttum gólfpúðum, bedúínatjöldum og sveiflukenndum rauðum og gulum lömpum sem glóa fallega á kvöldin. Þetta er svona staður sem maður vill ekki yfirgefa. Þarna er ótrúlega gott að sitja og spjalla með drykk í hönd og útsýni yfir hafið,“ segir hún.