„Skemmtilegt hvernig lífið fer með mann á ótrúlegustu slóðir“

Edith Gunnarsdóttir starfar sem leiðsögumaður og jógakennari, en hún hefur …
Edith Gunnarsdóttir starfar sem leiðsögumaður og jógakennari, en hún hefur mikla ástríðu fyrir útivist og ferðalögum.

Leiðsögumaðurinn og jógakennarinn, Edith Gunnarsdóttir, hefur mikla ástríðu fyrir útivist og ferðalögum. Þótt hún sé ekki fædd inn í útivist segist hún alltaf hafa fundið sterka tengingu við náttúruna. Það var þó ekki fyrr en hún gekk yfir Fimmvörðuhálsinn í fyrsta sinn sem hún smitaðist algjörlega af fjallgöngubakteríunni. 

Að eigin sögn er Edith mikil ævintýramanneskja að upplagi og óhrædd við að stíga út fyrir þægindarammann. Hún er menntuð í sálfræði og heilbrigðisvísindum ásamt því að vera með jógakennararéttindi. Í dag starfar hún sem leiðsögumaður og jógakennari og veit fátt betra en að hreyfa sig og upplifa nýja hluti.

Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum?

„Ég hef alltaf verið dugleg að ferðast en seinustu ár hafa ferðalögin mín breyst frekar mikið. Ég er farin að fara í miklu fjölbreyttari ferðalög sem tengjast þá frekar útivist, bæði hérlendis og erlendis, auk ferðalaga á framandi slóðir allt árið um kring. 

Ég fæ oft þá spurningu hvort ég fái ekki leið á leiðsögn og ferðalögum. Svarið við því er nei. Ef maður vinnur við ástríðuna sína þá finnst manni maður aldrei vera í vinnunni. Hvað geta margir sagt að þeir komi endurnærðir heim úr vinnunni?“

Edith í göngu á Fjallabak sem er ein af uppáhaldsgönguleiðum …
Edith í göngu á Fjallabak sem er ein af uppáhaldsgönguleiðum hennar á Íslandi.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?

„Án efa gönguferðin til Tansaníu. Þetta var þriggja vikna ógleymanlegt ferðalag sem byrjaði á gönguferð á Kilimanjaro. Þaðan fórum við síðan beint í safarí-ferð og enduðum á vikudvöl á Zansibar. Fullkomin þrenna og frábært að ná góðri slökun í sólinni eftir gönguna og koma heim endurnærð.

Að koma til Tansaníu er eins og að koma inn í streitulaust svæði – fólkið þar er einstaklega rólegt og hjálpsamt. Framandi náttúra Afríku, gleði og menning heimamanna gerðu þessa ferð að ævintýralegustu ferð lífs míns.“

Edith á svokölluðum Baranco wall í 4.200 metra hæð á …
Edith á svokölluðum Baranco wall í 4.200 metra hæð á Kilimanjaro.

Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?

„París hefur alltaf heillað mig sérstaklega mikið. borgin er ein sú fallegasta og ég nýt mín alltaf í botn þegar ég er þar. Byggingarnar, menningin og sagan eru eitthvað svo heillandi. 

Ég hef mjög gaman af því að lesa sögulegar bækur um þá borg sem ég er í enda gefur það ferðalaginu dýpri merkingu. Í hvert skipti sem ég kem þangað sé ég eitthvað nýtt eða er komin með eitthvað nýtt á listann sem ég ætla að skoða næst. 

París er algjör perla og ætli ég hafi ekki bara búið í París í fyrra lífi miðað við hvað ég hef sterkar taugar til hennar.“

En utan Evrópu?

„Vancouver í Kanada þar sem ég var einu sinni búsett. Borgin er einstaklega falleg og frekar lífleg. Þar er auðvelt að lifa einföldu og rólegu lífi, en samt hefur þú allan ávinninginn eins og að búa í hvaða stórborg sem er á heimsvísu.

Kanada er með næst stærstu óbyggðir í heiminum á eftir Rússlandi, frábær vettvangur fyrir göngufólk með risastór snæviþakin fjöll. Þú getur farið á skíði og á ströndina á sama deginum. Frábært veðurfar, geggjaður matur og ótrúlega vinalegt fólk.“

Besti maturinn sem þú hefur fengið á ferðalagi?

„Á Lawa Tower í Kilimanjaro í 4.600 metra hæð. Þar fékk ég bestu djúpsteiktu franskar sem ég hef smakkað með satay-kjúklingi, hrásalati, naan-brauði og melónur í eftirrétt – geri aðrir betur.

Miðað við aðstæður og hæð yfir sjávarmáli þá var þetta algjör „gúrme“ matur og hópurinn borðaði yfir sig. Kokkarnir sem voru með okkur voru náttúrulega alveg geggjaðir. Þeir vita hvað þeir syngja þarna í Tansaníu varðandi mat fyrir erfiðar göngur.“

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Allt sem við kemur einhverskonar hreyfingu og fjölbreytni. Það skiptir ekki endilega máli hvenær á árinu, allar árstíðir hafa sinn sjarma. Síðan finnst mér mjög gaman að prófa eitthvað nýtt – þurfa að byrja á núllpunkti, læra eitthvað nýtt og fara út fyrir þægindarammann.“

Á Víknaslóðum sem er göngusvæði frá Borgarfirði eystri til Seyðisfjarðar.
Á Víknaslóðum sem er göngusvæði frá Borgarfirði eystri til Seyðisfjarðar.

Hvenær fékkst þú áhuga á göngum?

„Ég er ekki fædd inn í útivist eins og margir leiðsögumenn. Þótt ég sé af malbikinu þá er ég ekkert sérstaklega bundin steinsteypu eða borgarlandinu tilfinningalega. Ég fékk þennan þráð sem tengdi mig við náttúruna í sinni tærustu mynd með því að fá að fara í sveit á sumrin hjá ættingjum. 

Áhugi minn á göngum kom mörgum árum seinna þegar ég gekk yfir Fimmvörðuhálsinn með saumaklúbbnum mínum og mömmu. Það endaði þannig að engin úr saumaklúbbnum fékk fjallgöngubakteríuna nema ég og mamma. Við skráðum okkur fljótlega í hóp hjá Ferðafélaginu sem gekk allt árið og þá var ekki aftur snúið. 

Við mamma höfum brallað ýmislegt saman og farið á hæstu fjöll og jökla landsins – og við erum hvergi nærri hættar. Ótrúlegt en satt þá tók það mig fjórar klukkustundir að klára mína fyrstu gönguferð á Esjuna og eftir þá ferð ætlaði ég mér aldrei að fara í göngu aftur. Nokkrum árum seinna stend ég á hæsta tindi Afríku í 5.895 metra hæð. Skemmtilegt hvernig lífið fer með mann á ótrúlegar slóðir.“

Edith á Uhuru Peak, hæsta tindi Afríku, í 5.895 metra …
Edith á Uhuru Peak, hæsta tindi Afríku, í 5.895 metra hæð.

Hver er uppáhaldsgönguleiðin þín á Íslandi?

„Úff, þær eru svo margar. Fjallabak hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi, þetta er svo stórt svæði að ég er enn að uppgötva leiðir sem mig langar að ganga þar. Lónsöræfi og Viknaslóðir koma fast á eftir.

Svo má ekki gleyma Snæfellsjökli sem er í algjöru uppáhaldi og er ekki bara vandlega merkur á kortinu heldur líka andlega merktur. Ef maður dvelur í nágrenni við Snæfellsjökul í lengri tíma finnur maður þessi jákvæðu áhrif frá jöklinum sem orsaka vellíðan á svo margan hátt – enda er oft talað um að Snæfellsjökull sé ein af sjö orkustöðvum heimsins.“

„Ég hef unnið við að ganga upp á Snæfellsjökul yfir …
„Ég hef unnið við að ganga upp á Snæfellsjökul yfir sumartímann með ferðamenn og þvílík vellíðan í þeirri vinnu. Það er einhver óútskýranleg orka sem kemur frá jöklinum.“

En í Evrópu?

„Ég get svarað þeirri spurningu í byrjun september þegar ég kem heim frá Frakklandi. Ég hef ekki gengið í Evrópu ennþá en er að fara með 20 manna hóp að ganga hringinn í kringum Mont Blanc. gönguvegalengdin er 170 kílómetrar og við munum taka okkur 13 daga í þá gönguleið þar sem við sofum í fjallaskálum og hótelum á leiðinni.

Við göngum frá Frakklandi yfir til Ítalíu og þaðan yfir til Sviss og endum hringinn í Frakklandi. Sögur segja að þetta sé ein flottasta gönguleiðin í Evrópu með dáleiðandi útsýni yfir jökla, bratta dali og auðvitað Mont Blanc sjálft.“

En utan Evrópu?

„Gönguferðin á Kilimanjaro er án efa ævintýralegasta gönguferð sem ég hef farið í. Kilimanjaro er 5.895 metra hátt og er hæsta frístandandi fjall heims, hæsta fjall Afríku og eitt stærsta eldfjall heims sem rís upp frá sléttum Tansaníu.

Á gönguleiðinni er farið í gegnum öll gróðurbelti jarðar þar sem loftslagið sveiflast frá hitabelti niður fyrir frost á hæsta tindinum, Uhuru peak. Af toppnum er magnað útsýni yfir sléttur Tansaníu og alveg dáleiðandi að horfa upp í stjörnubjartan himininn á kvöldin og upplifa sólarupprásina á morgnana.“

„Gangan tekur sjö daga og það er gist í tjöldum …
„Gangan tekur sjö daga og það er gist í tjöldum á fjallinu. Leiðsögumennirnir voru ótrúlega jákvæðir, þolinmóðir, skemmtilegir og voru síbrosandi, syngjandi og dansandi. Einstaklega smitandi andleg næring sem þeir gefa frá sér í göngunni.“

Hvað er það sem gerir gönguferðir meira spennandi en önnur ferðalög að þínu mati?

„Gönguferðir eru miklu meira heilsueflandi og afstressandi en ferðalög sem geta oft valdið mikilli streitu. Þær skila sér í miklu betri andlegri og líkamlegri vellíðan. Besta lyfið að mínu mati og er allra meina bót. 

Með því að vera í náttúrunni og stunda útivist fær maður betri jarðtengingu, meiri skýrleika, upplifir hugarró og vellíðan og sefur betur. Síðast en ekki síst góð samvera með fjölskyldu og vinum án snjalltækja.“

Hvert ætlar þú að ferðast í sumar og haust?

„Það eru spennandi og ævintýralegir tímar framundan. Ég verð heldur betur á ferðalagi hérlendis og erlendis á næstunni því þessa stundina er ég að opna ferðaskrifstofuna Ferðasetrið.

Ég fer í skemmtilega gönguferð á Mt. Meru og Kilimanjaro í september næstkomandi, en svo fer ég aftur á Kilimanjaro, í ævintýralega safaríferð og til Zansibar í janúar á næsta ári. Síðan eru skemmtilegar jóga- og gönguferðir í bígerð fyrir árið 2024.“

Það eru mörg ævintýraleg og spennandi ferðalög á dagskrá hjá …
Það eru mörg ævintýraleg og spennandi ferðalög á dagskrá hjá Edith.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert