Gisti í þaktjaldi uppi á hálendi í -15°C

Sigurður Bjarni Sveinsson er mikill ævintýramaður sem hefur ferðast á …
Sigurður Bjarni Sveinsson er mikill ævintýramaður sem hefur ferðast á ótrúlegar slóðir bæði hér á Íslandi og erlendis. Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

Sigurður Bjarni Sveinsson er mikill ævintýramaður og veit fátt betra en að ferðast um fáfarnar slóðir í íslenskri náttúru og stunda útivist. Árið 2015 varð góður vinur hans bráðkvaddur og í kjölfarið fór Sigurður í ferðalag þar sem hann safnaði peningum fyrir unga dóttur vinar síns. 

Með honum í ferðalagið fóru Ales Cesen, sem er einn fremsti fjallaklifrari heims, og útivistarljósmyndarinn Rozle Bregar. „Úr ferðalaginu spratt mikil vinátta milli okkar og við höfum ferðast víða saman í Himalajafjöllunum, Ölpunum og á Íslandi,“ segir Sigurður. 

Síðastliðinn vetur fóru þeir Sigurður, Ales og Rozle í ævintýralegt 14 daga ferðalag í kringum landið yfir háveturinn. „Allir eru kunnugir hringveginum en okkur langaði að sýna hann í nýju ljósi út frá útivist og sýna hversu margir möguleikar eru á leiðinni,“ útskýrir Sigurður.

Á ferðalagi þeirra um landið stunduðu félagarnir fjölbreytta útivist, þar …
Á ferðalagi þeirra um landið stunduðu félagarnir fjölbreytta útivist, þar á meðal fjallaklifur í miklum kulda. Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

Varð yfir sig hrifinn af háfjallaklifri

Ástríða Sigurðar fyrir ferðalögum og útivist kviknaði snemma, en hann segist alla tíð hafa haft sterka tengingu við náttúruna. „Þegar ég var pjakkur þótti mér fátt skemmtilegra en að þvælast inn í Þórsmörk með pabba heitnum, eða inn á Sprengisand með fjölskyldunni að veiða,“ segir hann.

Þegar Sigurður var í menntaskóla stofnaði hann gönguhóp, en út frá því kviknaði áhuginn á fjallaklifri. Hann hefur sótt fjölbreytt námskeið á því sviði og fór meðal annars á Denali í Alaska með Vilborgu Örnu Gissurardóttur þar sem hann heillaðist algjörlega af háfjallaklifri.

„Mér þótti alltaf áhugavert að fylgjast með Björgunarsveitunum og gaf …
„Mér þótti alltaf áhugavert að fylgjast með Björgunarsveitunum og gaf mér góðan tíma í að lesa ferðasögur Haraldar Arnar og Leifs á Pólana og toppa heims. Ég sá svo heimildarmynd um Denali í Alaska á sínum tíma sem hvatti mig í átt að fjallaklifri.“ Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

„Að mínu mati er útivist frábær í hvaða formi sem er, en hún nærir bæði líkama og sál og krefst í grunninn svipaðs hugarfars og skipulags. Ég hef mikla trú á því að ef við gætum hagað okkur í samfélagi og vinnu eins og við þurfum að gera á fjöllum, þá myndum við taka sjálfbærari skref og gætum lagað mikið af vandamálum sem mér finnst vera ríkjandi,“ útskýrir Sigurður og nefnir meðal annars kulnun í starfi. 

“Ég stofnaði Midgard Adventure á Hvolsvelli árið 2010, en eftir …
“Ég stofnaði Midgard Adventure á Hvolsvelli árið 2010, en eftir að leiðir skildu þar hef ég einbeitt mér að útivist og reynt að hvetja fólk til að stunda útivist þar sem ég hef sterka trú á því að það geti verið leið að hamingjusamara samfélagi.” Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

Hann segir vandamálin verða augljós í útivist, enda séu ákvarðanir fyrir þig og félaga þína teknar með öryggi og heilsu í forgrunni enda miðist öll plön út frá því. 

„Því meira sem ég stunda ferðalög og útivist, þeim mun sterkari sýn öðlast ég á þetta. Það gefur mér hvata til að deila upplifunum mínum og reyna að hvetja fólk til þess að fara út að leika á öruggan hátt,“ segir Sigurður.

Sigurður hefur komið að verkefnaþróun víðsvegar um heim, meðal annars …
Sigurður hefur komið að verkefnaþróun víðsvegar um heim, meðal annars á Suðurskautinu. Þá bjó hann einnig til stjórnendanámskeið í Patagoniu þar sem náttúran spilaði aðahlutverk. Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

Varð heillaður af Borgarfirði eystri

Síðasta vetur lagði Sigurður af stað í magnað ferðalag í kringum landið með Ales og Rozle.

„Við ákváðum að fara hring í kringum landið yfir háveturinn til að reyna að sýna endalausa möguleika Íslands út frá útivist. Þótt við hefðum verið stanslaust á ferðinni í 14 daga komumst við ekki yfir nema 20% af því sem við hefðum viljað. Við þurftum að laga okkur að veðrinu, en áttum stórkostlega ferð saman,“ útskýrir Sigurður. 

Sigurður, Ales og Rozle létu fara vel um sig á …
Sigurður, Ales og Rozle létu fara vel um sig á hálendinu þrátt fyrir mikinn kulda. Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

Aðspurður segir Sigurður Borgarfjörð eystri hafa staðið upp úr, en þar gistu þeir á gistihúsinu Blábjörgum og ferðuðust um fjöll og firði. „Veðrið var krefjandi en það var svo magnað að vera hluti af þessu litla samfélagi. Við eyddum miklum tíma úti og löguðum plönin að veðrinu,“ segir hann. 

„Síðan þveruðum við landið í gegnum Kjöl að Kerlingarfjöllum, tengdum svo Kerlingarfjöll við Sprengisand og keyrðum þaðan suður. Dvölin í Kerlingarfjöllum var ein sú besta sem ég hef átt á fjöllum, þrátt fyrir feikna kulda og mikinn vind. Við gistum í einangruðu þaktjaldi, fórum á fjallaskíði og klifum í toppum Kerlingarfjalla,“ rifjar Sigurður upp, en þeir félagarnir upplifðu ótrúlegt sjónarspil norðurljósa á ferðalagi sínu.

Það vantaði ekki upp á fegurðina á ferðalagi þeirra í …
Það vantaði ekki upp á fegurðina á ferðalagi þeirra í kringum landið. Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

Skemmtilegast að „jeppast“ á fáförnum slóðum

Sigurður hefur verið duglegur að ferðast um hálendi Íslands, en hann segir áhuga sinn á jeppaferðum hafa kviknað mjög snemma. „Frá því ég fékk bílpróf hef ég alltaf átt eða haft aðgengi að breyttum bíl til að komast á fjöll og afskekktari staði. Það var margt að reka sig á og læra en ég hef verið alveg einstaklega heppin með þann magnaða hóp sem ég hef í kringum mig og þær leiðbeiningar sem ég hef fengið í gegnum tíðina,“ segir Sigurður. 

Fyrst um sinn segir Sigurður aðalsportið hafa verið að keyra um í torfæruumhverfi, en hægt og rólega þróaðist ástríðan fyrir því að „jeppast“ meira út í að komast á staði sem eru minna sóttir og geta stundað útivist á fáförnum slóðum.

„Ferðalög á afskekktum stöðum reynir á þá þætti sem ég …
„Ferðalög á afskekktum stöðum reynir á þá þætti sem ég vil halda í – að gera plön, ferðast á öruggan hátt og vera stöðugt á tánum. Þar kennir náttúran mér að lifa. Bílinn verður svo að öryggisstað þar sem maður veit af skjóli ef veðrið skellur á.“ Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

Að mati Sigurðar er nauðsynlegt að hafa bíl í góðu standi í jeppaferðum og að þekkja inn á hann. „Bílar eru eins fjölbreyttir og umhverfið sem maður notar þá í, en það er mikilvægt að vita takmörk bílsins og aðlaga ferðaplönin svo að þeim. Það tekur smá tíma að þekkja inn á bílinn, en mér finnst hvert breytt farartæki hafa ákveðinn persónuleika sem maður þarf að kynnast,“ útskýrir hann. 

„Þegar maður þekkir bílinn getur maður verið betur á varðbergi ef það eru einhver hljóð eða hreyfingar sem eiga ekki að vera og þá getur maður gert plön áður en það kemur bobb í bátinn,“ bætir hann við. 

Sigurður segir einnig mikilvægt að fylgjast vel með fyrir ferðalagið, vera meðvitaður um aðstæður og hvernig þær kunna að breytast með breyttu veðurfari. Hann nefnir einnig mikilvægi þess að gera plön með tæki og tól sem fara meðferðis.

„Að mörgu leyti er þetta svipað fjallaklifri – maður þarf …
„Að mörgu leyti er þetta svipað fjallaklifri – maður þarf að greina fjallið og verkefnið áður en farið er af stað, gera einhversskonar öryggisplan og áhættugreiningu, og að lokum ákveða hvaða tól maður þarf til að ferðast öruggur í þeirri ferð sem maður planar.“ Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

Toppurinn að komast að fjallatindum og fjallaskíða

Sigurður hefur átt alls konar jeppa í gegnum tíðina, en hann var lengi á Nissan Patrol á 38'' dekkjum og svo á Ford á 46'' dekkjum. Hann segir minna breytta bíla hagstæðari til ferðalaga á milli landsvæða og í „minni“ jeppaferðir, á meðan mikið breyttir og stórir bílar henta vel í lengri og stærri fjallaferðir, til dæmis að Fjallabaki eða á Sprengisand. 

„Núna ek ég um á minni bíl, Jeep Rubicon, sem hefur verið breytt fyrir 42'' dekk. Ég hef einnig orðið dolfallinn fyrir ferðalögum á húsbíl og er með Volswagen California sem ég nota í lengri akstur á milli landsvæða,“ segir Sigurður.

„Ég hef útbúið hann með einangruðu þaktjaldi frá Ikamper sem gefur mér kost á að dvelja uppi á hálendi í öryggi bílsins á meðan ég stunda útivist. Sá bíll keyrir betur á vegum og fer aðeins betur með mann í akstri heldur en stóri Fordinn, en í vetur fór ég inn á ný landsvæði þar sem ég nýtti bílinn meðal annars til að komast að fjallatindum í Borgarfirði eystri til að fjallaskíða,“ bætir hann við. 

Sum landsvæði eins og æskuvinir

Það er kyrrðin sem heillar Sigurð mest við hálendið, en hann segir hvert landsvæði og náttúru hafa sinn eigin persónuleika sem þarf að kynnast og nálgast á mismunandi máta. „Fyrir mér er þetta bara eins og að kynnast nýjum vini, þar sem maður heldur örlítið aftur af sér til að byrja með. En svo þegar maður hefur kynnst honum betur getur maður sleppt meira af taumunum,“ útskýrir hann. 

„Sum landsvæði eins og Sprengisandur og Fjallabakssvæðið eru staðir sem ég heimsæki aftur og aftur, eins og æskuvinir. Síðan hef ég nýverið komist í kynni við Borgarfjörð eystri, en ég hef lagt leið mína þangað fjórum sinnum á einu ári til að kynnast honum betur,“ segir Sigurður, en hann sér fyrir sér að stunda þar útivist bæði yfir sumar- og vetrartímann. 

Sigurður hefur verið duglegur að gista á hálendinu yfir vetrartímann, …
Sigurður hefur verið duglegur að gista á hálendinu yfir vetrartímann, en hann segir það aðallega frábrugðið sumrinu vegna kulda og mögulegra veðurofsa. Hann segir góðan búnað og góðan fatnað geta gert hálendið að heimakæru umhverfi yfir veturna. Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

„Ef maður nærir sig rétt, skilur umhverfið og hætturnar og er með plön, þá getur maður nálgast vetrarfjallamennsku á svipaðan hátt og á sumrin. Það sem er hins vegar öðruvísi er upplifunin, en hún verður oft og tíðum mun sterkari þegar maður þarf að hafa meira fyrir hlutunum,“ bætir hann við. 

Hann viðurkennir þó að veðrið geti sett strik í reikninginn og gert ferðalagið krefjandi og tímafrekt. „Ef maður misreiknar færðina og festir sig, getur maður setið í marga klukkutíma að moka sig upp. Þá er gott að vera í góðum félagsskap og hafa góða tónlist í gangi. Mikilvægast er þó að halda í jákvæðnina – þá er allt gott bras skemmtilegt,“ segir Sigurður.

“Maður þarf að hafa allan öryggisbúnað meðferðis til að geta …
“Maður þarf að hafa allan öryggisbúnað meðferðis til að geta ferðast vel yfir veturna og svo eru allskonar trix til að láta sér líða vel í kuldanum, til dæmis að fíflast aðeins og halda á sér hita með hreyfingu.“ Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

Ævintýralegt sumar fram undan

Það er nóg af ævintýrum fram undan hjá Sigurði, en hann gerir ráð fyrir því að ferðast drjúgt í sumar í alls kyns verkefnum. „Sjálfur ætla ég að dvelja að Fjallabaki í einhverjar vikur og hefði líka mikinn áhuga á að fara aftur á Borgarfjörð eystri til að kynna mér það umhverfi betur,“ segir Sigurður.

Það er ekki erfitt að fyllast ævintýraþrá þegar flett er …
Það er ekki erfitt að fyllast ævintýraþrá þegar flett er í gegnum myndir frá ferðalögum Sigurðar. Ljósmynd/Sigurður Bjarni Sveinsson

Á ferðalagi hans kringum landið síðastliðinn vetur tók Sigurður upp skemmtilegt myndband sem sýnir vel þau ævintýri sem íslensk náttúra býður upp á yfir vetrartímann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka