Birta Abiba er fyrrverandi fegurðardrottning, en hún vann keppnina Miss Universe Iceland árið 2019 og var meðal þeirra tíu sem komust í úrslit Miss Universe sama ár. Í dag starfar hún sem fyrirsæta á alþjóðlegum vettvangi og hefur ferðast víðsvegar um heiminn, en hún lýsir sér sem endalausum ferðalanga sem býr úr ferðatöskunni sinni flestalla daga ársins.
„Ég er mikill talsmaður um mikilvægi þess að sporna gegn fordómum með fræðslu og skapa umræðu um erfiðleika sem minnihlutahópar landsins upplifa í samfélaginu okkar í dag. Keppnin ýtti mér bókstaflega í sviðsljósið hér á Íslandi og gaf mér endalaus tækifæri til að tala um þennan ákveðna málstað,“ segir Birta um keppnina.
Birta hefur verið búsett víða á síðustu árum, þar á meðal í Bandaríkjunum, Ítalíu, Frakklandi, Grikklandi og á Spáni. Í dag er hún stödd í Þýskalandi vegna vinnu en framundan hjá henni er spennandi sumar fullt af ferðalögum og skemmtilegum verkefnum.
Hvað ætlar þú að gera í sumar?
„Þar sem tískubransinn skýtur oftast auglýsingar ár fram í tímann og gerir það á sumrin þá vinn ég alla sumarmánuðina fyrir utan ágúst. Þá loka flestallar fyrirsætuskrifstofur í Evrópu og ég fer í nokkurskonar frí og dríf mig aftur á klakann.
En þangað til mun ég halda áfram að ferðast og vinna. Seinustu mánuði hef ég farið frá Bandaríkjum til Spánar og þaðan yfir til Þýskalands, en á næstu dögum er ferðinni heitið til Frakklands, Portúgals og síðan til Ítalíu.
Síðan er hellingur af öðrum stöðum að bætast á listann yfir lönd sem verða heimsótt áður en ég kem heim til Íslands.“
Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?
„Ég hef alltaf heillast mest af utanlandsferðum því þar get ég séð mismunandi menningarheima og upplifað allt annað umhverfi. Þess vegna gæti ég ekki verið þakklátari fyrir öll tækifærin sem að vinnan mín hefur gefið mér – hún gerir mér kleift að gera einmitt það, fá að sjá heiminn.“
Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?
„Hamborg eða München í Þýskalandi eru draumaborgirnar mínar. Þegar þú ferðast jafn mikið og ég þá getur þú byrjað að finna fyrir mikilli heimþrá, en þessar borgir minna mig svo á það að vera heima, nema bara með meiri sól, allskonar almenningsgörðum, hjólum, alvöru samgöngukerfum og sundlaugum þar sem fólk drekkur bjór við bakkann. Þess vegna eru þær hið fullkomna meðal við heimþránni – allavega fyrir mig.“
Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?
„Ferðalagið til Suður-Afríku er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Gullfallega náttúran, hvítu strandirnar, bragðgóði maturinn og ríka menningin eru hlutir sem að standa mjög mikið upp úr hjá mér.
Svo eru það öll framandi dýrin, eins og páfuglarnir sem vöktu mig einn morguninn og vildu fá að borða úr hendinni minni. Það er eitthvað sem gerði ferðina svo ótrúlega sérstaka og eftirminnilega.“
Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi á sumrin?
„Augljóslega verð ég að minnast á sveitina mína í Hörgárdalnum, en í rauninni verða allir staðir á Íslandi fljótlega í uppáhaldi með réttu manneskjunni.“
Hverskonar útilegutýpa ert þú?
„Ég er hrein og bein sumarbústaðarstúlka þar sem mér finnst ekkert betra en að liggja í pottinum eftir góða drykki og grillaðan mat. Svo er geggjað að fara jafnvel út og spila leiki eins og kubb og fleira, en geta svo farið aftur inn í hús og sofið uppi í rúmi án þess að hafa áhyggjur af skordýrum sem gætu allt í einu ákveðið að gista með mér undir sænginni minni.“
Hverju má alls ekki gleyma í ferðalagið?
„Klárlega sólgleraugum, gæðahátalara, „kickass“ lagalista og góðum ferðafélaga.“
Hvar er besta sundlaugin á Íslandi?
„Ég er mikil áhugakona um sundlaugar og trúi því ekki að það sé einhver ein sundlaug sem er best heldur frekar að það séu til allskonar sundlaugar sem henta fyrir mismunandi tilefni.
Til dæmis, ef þú vilt bara skemmta þér þá eru rennibrautirnar í sundlauginni á Akureyri og öldulaugin á Álftanesi tilvaldar. Hins vegar, ef þú vilt bara liggja í góðu yfirlæti með frábært útsýni þá ætti sundlaugin í Þelamörk, Hofsósi eða Laugarnesi að hitta beint í mark.“
Hvað er það besta og versta við íslenskt sumar?
„Sólin er bæði það besta og versta við íslenskt sumar. Það að hún setjist aldrei er yndislegt ef þig langar að fara í langa bíltúra með vinum þínum og skoða leyndar perlur á landinu, fara í náttúrulaugar um miðja nótt eða bara til að sitja úti á palli.
En það að hún setjist aldrei hættir fljótlega að vera yndislegt þegar það er mið nótt og þú liggur andvaka því gardínurnar þínar, og stundum handklæðin eða teppin sem þú hefur reynt að troða í rifurnar, eru ekki að verja þig frá birtunni.“
Hvert dreymir þig um að ferðast?
„Draumurinn minn núna er að fara til Nýja-Sjálands og upplifa strendurnar þar og hina stórbrotnu náttúru sem landið er þekkt fyrir. Þá langar mig einnig að fræðast um frumbyggjamenninguna og sjá hvar Hobbitinn var tekinn upp. Vonandi rætast þeir draumar fyrr en seinna.“