Hin 27 ára gamla Sara Sigríður Ólafsdóttir hefur verið dugleg að ferðast frá unga aldri, en þar að auki hefur hún verið búsett meirihluta ævi sinnar erlendis. Í dag er hún búsett í Lundúnum ásamt kærasta sínum, Orra Úlfarssyni, og starfar í tískubransanum sem hún hefur gert frá því hún útskrifaðist frá Instituto Europeo di Design (IED) í Mílanó á Ítalíu árið 2017.
Til hvaða landa hefur þú ferðast?
„Foreldrar mínir hafa alltaf verið mjög dugleg að ferðast með mér og systur minni. Ég hef búið meirihluta ævinnar erlendis og verið svo heppin að hafa farið til 46 landa.“
Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?
„Ég elska að ferðast til nýrra landa og kynnast nýrri menningu. Ég er mjög hrifin af ferðum sem leyfa mér að upplifa nýja hluti en eru með góðri slökun líka. Svo er það algjör bónus ef það er sól og hlýtt.“
Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?
„Vá, það er svo erfitt að velja eitt en það eru þrjár ferðir sem komu strax upp. Við fjölskyldan ferðuðumst til Perú og lentum í allskonar ævintýrum þar, sáum meðal annars Machu Picchu og fórum í Amazon-regnskóginn. Önnur mjög eftirminnileg ferð var til Kenýa, sérstaklega þegar við fórum í Masai Mara National Reserve í safarí.“
Svo er Madagaskar eitt fallegasta land sem ég hef komið til sem ég gæti ekki mælt meira með.“
Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?
„Það eru svo margar skemmtilegar borgir í Evrópu en ég elska París og Berlín. Svo eru Lundúnir alveg æði, mæli svo mikið með að fara þangað yfir sumartímann.“
En utan Evrópu?
„Búenos Aíres í Argentínu og Mexíkóborg.“
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?
„Það er ótrúlega erfitt að velja einn stað en ég held það sé Langanes á Austurlandi þar sem afi minn á land sem heitir Eiði. Það er enginn staður eins í heiminum og mér líður alltaf svo vel þegar ég er þar og reyni að fara þangað á hverju ári.“
Besti matur sem þú hefur fengið á ferðalagi?
„Uppáhaldsmaturinn sem ég hef fengið á ferðalagi var klárlega í Mexíkó. Ég er vegan og það getur verið erfitt þegar maður er að ferðast, en það var ekkert mál í Mexíkó og mikið af vegan valkostum þar. Ef þú ert í Mexíkóborg þá verður þú að fara á Por Siempre Vegana, bestu vegan-tacos sem þú munt smakka!“
Mesta menningarsjokkið?
„Mér finnst ég ekki oft upplifa menningarsjokk þar sem ég hef verið að ferðast til framandi landa frá unga aldri. En ég spurði fjölskylduna mína og þau muna mest eftir að hafa upplifað menningarsjokk þegar við fjölskyldan fluttum til Argentínu árið 2003. Það var allt annað en við vorum vön og mikil ógn í landinu á þeim tíma. Ég var allavega fljót að venjast þar sem Argentína er ennþá eitt af mínum uppáhaldslöndum.“
Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi?
„Ég er mjög vör um mig að eðlisfari og passa upp á mig, sérstaklega þegar ég er í nýjum aðstæðum. Það er mjög mikilvægt að kynna sér hættustig í hverju landi þegar þú ert að ferðast, en mér finnst það oftast þannig að það er hættulegt þegar þú ferð á „vitlausa“ staði sem þú ættir ekki að fara á til að byrja með.
En til að segja frá einhverju atviki þá vorum við í Dóminíska Lýðveldinu í mánuð og í hvert skipti sem við reyndum að fara út fyrir hótelið var öskrað á okkur mæðgur og við upplifðum mikla ógn. Við ákváðum því að halda okkur bara á hótelinu. Svo þegar við vorum að fara úr landinu þá sögðu flugvallarstarfsmenn við okkur að Ísland væri ekki land og ætluðu ekki að gefa okkur leyfi til að fara úr landi þannig við hlupum í gegn og að vélinni okkar.“
Hvað er það besta við íslenskt sumar? En versta?
„Ég elska íslenska sumarið! Best er hvað allir eru til í að gera hluti saman eftir vetrarlægðina og auðvitað hversu bjart það er og skoða fallega landið okkar. Það versta eru svo auðvitað fáu sólardagarnir sem við fáum.“
Hvert dreymir þig um að fara?
„Ég myndi fara til hvaða lands sem er og er með mjög mörg lönd á draumalistanum, en mig hefur mjög lengi langað að fara til Namibíu og Indlands.“
Hvert ætlar þú að ferðast í sumar?
„Ég byrjaði sumarið á því að fara til Köben með vinkonum mínum. Þrátt fyrir að hafa búið mikið erlendis þá hef ég alltaf farið til Íslands yfir sumarið, en þetta verður fyrsta árið þar sem ég mun ekki gera það. Ég vil reyna að nýta breska sumarið og ferðast þar.
Planið er svo að taka einhverja ferð í Evrópu með kærastanum mínum, líklega í september, eða stærri ferð með vinum okkar!“