Konrad varð heillaður af fegurðinni á Austfjörðum

Konrad Kulis er mikill áhugamaður um landslagsljósmyndun og veit fátt …
Konrad Kulis er mikill áhugamaður um landslagsljósmyndun og veit fátt betra en að ferðast og taka myndir í náttúrunni. Ljósmynd/Konrad Kulis

Konrad Kulis er mikill áhugamaður um landslagsljósmyndun, en mynd eftir hann hafnaði í þriðja sæti í ljósmyndakeppni ferðavefs mbl.is nú á dögunum. Konrad er búsettur á Akureyri og veit fátt betra en að ferðast og taka myndir í náttúrunni. 

Hver er sagan á bakvið vinningsmyndina?

„Það er alltaf saga á bakvið ljósmynd, en ég á erfitt með að koma orðum að henni í þetta skiptið. Haustsíðdegi, bakpoki, myndavél og gott kaffi! Það er allt sem þarf til að skemmta sér. 

Sagan af þessari mynd er sú að stundum þarf ég einveru og ég fer oft á þennan stað til að hugsa. Í þetta skiptið sá ég fallegt sólarlag þar og ég var mjög ánægður að geta myndað það og sýnt öðrum.“

Myndin eftir Konrad sem var í 3. sæti.
Myndin eftir Konrad sem var í 3. sæti. Ljósmynd/Konrad Kulis

Hefur þú alltaf haft áhuga á ljósmyndun?

„Það er erfitt að segja, en ég man eftir fyrstu hrifningu minni af ljósmyndun. Það var þegar bróðir minn keypti sér fyrstu litlu stafrænu myndavélina sína og ég tók mynd af tunglinu. Ég var mjög ánægður með útkomuna, en einhvernvegin hætti ég að taka myndir um tíma

Ég sneri mér hins vegar aftur að ljósmyndun fyrir nokkrum árum og hún hefur fylgt mér síðan.“

Konrad tekur fallegar myndir af náttúrunni.
Konrad tekur fallegar myndir af náttúrunni. Ljósmynd/Konrad Kulis

Hvernig ljósmyndir finnst þér skemmtilegast að taka?

„Landslag er klárlega uppáhaldssviðið mitt í ljósmyndun, en undanfarið hef ég verið að læra að taka myndir á öðrum sviðum og reyna að finna eitthvað nýtt í sjálfum mér.“

Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum og útivist?

„Já, ég hef aldrei getað setið auðum höndum heima við og hef alltaf verið einhversstaðar úti frá morgni til kvölds. Ég elska gönguferðir og bíltúra.“

Landslagsljósmyndun heillar Konrad mest.
Landslagsljósmyndun heillar Konrad mest. Ljósmynd/Konrad Kulis

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Já, það er örugglega Hraunsvatn. Þar er fallegt útsýni, fjöllin og maður er nánast alveg einn þarna í hvert skipti.“

Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi að þínu mati?

„Mjóifjörður eða Borgarfjörður eystri. Ég heimsótti þetta svæði fyrir tveimur árum og man enn eftir fallega útsýninu, þá sérstaklega útsýninu yfir Dyrfjöll.“

Mjóifjörður og Borgarfjörður eystri eru með fegurstu stöðum sem Konrad …
Mjóifjörður og Borgarfjörður eystri eru með fegurstu stöðum sem Konrad hefur heimsótt á Íslandi. Ljósmynd/Konrad Kulis

Er einhver staður sem þú hefur ekki heimsótt á Íslandi sem þig langar að heimsækja?

„Vestfirðir eru einn af þeim stöðum sem ég hef aldrei komið til og því er líklega kominn tími til að fara þangað.“

Konrad langar að heimsækja Vestfirði enda nóg af fallegum stöðum …
Konrad langar að heimsækja Vestfirði enda nóg af fallegum stöðum þar til að mynda. Ljósmynd/Konrad Kulis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka