Heillandi að geta fest augnablik á filmu

Ísak Ólafsson ásamt hundinum sínum, Ynju.
Ísak Ólafsson ásamt hundinum sínum, Ynju. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Ísak Ólafsson hefur alla tíð haft áhuga á bæði ljósmyndun og útivist, en hann segir áhugann þó hafa aukist verulega síðustu ár. Ísak er nýlega fluttur til Svíþjóðar þar sem hann stundar meistaranám í líffræði, en hann hefur sérlega gaman af bæði dýra- og náttúruljósmyndun. Nýverið hafnaði mynd eftir Ísak í fimmta sæti ljósmyndakeppni ferðavefs mbl.is.

Hefur þú alltaf haft áhuga á ljósmyndun?

„Ég hef lengi haft áhuga á ljósmyndun en áhuginn jókst töluvert árið 2020 þegar ég fékk hundinn minn, hana Ynju og ég fór að taka myndir af henni. Sumarið 2020 vann ég líka við fuglarannsóknir og sá mikið af skemmtilegum fuglum og langaði mig að ná myndum af þeim, bæði til að auðvelda mér við að sjá hvaða tegundir þetta voru sem ég var að sjá en líka til þess að ég ætti myndir og minningar af þessum skemmtilegu augnablikum. En það að geta fest augnablikin á filmu er einmitt það sem hefur alltaf heillaði mig við ljósmyndun og mín mest hvatning til þess að taka myndir.“

Myndin eftir Ísak sem hafnaði í fimmta sæti ljósmyndakeppninnar.
Myndin eftir Ísak sem hafnaði í fimmta sæti ljósmyndakeppninnar. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Hver er sagan á bak við myndina þína?

„Árið 2021 tók ég þátt í námskeiði sem kallast Loftslagsleiðtoginn en það er útivistar- og fræðslunámskeið fyrir ungt fólk á aldrinum 18-25 ára sem felst í fræðslu, leiðangri og leiðtogaþjálfun. Myndina tók ég á síðasta deginum á þessu námskeiði.

Eftir að hafa gengið í lausamölinni í þverhníptu hlíðunum við Færineseggjar með útsýnið yfir Skeiðarárjökul komust við loks upp á hæsta punkt ferðarinnar, Blátind. Útsýnið sem blasti við okkar var eins og úr einhverju ævintýri. Gosmóðan frá Geldingadölum hafði borist alla leiðina að Skaftafelli, sem gerði það þeim mun dramatískara.“

Gosmóða frá Geldingadölum gerði ferðina mun dramatískari.
Gosmóða frá Geldingadölum gerði ferðina mun dramatískari. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Hvernig ljósmyndir finnst þér skemmtilegast að taka?

„Mér finnst skemmtilegast að taka myndir af dýrum, en fuglar og hundar hafa verið mín helstu myndefni síðan ég fór að taka myndir. En mér finnst samt gaman að taka alls konar myndir. Mér finnst líka mjög gaman af náttúru- og „abstract“ ljósmyndun en hef minna verið að taka svoleiðis myndir en svo eru ótal viðfangsefni sem mig langar að prufa að taka myndir af en hef ekki enn haft tækifæri til.“

Ísaki þykir gaman að taka alls konar myndir.
Ísaki þykir gaman að taka alls konar myndir. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum og útivist?

„Ég hef lengi haft áhuga á ferðalögum og útivist en mætti segja að áhuginn hafi aukist enn meir eftir gönguferðina sem ég fór 2021 frá Núpstaðaskógi í Skaftafell, en í þessari ferð tók ég einmitt myndina sem ég sendi inn í þessa keppni. Þessi gönguferð var sú fyrsta sem ég gekk með allt á bakinu og var meira en dagsganga. Frelsið á bakvið það að geta bara gengið hvert sem er, vera út í náttúruna, stimpla sig út frá hversdags amstrinu og njóta augnabliksins heillaði mig algjörlega.“

Frelsið heillar Ísak mikið.
Frelsið heillar Ísak mikið. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Það er erfitt að velja einhvern einn uppáhaldsstað á Íslandi en ef ég þarft að velja einn stað þá er það líklegast sumarbústaður fjölskyldu minnar við Lagarfljótið fyrir austan. Bæði þá er staðurinn einn sá fallegasti að mínu mati á Íslandi en svo á ég líka svo mikið af frábærum minningum þarna sem gera staðinn einn af mínum uppáhalds.“

Áttu þér uppáhaldsgönguleið á Íslandi?

„Gönguleiðin milli Núpstaðaskógs og Skaftafells er án efa ein af mínum uppáhalds. Leiðin er svo fjölbreitt og býður upp á svo ótrúleg mikið. Það þarf að klifra, vaða yfir ískalda jökulá, ganga í gegnum fallega birkiskóga og fara yfir völundarhús Skeiðarárjökuls. Víðernið, þessi fjölbreytni og áskoranirnar á þessari göngnuleið gera hana að einni af minni uppáhalds.“

Uppáhaldsgönguleiðin er á milli Núpstaðaskógs og Skaftafells.
Uppáhaldsgönguleiðin er á milli Núpstaðaskógs og Skaftafells. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Er einhver staður sem þú hefur ekki heimsótt á Íslandi en langar að heimsækja?

„Ég hef ekki enn fengið tækifæri til að heimsækja og skoða miðhálendi Íslands. Þannig að vonandi get ég gert það sem fyrst.“

Ísak vonast til að skoða miðhálendið sem fyrst.
Ísak vonast til að skoða miðhálendið sem fyrst. Ljósmynd/Ísak Ólafsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka