„Það er svo margt sem ég elska við Köben“

Katrín Björk Gunnarsdóttir flutti til Kaupmannahafnar fyrir fjórum árum og …
Katrín Björk Gunnarsdóttir flutti til Kaupmannahafnar fyrir fjórum árum og kolféll fyrir borginni.

Katrín Björk Gunnarsdóttir flutti til Kaupmannahafnar haustið 2019 til að stunda meistaranám í Copenhagen Business School (CBS). Hún kolféll fyrir borginni og hefur búið þar síðan, en í dag býr hún í draumaíbúðinni sinni ásamt kærasta sínum, Malachi Morse, í Nørrebro.

„Ég fór í meistaranám í Brand and Comunications Management í CBS, en eftir útskrift sumarið 2021 ákvað ég að dvelja áfram í Kaupmannahöfn þar sem ég kunni mjög vel við mig í borginni og var algjörlega heilluð af lífsstílnum hér,“ segir Katrín. 

Malachi og Katrín hafa komið sér vel fyrir í Kaupmannahöfn.
Malachi og Katrín hafa komið sér vel fyrir í Kaupmannahöfn.

Hvað heillaði þig við Kaupmannahöfn eftir að þú fluttir þangað?

„Það er svo margt sem ég elska við Köben en það sem stendur upp úr er kannski bara hversu lífleg borgin er – það eru veitingastaðir og kaffihús út um allt og alltaf eitthvað að gerast sama hvaða dagur er. Ég elska líka hvað það er auðvelt að komast á milli staða hérna en ég hjóla nánast allt og svo eru samgöngurnar upp á tíu. Síðast en ekki síst verð ég að nefna arkitektúrinn en það er svo mikið af fallegum byggingum sem gefa borginni mjög mikinn sjarma.“

Katrín segir samgöngurnar í Kaupmannahöfn vera frábærar, en þar að …
Katrín segir samgöngurnar í Kaupmannahöfn vera frábærar, en þar að auki hjóli hún nánast allt.

Hvaða hverfi eru í uppáhaldi hjá þér?

„Klárlega Nørrebro enda bý ég þar núna í draumaíbúðinni minni og kann svo vel við mig þar. Staðsetningin er fullkomin þar sem ég er einhvern veginn nálægt öllu og það tekur mig aðeins tíu mínútur að hjóla niður í bæ. Annars eru Vesterbro og Frederiksberg líka í miklu uppáhaldi og ég gæti vel hugsað mér að búa þar.“

Katrín býr í draumaíbúðinni sinni í Nørrebro.
Katrín býr í draumaíbúðinni sinni í Nørrebro.

Áttu þér uppáhaldskaffihús?

„Já, örugglega allt of mörg. Það sem er í uppáhaldi núna er hverfisbakaríið Andersen & Millard, en þar fæst besta súrdeigsbrauð sem ég veit um og bakkelsið er eitthvað annað gott.“

En uppáhaldsveitingastað?

„Veitingastaðirnir sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér þessa stundina eru Llama og Yaffa. Llama er suður amerískur veitingastaður – maturinn þar er svo góður og svo er staðurinn líka bara svo flottur. Yaffa er mið austurlenskur veitingastaður með ótrúlega góðan mat og er sjúklega kósí!“

Að sögn Katrínar er nóg af flottum kaffihúsum, veitingastöðum og …
Að sögn Katrínar er nóg af flottum kaffihúsum, veitingastöðum og börum í borginni.

Hvernig er skemmtanalífið í Kaupmannahöfn?

„Það er klárlega alltaf nóg um að vera hér, mikið af góðum börum og klúbbum. Ég er nú svo sem ekki mesti djammarinn, þannig sæki ekki mikið á klúbbana sjálf en ég elska að setjast niður á góðan bar og fá mér búbblur eða gin og tonic. Það er endalaust af börum að finna í Köben og í miklu uppáhaldi núna eru barir sem bjóða upp á náttúrulegt vín, en það er bara eitthvað svo næs! Ég mæli til dæmis með Bar Vivant, Veranda, Yellow og Ved Stranden 10 svo eitthvað sé nefnt.“

Hvað er ómissandi að sjá í Kaupmannahöfn?

„Þegar ég fæ gesti þá finnst mér mjög gaman að hjóla um borgina en þá sér maður borgina í öðru ljósi. Einnig elska ég að labba um í Frederiksberg have garðinum, það er allt svo fallegt þar og svo er lítið kaffihús inni í garðinum þar sem hægt er að kaupa sér kaffibolla eða vínglas. Ef sólin skín er fullkomið að fara þangað í lautarferð.

Svo er Jægersborggade í Nørrebro uppáhaldsgatan mín í Kaupmannahöfn en hún er svo sæt og það er svo gaman að labba þar. Þar er t.d. frábær bröns staður The Sixteen Twelve og uppáhalds „second hand“ búðin mín Tú a Tú ásamt góðum kaffihúsum og fleiri sætum búðum.“

Á sólríkum dögum veit Katrín fátt betra en að fara …
Á sólríkum dögum veit Katrín fátt betra en að fara í lautarferð.

Hvernig er draumadagurinn þinn í Kaupmannahöfn?

„Það væri sennilega sumardagur en það er bara eitthvað við Köben á sumrin. Ég myndi byrja daginn á hlaupi í garðinum, fara svo beint á uppáhaldskaffihúsið, sitja á útisvæðinu og fá mér súrdeigsbollu og ískaffi. Síðan myndi ég skella mér á bryggjuna með góða bók og drykk. Ég myndi hoppa í sjóinn þess á milli sem ég myndi baða mig í sólinni með bókina mína.

Dagurinn myndi svo enda á Reffen Street Food Market með góðum vinum en það er svo gaman að fara þar á sumrin og sitja úti. Þar er hægt að velja á milli óteljandi veitingastaða. Svo myndi ég hjóla heim í sólsetrinu, það væri hinn fullkomni dagur.“

Það er líf og fjör í Kaupmannahöfn!
Það er líf og fjör í Kaupmannahöfn!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka