Ljósmyndarinn Emelía Sól Gústavsdóttir hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ferðalögum, bæði innanlands og utan landsteinanna. Hún veit fátt skemmtilegra en að kynnast nýrri menningu og sjá fallegar náttúruperlur með eigin augum.
Emelía útskrifaðist sem ljósmyndari frá Tækniskólanum vorið 2022. Hún viðurkennir að þrátt fyrir að ljósmyndun hafi alltaf heillað hana hafi hún ekki áttað sig strax á því að það væri það sem hún vildi læra og vinna við í framtíðinni.
„Þegar ég kláraði menntaskóla var ég alls ekki tilbúin að fara beint í háskólanám og vissi ekkert hvað ég myndi vilja læra og verða þegar ég yrði stór. En ferðaþráin var mjög sterk og því tók þá nokkur ár þar sem ég var bara að vinna og safna pening fyrir næstu utanlandsferð.
Á þessu ferðalagi fann ég fljótlega að mig langaði að geta tekið fallegar myndir af þessum stöðum og festa minningarnar á filmu í góðum gæðum. Ég varð svo loksins tilbúin að fara aftur í skóla og var með í huga innanhússarkitekt, ljósmyndun, markaðsfræði eða stílistanám,“ útskýrir hún og segir ljósmyndun hafa orðið fyrir valinu.
Emelía var dugleg að ferðast árið 2023, en hún byrjaði árið með stæl í Los Angeles í Bandaríkjunum.
Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?
„Ég elska að mest að ferðast erlendis og þá helst á staði þar sem er nóg af pálmatrjám, fallegum ströndum og sól. En eftir að hafa klárað ljósmyndanámið þá kann ég meira að meta allar árstíðir því þær bjóða allar upp á fjölbreytta liti og fallega birtu sem er svo gaman að vinna með á myndavélinni. Ég er líka mjög heilluð af „roadtrip“ ferðalögum í fallegum hippa bíl, t.d. í Evrópu eða Ástralíu, það er mjög ofarlega á „bucket“ listanum.“
Hvert ferðaðist þú innanlands í ár?
„Þau voru ekki mörg ferðalögin innanlands í ár. Ég fór með tveimur vinkonum mínum í stutt „roadtrip“ að Seljavallalaug, Skógafossi og Seljalandsfossi – það var mjög skemmtileg skyndiákvörðun. Einnig fórum við Ísak kærastinn minn í myndatöku í Reynisfjöru og Dyrhólaey fyrir ljósmyndahóp frá Hollandi. Ég hlakka mikið til að ferðast meira um Ísland og ná fallegum myndum af okkar náttúruperlum.“
En erlendis?
„Ég byrjaði árið í Los Angeles í Bandaríkjunum í heimsókn hjá mágkonu minni þar sem ég var þar með fjölskyldu Ísaks yfir jól og áramót. Í lok mars fórum við Ísak til Balí í tvo mánuði. Á heimleiðinni tókum við þriggja daga stopp í Singapore og 10 daga í Danmörku að heimsækja fjölskylduna mína sem býr þar. Í lok sumars fór ég svi með Ísaki og fjölskyldu hans í tvær vikur til Krítar að fagna fimmtugsafmæli hjá tengdamömmu minni.“
Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt innanlands í ár?
„Bæði ferðalögin sem ég nefndi hér fyrir ofan voru ótrúlega skemmtileg, get varla valið á milli. En þessi myndataka í Reynisfjöru var mjög áhugaverð, margar fallegar myndir sem við fengum að eiga og þykir vænt um.“
Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt erlendis í ár?
„Öll þessi ferðalög erlendis voru líka dásamleg og ólík. En Balí á alltaf sérstakan stað í hjartanu mínu, þetta var mín fjórða ferð þangað og í þetta skiptið ferðaðist ég mun meira en áður um eyjuna og upplifði nokkra fallega staði sem mig hafði lengi langað að sjá og taka myndir af.“
„Staðirnir sem stóðu mest upp úr voru Kelingking Beach Nusa Penida, Jatiluwih Rice Terraces og fossinn Tukad Cepung. Krít heillaði mig samt líka mjög mikið og ég væri til í að fara aftur þangað og ferðast meira um eyjuna sjálfa og jafnvel fleiri eyjar þar í kring.“
Besti maturinn sem þú fékkst á ferðalagi í ár?
„Avocado-toast og smoothie-skálar hafa verið lengi í uppáhaldi hjá mér og er enn, ég gæti borðað það til skiptis í öll mál. Balí er einmitt troðfull eyja af slíkum mat og algjör draumur fyrir mikla matgæðinga, vegan og grænmetisætur. En það var eitt salat sem við þurftum að enda Balíferðina okkar á. Staðurinn heitir Secret Spot og salatið Falafel Bliss Bowl er klárlega hið fullkomna salat að mínu mati.“
Hvaða staði mælir þú að fólk heimsæki?
„Það eru tvö hótel á Balí sem ég mun alltaf hugsa um og láta mig dreyma um að fara aftur á – Belajar og Maja Canggu. Ég myndi klárlega mæla með að eyða að minnsta kosti einni nótt á öðru hvoru eða báðum hótelunum.“
„Maja hótelið er eins og að stíga inn í himnaríki. Arkitektúrinn og stíllinn er ótrúlega fallegur sem er svo gaman að mynda, bæði einn og sér og svo eru fallegir bakgrunnir útum allt fyrir Instagrammið. En bæði hótelin eru mjög stílhrein og með svo róandi „vibe“ yfir öllu.“
Ertu byrjuð að plana ferðalög fyrir næsta ár?
„Næsta ár er ekkert planað, oftast eru þau lítið plönuð hjá mér og plönin frekar gerð með stuttum fyrirvara þannig það verður spennandi að sjá hvernig 2024 verður. En mig langar að ferðast meira um Ísland og mögulega mun ég heimsækja fjölskylduna mína í Danmörku.“
Hvert dreymi þig að fara?
„Mig dreymir helst um að fara til Japan, Ástralíu, Filippseyjar, Maldives, Noregs, Grænlands, Nýja Sjálands, Afríku, Suður Ameríku, Hawaii og gæti talið endalaust áfram.“