Melkorka elti draumanámið til Barcelona

Melkorka Ýrr Yrsudóttir er 26 ára innanhússarkitektnemi og búsett í …
Melkorka Ýrr Yrsudóttir er 26 ára innanhússarkitektnemi og búsett í Barcelona á Spáni.

Melkorka Ýrr Yrsudóttir er 26 ára innanhússarkitektanemi sem er búsett í Barcelona á Spáni ásamt kærasta sínum Davíð Rúnari Bjarnasyni. Haustið 2021 ákvað Melkorka að elta langþráðan draum alla leið til Spánar þar sem hún hóf nám í innanhússarkitekt hjá Instutio Europeo di Design (IED).

Í dag hafa Melkorka og Davíð komið sér vel fyrir í borginni og kunna afar vel við sig þar, en borgin er þekkt fyrir mikinn sjarma og hið fullkomna jafnvægi á milli stórborgar- og strandarstemningar. 

„Ég elti draumanámið sem er, sem betur fer, ekki kennt heima á Íslandi svo mér tókst að slá tvær flugur í einu höggi – að prófa að búa erlendis og sækja háskólagráðu,“ útskýrir Melkorka. 

„Barcelona varð einfaldlega fyrir valinu vegna veðursins. Svo leið mér rosalega vel hérna sem ferðamaður þegar ég heimsótti systur mína Jöru Sól þegar hún bjó hér sjálf fyrir nokkrum árum,“ bætir hún við. 

Davíð og Melkorka á Camp Nou, heimavelli spænska knattspyrnuliðsins Barcelona.
Davíð og Melkorka á Camp Nou, heimavelli spænska knattspyrnuliðsins Barcelona.

Stórborgarlíf í bland við strandarmenningu

Aðspurð segist Melkorka kunna afar vel við sig í Barcelona, en hún segir stærð borgarinnar vera mikinn kost þar sem flest allt er í göngufjarlægð. „Ég fíla Barcelona og fjölbreytnina sem hún hefur upp á að bjóða mjög vel. Hér er stórborgarlíf í bland við strandarmenningu, allir virka rosalega afslappaðir hérna,“ segir hún.

Melkorka býr í Eixample-hverfinu sem hún segir vera afar fjölskylduvænt og í mikilli uppbyggingu, en hverfið er í um 40 mínútna göngufjarlægð frá skólanum. „Það hafa margar nýjar og fjölbreyttar þjónustur opnað í kringum okkur frá því við fluttum haustið 2021. Þar á meðal er gamalt fangelsi sem er staðsett beint á móti blokkinni okkar, en því var breytt í einhverskonar menningarstöð og leikskóla – breyting sem mér finnst svo skemmtileg og einstök. Svo hefur fjöldinn allur af veitingastöðum og kaffihúsum opnað hérna í kring líka og akstursgötum verið breytt í göngugötur sem er jákvætt,“ segir Melkorka. 

„Ég reyni að ganga heim úr skólanum þegar veðrið er gott, en annars stóla ég mikið á metró-kerfið hérna og það er eitt af því sem ég sakna mjög þegar ég kem heim til Íslands yfir sumarfríið,“ bætir hún við. 

Melkorka er búsett í hverfi sem er í um 40 …
Melkorka er búsett í hverfi sem er í um 40 mínútna göngufjarlægð frá skólanum.

Spurð hvað hafi komið henni á óvart þegar hún flutti út nefnir Melkorka nokkra hluti. „Fyrsta árið mitt hérna fannst mér afar krefjandi að sækja allskonar þjónustu eins go að opna bankareikning og fá internet og fleira – sérstaklega þar sem spænsku kunnáttan var takmörkuð við liti og tölustafi og fáir starfsmenn sem höfðu þolinmæði fyrir enskunni,“ segir hún. 

„Það kom mér líka á óvart hvað þjónustu innbiðir eru gamaldags hérna – það er fátt sem hægt er að gera hér í gegnum netið eins og við erum góðu vön á Íslandi og þarf þar af leiðandi allt svoleiðis að eiga sér stað í persónu,“ segir hún. 

Það var ýmislegt sem kom Melkorku á óvart þegar hún …
Það var ýmislegt sem kom Melkorku á óvart þegar hún flutti út.

Hvernig er námið?

„Námið er rosalega krefjandi en er góð blanda milli skapandi verkefna og svo tæknilegrar hæfni.“

Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?

„Virkir dagar eru oft frekar einslitaðir hjá mér enda fíla ég mig mest í rútínu. Ég er í skólanum frá klukkan átta til ellefu þessa stundina, en eftir það kem ég heim, fæ mér hádegismat og reyni að læra þar til ég fer í ræktina. Þegar ég er búin í ræktinni læri ég svo þar til ég byrja að elda og svo tek ég einhvern góðan þátt fyrir svefn.“

Hvað gerir þú þér til skemmtunar í borginni?

„Ég og Davíð kærastinn minn erum dugleg að nýta helgarnar í eitthvað skemmtilegt saman, hvort sem það er bara langur göngutúr um borgina með stoppum á kaffihúsum eða börum og þannig finna nýja veitingastaði og afþreyingu. 

Við erum einnig dugleg að fara á tónleika, en þegar nær dregur sumri höfum við farið á padel og auðvitað á ströndina hvort sem það er Barceloneta eða í Sitges. Svo er alltaf klassískt að hitta vini yfir kvöldmat og eiga góða stund saman yfir góðu víni og mat.“

Melkorka og Davíð eru dugleg að gera eitthvað skemmtilegt um …
Melkorka og Davíð eru dugleg að gera eitthvað skemmtilegt um helgar, til dæmis að fara á tónleika.

Hvað er ómissandi að gera og sjá í Barcelona?

„Sem hönnunarnemi verð ég að mæla með að þræða Gaudi byggingarnar í borginni og þá sérstaklega að kíkja inn í Sagrada Familia kirkjuna. Einnig að heimsækja Barcelona Pavilion eftir Meis van der Rohe.

Annars er það þetta klassíska – borða góðan mat, taka lestina yfir til Sitges og njóta katalónskar menningar í gamla hluta Barcelona.“

Melkorka mælir með að allir skoði hina frægu Sagrada Familia …
Melkorka mælir með að allir skoði hina frægu Sagrada Familia kirkju í Barcelona.

Hvernig er draumadagur í borginni?

„Byrja daginn á góðu heimagerðu brauði með avókadó og fara svo á padel. Taka svo góðan og nærandi brunch fyrir ströndina og enda daginn á hamborgara á MakaMaka. Og ef það er fyrsta helgi mánaðar þá er alltaf jafn gaman að fara á Pablo Alto Market Fest sem er markaður fullur af matarvögnum, litlum „boutiques“ og lifandi tónlist.“

Áttu þér uppáhaldsveitingastað og -kaffihús?

„Það er ógrynni af góðum veitingastöðum og kaffihúsum í Barcelona og erfitt að lista nokkra staði niður. En við Davíð eigum okkar uppáhalds stað, Jugoria, sem vill svo til að er staðsettur við hliðina á íbúðinni okkar. Við höfum náð að kynnast öðrum eiganda staðarins vel, honum Sergio, en besta „ceviche“ sem ég hef smakkað er einmitt þar!

Annars sækjum við mikið í Puntual og Santagustina fyrir tapas og svo eru bestu pítsurnar á Parking Pizza.“

Melkorka segir fjölda spennandi veitingastaða og kaffihúsa leynast í borginni.
Melkorka segir fjölda spennandi veitingastaða og kaffihúsa leynast í borginni.

Hvar er best að versla?

„Ég reyni að forðast helstu túristagöturnar sem mest vegna mannfjöldans sem getur myndast þar. Ég versla því mest á Diagonal og Garcia sem er rétt hjá skólanum, en þar er hægt að finna „vintage“ búðir með góðu verði. Annars er Humana mín uppáhaldsbúð og svipar mikið til Hertex eða Rauða krossins heima.“

Hvað er framundan hjá þér?

„Næst á döfinni er að klára þriðja og næst síðasta árið mitt í náminu og svo mun ég vinna í útibúi Sérefna á Akureyri í sumar. Ef allt gengur upp mun ég svo byrja í starfsnámi hjá einhverju af þeim hönnunarstúdíóum sem eru hérna úti næsta haust.“

Það er margt spennandi framundan!
Það er margt spennandi framundan!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka