Versta matarupplifunin var í fegurðarsamkeppni í Mexíkó

Guðrún Sigurbjörnsdóttir veit fátt skemmtilegra en að ferðast og skoða …
Guðrún Sigurbjörnsdóttir veit fátt skemmtilegra en að ferðast og skoða heiminn. Samsett mynd

Guðrún Sigurbjörnsdóttir veit fátt skemmtilegra en að ferðast og skoða heiminn, en hún starfar sem yfirflugfreyja hjá flugfélaginu Play og rekur ásamt því eigið fyrirtæki sem heitir Glow Label. 

Guðrún hefur verið dugleg að ferðast um heiminn, en hún heldur úti Instagram-síðu þar sem hún deilir töfrandi ferðamyndum. „Ég ferðaðist mikið sem krakki, bæði á Íslandi og erlendis. Ég fór einnig til Ástralíu í ár sem skiptinemi og elskaði að vera þar í hitanum með allar fallegu strendurnar, en það er endalaust hægt að skoða þar,“ segir Guðrún. 

„Ég starfaði einnig hjá Etihad í Abú Dabí sem flugfreyja sem var auðvitað frábært tækifæri til þess að skoða heiminn,“ bætir hún við. 

Guðrún starfar í dag sem yfirflugfreyja hjá flugfélaginu Play.
Guðrún starfar í dag sem yfirflugfreyja hjá flugfélaginu Play.

„Hika ekki við að elta draumana mína“

Í dag er Guðrún gift og á dóttur sem er sjö ára og stjúpdóttur sem er fimmtán ára. Auk ferðalaga eru helstu áhugamál Guðrúnar útivist og hreyfing, en um þessar mundir er hún einnig að klára framhaldsnámskeið í leiklist og segir drauminn vera að gera meira í þeim bransa. 

„Ég reyni að grípa öll tækifæri sem gefast í lífinu og hika ekki við að elta draumana mína, enda er lífið alltof stutt til að gera það ekki,“ segir Guðrún. 

Guðrún ásamt dóttur sinni á Ítalíu.
Guðrún ásamt dóttur sinni á Ítalíu.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Uppáhaldsferðalögin mín eru klárlega þar sem er hiti og strendur. Ég elska að vera úti í náttúrunni og því eru borgarferðir ekki ofarlega á listanum þegar kemur að því að plana ferðir – nema það sé fyrir fjölskylduna.“

Guðrún elskar sólrík ferðalög þar sem er hiti og strendur.
Guðrún elskar sólrík ferðalög þar sem er hiti og strendur.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið erlendis?

„Maldíveyjar standa upp úr sem eftirminnilegasta ferðalagið. Ég fór þangað í þrjár nætur út af vinnunni þegar ég vann hjá flugfélaginu Etihad. Það var draumi líkast að fljúga yfir eyjurnar þar og sjá hve tær sjórinn var.“

Þegar Guðrún starfaði sem flugfreyja hjá Etihad í Abú Dabí …
Þegar Guðrún starfaði sem flugfreyja hjá Etihad í Abú Dabí fór hún til Maldíveyja.

En innanlands?

„Ég á erfitt með að velja uppáhaldsstað til að ferðast á hér á Íslandi, en mér finnst Ísland fallegasta landið og alltaf gaman að ferðast hér um landið. Ég er frá Hveragerði og hef því ferðast mikið um suðurlandið frá því ég var lítil í t.d. útilegur á sumrin og svoleiðis. 

Ég hef ferðast um allt landið en sjaldnast fyrir austan. Ég er því spennt fyrir að skoða mig betur um á þeim slóðum þegar sumarið okkar kemur.“

Guðrún hefur verið dugleg að ferðast innanlands og þá sérstaklega …
Guðrún hefur verið dugleg að ferðast innanlands og þá sérstaklega um suðurlandið.

Áttu þér uppáhaldsborg í Evrópu?

„Ég elska Ítalíu og við héldum brúðkaupsveislu í Pisa síðasta sumar. Mér hefur alltaf fundist mest spennandi að heimsækja þær borgir þar sem mikið er af fallegum gömlum byggingum og stutt í fallega náttúru.“

En utan Evrópu?

„Mér finnst alltaf gaman að fara til New York-borgar, en ég fæddist í Bandaríkjunum og var þar fyrstu sex árin af lífi mínu. Þannig ég hef alltaf fundið sérstaka tengingu við Bandaríkin út af því.“

New York-borg er í sérstöku uppáhaldi hjá Guðrúnu.
New York-borg er í sérstöku uppáhaldi hjá Guðrúnu.

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Ég elska að fara til Akureyrar. Mér finnst svo margt í boði þar sem hægt er að gera – t.d. fara í skíðaferð á veturna og kíkja þangað á sumrin í góða veðrið og taka röltið.“

Guðrúnu þykir alltaf jafn gaman að heimsækja Akureyri.
Guðrúnu þykir alltaf jafn gaman að heimsækja Akureyri.

Besti matur sem þú hefur fengið á ferðalagi?

„Maturinn á Ítalíu stendur upp úr – öll hráefnin eru svo fersk og mikið lagt upp úr því að gera góðan mat frá grunni þar. 

Versta upplifun af mat var þegar ég var í Mexíkó að keppa í fegurðarsamkeppni fyrir hönd Íslands. Þar fengum við þessa fínu súpu, að við héldum, nema þegar við vorum að klára að borða hana var okkur tilkynnt að þetta væri einhvers konar pöddusúpa. Það var mikið drama eins og við var að búast og margar sem ældu þegar þær tóku eftir pöddunum sem búið var að mauka í súpuna. Súpan smakkaðist reyndar mjög vel.“

Versta matarupplifun Guðrúnar var þegar hún tók þátt í fegurðarsamkeppni …
Versta matarupplifun Guðrúnar var þegar hún tók þátt í fegurðarsamkeppni í Mexíkó.

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi?

„Þótt ótrúlegt sé þá hef ég aldrei lent í neinu hræðilegu á ferðalagi en ég hef líka alltaf farið varlega og ekki verið að fara á svæði sem ég veit að eru hættuleg.“

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Áður en ég fer í flug þá tjékka ég milljón sinnum hvort ég og aðrir fjölskyldumeðlimir séu með vegabréfin með sér. Ég hleð alltaf niður kvikmyndum og þáttum í símann til að horfa á í flugvélinni. Ég tek líka heyrnatól og bók sem ég gleymi svo að lesa.“

„Það er líka mikilvægt að taka hleðslutæki ef símar verða batteríslausir í löngu flugi. Ég tek alltaf jakka eða hlýja peysu tl að nota sem kodda eða til að breiða yfir litlu stelpuna mína ef henni verður kalt. 

Og eitt tips fyrir farþega sem flugfreyja – aldrei labba á sokkunum eða tánum á klósettið í flugvélunum!“

Guðrún tekur alltaf með sér bók í flugvélina.
Guðrún tekur alltaf með sér bók í flugvélina.

Hvert dreymir þig um að fara?

„Mig langar rosalega mikið að fara til Balí og það er á laupalistanum (e. bucketlist).“

Eru einhver ferðalög á dagskrá hjá þér í vor eða sumar?

„Við fjölskyldan erum að fara í ferð til Svíþjóðar í maí og ætlum í Astrid Lindgren-garðinn og enda svo í Danmörku og fara meðal annars í Tívolíið þar. 

Í sumar er ekkert sérstakt planað. Við eigum hús á Alicante þannig það verður örugglega farið þangað og svo finnst mér líka alltaf gaman að hoppa út á vit ævintýra með litlum fyrirvara.“

Guðrún biðlar til farþega að fara ekki á sokkunum eða …
Guðrún biðlar til farþega að fara ekki á sokkunum eða tánum inn á klósett í flugvélum.
Guðrún er á leiðinni í skemmtilega ferð ásamt fjölskyldu sinni …
Guðrún er á leiðinni í skemmtilega ferð ásamt fjölskyldu sinni í maí næstkomandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert