Ásta fann núvitundina úti í náttúrunni

Ásta Björk Bolladóttir veit fátt skemmtilegra en að ferðast um …
Ásta Björk Bolladóttir veit fátt skemmtilegra en að ferðast um Ísland og stunda útivist. Samsett mynd

Einkaþjálfarinn Ásta Björk Bolladóttir er mikill náttúru- og útivistarunnandi. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ferðalögum og var um tíma staðráðin í því að flytja erlendis. Með árunum hefur áhugi hennar á íslenskri náttúru þó aukist eftir að hún fór að sækja meira í útivist og segist hún fljótlega hafa áttað sig á því að öll fegurðin og ævintýrin væru í bakgarðinum hjá sér. 

„Ég hef alltaf elskað náttúruna og sótt mikið í hana. Ég var verulega upptekin af ferðalögum og alveg viss um að ég vildi búa einhvers staðar erlendis – það mætti segja að ég hafi forgangsraðað því fram yfir margt annað á tímabili. En eftir þó nokkur ævintýri fann ég hvað ég elskaði Ísland alltaf meira og meira og eftir eina ferðina erlendis kom ég heim með það hugarfar að skapa mér sem mest af útivistaráhugamálum hérna heima í öllum veðráttum og skapa mér líf sem ég þyrfti ekki frí frá. Oft er það þannig að fegurðin er bara í bakgarðinum – sérstaklega þegar maður býr á Íslandi,“ segir Ásta. 

Ásta er einkaþjálfari og hefur starfað hjá World Class síðastliðin tíu ár, en hún segist snemma hafa fattað að hún hefði mikla hreyfiþörf og hefur því stundað fjölbreytta hreyfingu lengi. „Ég er frekar ofvirk og uppgötvaði það rosalega snemma að ég þyrfti að hreyfa mig mikið og fá mikla útrás til að líða vel og sofa vel. Ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera við orkuna mína og byrjaði að stunda handbolta og líkamsrækt ung, en ég sóttist alltaf í eins mikla útrás og ég gat. Ég hef einnig æft brasilískt Jiu Jitsu í Mjölni sem er eitt það skemmtilegasta sem ég hef nokkurn tíma æft,“ útskýrir hún. 

Ásta segist snemma hafa áttað sig á því að hún …
Ásta segist snemma hafa áttað sig á því að hún þyrfti mikla hreyfingu og útrás.

„Mér líður langbest í náttúrunni“

Aðspurð segir Ásta að á síðustu árum hafi áhugi hennar á útivist aukist mikið og reynir hún í dag að verja sem mestum tíma úti í náttúrunni þar sem hún upplifir fullkomna núvitund. „Ég myndi segja að ég hafi byrjað frekar seint að stunda útivist af alvöru þar sem ég var frekar upptekin af öðrum innanhúsíþróttum og líkamsrækt þegar ég var yngri, maður var einhvern veginn alltaf mér hausinn þar. Svo fyrir nokkrum árum fann ég hvað mér líður langbest í náttúrunni og nauðsynlegt fyrir mig og upp á jafnvægið með daglegu lífi,“ segir hún. 

„Það er svo mikilvægt að þora að prófa nýja hluti og að vera algjör byrjandi, helst aftur og aftur. Það er ákveðin áskorun í því og gott að efla sjálfstraustið sitt með að stíga út fyrir þægindarammann,“ bætir hún við. 

Í dag þykir Ástu nauðsynlegt að eyða tíma í náttúrunni, …
Í dag þykir Ástu nauðsynlegt að eyða tíma í náttúrunni, enda gefur það henni jafnvægi í dagleglu lífi.

Hvernig hreyfingu og útivist stundar þú?

„Ég tek styrktaræfingar flesta daga, tek þolæfingar inn á milli og er mikið að teygja. Ég einblíni á að vera í alhliða formi sem hjálpar mér í flestum öðrum áhugamálum. Það er alltaf gott að viðhalda styrk, þoli og liðleika og ég reyni að líða alltaf eins og ég sé klár fyrir hvað sem er hvenær sem er.

Ég varð hugfanginn af fjallahjólum og það er klárlega eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Svo vakna ég með það hugarfar að skoða hvernig veðrið er og gera nákvæmlega það sem mér dettur í hug.“

Ásta er dugleg að hreyfa sig og stundar fjölbreyttar æfingar, …
Ásta er dugleg að hreyfa sig og stundar fjölbreyttar æfingar, allt frá styrktar- og þolæfingum yfir í teygjur.

„Það er auðvitað rosalega mögnuð tilfinning að vera tímalaus í sjónum á brimbretti í góðum félagsskap – það er fátt sem toppar það. Ísklifur og ganga á jöklum hefur verið í miklu uppáhaldi, það er einhver ákveðin orka í kringum jöklana sem mér finnst gera göngur svo stórbrotnar.“

Ástu þykir alltaf jafn skemmtilegt að fara á brimbretti í …
Ástu þykir alltaf jafn skemmtilegt að fara á brimbretti í góðum félagsskap.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Erlendis finnst mér best að sameina ferðalög með hreyfingu og skoða fallega staði, helst alltaf nálægt sjó eða fjöllum. Það að ferðast og sjá nýja staði og menningu er alltaf gefandi og opnar einhvern nýjan part af sjálfum manni. Ég er eins mikill Íslendingur og það gerist, en ég er meira fyrir kulda en hita svo of heit lönd til lengri tíma er ekki fyrir mig þó svo það sé gott að komast í smá sól.“

Ástu þykir gaman að skoða nýja staði í sól og …
Ástu þykir gaman að skoða nýja staði í sól og hita en viðurkennir þó að henni líði best í kaldara loftslagi á Íslandi.

„Innanlands finnst mér í fyrsta lagi endalaust skemmtilegt að keyra um landið ég fæ ekki nóg af því. Mér líður eiginlega best á ferðinni í bíl því ég tek því ekki sem sjálfsögðum hlut að keyra um í svona fallegri náttúru.

Að vera í góðum félagsskap á leiðinni í skemmtileg ævintýri eða á leiðinni að skoða staði sem maður hefur ekki séð gefur mér tilhlökkunartilfinningu eins og úr æsku. Mér finnst mikilvægt að reyna að fylgja því hvar maður finnur sig í þessari „krakkaorku“ þar sem maður er fullur af tilhlökkun og óvissu á sama tíma.

Enda er það líka eitt af því sem einkennir Ísland og útivist – plönin geta alltaf breyst og oft þarf maður að hafa aðeins meira fyrir hlutunum sem lætur manni bara líða meira lifandi og er oft spennandi.“

Á ferðalögum um landið er Ásta oft full af tilhlökkun …
Á ferðalögum um landið er Ásta oft full af tilhlökkun og óvissu á sama tíma.

Uppáhaldsstaðir á Íslandi?

„Katla, íshellirinn í Mýrdalsjökli, Múlagljúfur, Kerlingafjöll og allstaðar þar sem er foss.“

Uppáhaldshjólaleiðir á Íslandi?

„Bestu dagar sem ég hef átt á fjallahjóli eru á Esjunni og þegar Skálafell var með hjólagarðinn opinn.“

Ástu þótti gaman að hjóla í Skálafelli.
Ástu þótti gaman að hjóla í Skálafelli.

Uppáhaldsstaður til að fara á brimbretti?

„Ég hef verið í Þorlákshöfn þar sem það er öruggari staður en margir aðrir og hentar fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.“

Að sögn Ástu er Þorlákshöfn frábær brimbrettastaður fyrir byrjendur sem …
Að sögn Ástu er Þorlákshöfn frábær brimbrettastaður fyrir byrjendur sem og lengra komna.

En til að stunda ísklifur?

„Ég hef verið mest á Sólheimajökli, en mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að fara þangað.“

Eftirminnilegasta ferðalagið á Íslandi?

„Einu sinni var kærasti vinkonu minnar að plana afmælið hennar þar sem þau voru á Höfn í Hornafirði og vildi koma henni á óvart með því að ég kæmi til þeirra. Ég byrjaði að keyra þangað um nóttina og hitti þau hjá Jökulsárlóni um morguninn. Þar prófaði ég ísklifur í fyrsta skipti og átti einn besta dag sem ég hef upplifað með þeim á Falljökli.

Svo er það þegar ég gekk að eldgosinu í fyrsta skipti undir stjörnubjörtum himni og fullu tungli. Það situr alltaf eftir sem eitt það magnaðasta sem ég hef séð.“

Ásta varð heilluð af ísklifri þegar hún prófaði það í …
Ásta varð heilluð af ísklifri þegar hún prófaði það í fyrsta sinn með vinum sínum.

Áttu þér uppáhalds náttúrulaugar á Íslandi?

„Það eru auðvitað minni náttúrulaugar hér og þar sem er gaman að fara í þegar maður er á ferðinni en ég elska að geta tekið kuldabað dagsins í leiðinni. Svo er Hvammsvík í miklu uppáhaldi hjá mér núna – að eiga góðan dag þar og geta farið í sjóinn á milli eða skellt sér á „paddle board“ er mjög skemmtilegt – hvað þá í þessari náttúruparadís!“

View this post on Instagram

A post shared by Asta Bjork (@astaabjork)

Hvaða staði mælir þú með að fólk heimsæki í sumar?

„Ég myndi mæla með að sjá Kerlingafjöll, Kötlu og Múlagljúfur. Síðan mæli ég líka með því fyrir þá sem vilja fara styttra eða með fjölskyldu að búa til smá ævintýri úr hversdagsleikanum – taka nesti, teppi og sundföt og keyra til dæmis hjá Helgufossi. Það þarf ekki að fara langt til þess að tengjast náttúrunni.“

Ásta mælir með heimsókn í Kerlingarfjöll, Kötlu og Múlagljúfur!
Ásta mælir með heimsókn í Kerlingarfjöll, Kötlu og Múlagljúfur!

Ertu með einhver ráð fyrir þá sem vilja koma sér af stað í útivist fyrir sumarið?

„Sleppa tökunum á ofhugsun, hvort sem það er að vera ekki nógu „góður“, of gamall, eiga ekki næg útivistarföt eða vera ekki í nógu góðu formi. Vaða bara í hlutina, tala við fólk, spyrjast fyrir og njóta þess að hreyfa sig fyrst maður hefur heilsu til þess. Lífið er svo sannarlega núna.“

Ásta er með nokkur góð ráð fyrir þá sem vilja …
Ásta er með nokkur góð ráð fyrir þá sem vilja byrja að stunda útivist.

Eru einhverjir staðir á Íslandi sem eru byrjendavænir fyrir þá sem eru að byrja í útivist?

„Heiðmörk er æðisleg hvort sem það er fyrir göngur eða hjól.“

Hvað er framundan í sumar hjá þér?

„Ferðast um landið og skapa minningar. Svo helst að stökkva út í fossa út um allt land.“

Í sumar ætlar Ásta að hoppa í sem flesta fossa!
Í sumar ætlar Ásta að hoppa í sem flesta fossa!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka