„Fyrsta nóttin var mjög köld“

Helga María Heiðarsdóttir, oft kölluð Helga Fjalló, þveraði nýverið Vatnajökul …
Helga María Heiðarsdóttir, oft kölluð Helga Fjalló, þveraði nýverið Vatnajökul ásamt góðum hópi. Samsett mynd

Helga María Heiðarsdóttir, jöklafræðingur, leiðsögukona og þjálfari, fór nýverið í mikla ævintýraferð þar sem hún þveraði Vatnajökul á sjö dögum á skíðum. Ferðin var í heildina 128 kílómetrar og hækkunin 1.600 metrar, en hún segir ferðir sem þessar krefjast mikils undirbúning, skipulags og æfinga. 

Helga hefur verið heilluð af náttúrunni frá því hún man eftir sér og forvitin um náttúruöfl og heilsutengd málefni. Í dag starfar hún sem framkvæmdastjóri Útihreyfingarinnar ásamt því að leiðseigja í ferðum og þjálfa fólk í ýmis konar hreyfingu og útivist. 

Helga er mikil útivistar- og ævintýrakona og veit fátt betra …
Helga er mikil útivistar- og ævintýrakona og veit fátt betra en að stunda útivist og ferðast.

„Ég hafði alltaf mjög gaman að því ferðast um landið með fjölskyldunni sem barn og naut þess að vera úti. Það var samt ekki fyrr en ég kynntist fjallgöngum að ég fann íþrótt sem hentaði mér. Síðan þá hef ég ekki stoppað og elska í raun alla hreyfingu sem byrjar á fjalla-, en ég hef verið virk í útivist og hef ferðast mikið hérlendis sem og erlendis síðastliðin 20 ár,“ segir Helga. 

„Ég get ekki ímyndað mér lífið án þess að stunda útivist og ferðalög, það gefur mér svo mikla gleði og lífsfyllingu að upplifa eitthvað nýtt. Ég er ekki keppnismanneskja og geri þetta bara af því mér finnst þetta svo skemmtilegt – ég lít í raun bara á mig sem minningasafnara!“ bætir hún við. 

Það tók hópinn sjö daga að þvera jökulinn.
Það tók hópinn sjö daga að þvera jökulinn.

Lentu í stormi uppi á Grímsfjalli

Helga er nýkomin heim úr mikilli ævintýraferð á vegum Útihreyfingar undir leiðsögn hennar og samstarfskonu hennar, Brynhildar Ólafsdóttur. „Í ferðinni með okkur voru ellefu konur á öllum aldri sem allar eru orðnar mjög vanar því að ferðast á skíðum. Flestar þeirra skráðu sig í ferðina síðasta haust og hafa lært og æft hjá okkur fyrir þessa ferð í vetur, meðal annars með því að fara á námskeið og í nokkrar styttri gönguskíðaferðir með okkur,“ útskýrir Helga. 

„Við vorum í sjö daga á ferðinni, þar af voru sex skíðadagar og einn hvíldardagur í skála vegna veðurs. Við náðum að komast í skála sem er uppi á Grímsfjalli í ríflega 1.700 metra hæð, rétt áður en stormur skall á og biðum hann af okkur þar í góðu yfirlæti. Á Grímsfjalli er meðal annars gufubað enda er virka eldstöðin Grímsvötn þarna í næsta nágrenni!“ bætir hún við. 

Það fór vel um hópinn í skálanum á Grímsfjalli!
Það fór vel um hópinn í skálanum á Grímsfjalli!

Heildarvegalengd ferðarinnar var 128 kílómetrar og hækkunin 1.600 metrar. Til að ferja búnaðinn sem þurfti í ferðina voru púlkur eða sleðar notaðir sem leiðangurskonurnar drógu á eftir sér, en hver sleði vó um 35 kíló.

„Við vorum að ganga að meðaltali 20 kílómetra á dag, suma daga styttra vegna veðurs og mikillar hækkunar og aðra daga lengra. Til dæmis gengum við einn daginn ellefu kílómetra og tókum 600 metra hækkun en næsta dag fórum við 26 kílómetra með 350 metra hækkun,“ segir Helga. 

Hver sleði vó um 35 kíló.
Hver sleði vó um 35 kíló.

„Það þarf líka að undirbúa sig andlega“

Aðspurð segir Helga ferðir sem þessa krefjast mikils undirbúnings, skipulags og æfinga og því sé gott að vera búin að skrá sig með löngum fyrirvara. „Það þarf að æfa þol og styrk en það þarf líka að undirbúa sig andlega. Svo þarf að æfa pökkun og tjöldun, tjaldfélagar þurfa að æfa sig saman og skipuleggja tjaldbúðarlífið. Við fórum einnig í óveðursútilegu í nágrenni Reykjavíkur í vetur til þess að æfa hópana í því að tjalda saman í vindi – það þarf ekki mörg röng handtök til þess að tjaldið fjúki út í veður og vind,“ segir Helga. 

Hópurinn þurfti að æfa sig heilmikið áður en lagt var …
Hópurinn þurfti að æfa sig heilmikið áður en lagt var af stað yfir jökulinn.

Hvaða búnað var nauðsynlegt að vera með í ferðinni?

„Það er svo margt sem er nauðsynlegt! Góð sólgleraugu, sólarvörn, hlý úlpa, gott og orkumikið nesti, vind- og vatnshelt tjald, hlýr svefnpoki, góðir skíðaskór og nýsmurð skíði. Gæti lengi haldið áfram að telja!

Það var yfir meðallagi hlýtt hjá okkur í ár og því var hlýjasta úlpan óþarfi núna, en ég myndi aldrei fara af stað án hennar! Annað vandamál sem við þurfum að eiga við vegna hita var að snjórinn límdist suma dagana við skíðin og því hefði ég viljað hafa með mér áburð til að koma í veg fyrir slíkt.“

Góð húfa var ekki einungis nauðsynleg yfir daginn heldur líka …
Góð húfa var ekki einungis nauðsynleg yfir daginn heldur líka á nóttunni.

Hvernig var að tjalda upp á jöklinum?

„Fyrsta nóttin var mjög köld og fór hitastigið niður fyrir -12 gráður. Þá er nauðsynlegt að vera með gott tjald, hlýjan svefnpoka og góða dýnu sem skilur okkur frá köldum snjónum sem við liggjum á. Einnig er mjög mikilvægt að rakinn sem við öndum frá okkur komist út úr tjaldinu og því þurfa svokölluð loftunarop að vera opin. Ein manneskja andar frá sér um einum lítra af raka yfir nóttina og ef sá raki kemst ekki út þá frýs hann innan á tjaldinu og á svefnpokanum og það viljum við alls ekki. Einnig er mikilvægt að sofa með húfu þar sem við töpum miklum hita frá höfðinu.“

Fyrsta nóttin á jöklinum var köld að sögn Helgu.
Fyrsta nóttin á jöklinum var köld að sögn Helgu.

Var eitthvað sem kom þér á óvart í ferðinni?

„Hópurinn okkar – með seiglunni sinni og góða skapinu alla dagana, að sjá hvað manneskjan getur gert ef hún ákveður að gera það. Hugrekki er nefnilega val. Svo kom á óvart hvað það var mikið fuglalíf á jöklinum, það leið varla sá dagur að við sáum ekki fugla. Það flugu meðal annars yfir okkur nokkrir gæsahópar, einn lóuþræll var þarna á flækingi og í storminum elti okkur hópur af sólskríkjum.“

Hópurinn skemmti sér konunglega í ferðinni.
Hópurinn skemmti sér konunglega í ferðinni.

Brenna 3.000 til 4.000 kaloríum á dag

Helga segir líkamann hafa verið í góðu standi alla ferðina enda er hún vön að vera á mikilli hreyfingu og líður í raun best á ferðinni. „Ég drakk mikið af Unbroken til að aðstoða líkamann við að gera við sig bæði á meðan ég var á ferðinni og einnig yfir nóttina, enda vaknaði ég alltaf hress og til í að byrja að skíða.

Einnig passaði ég vel upp á að borða nóg af næringarríkum mat, fékk mér prótein hafgraut með próteini alla morgna, en í grautnum voru hafrar vanillu prótein frá Tropic, hnetur og döðlur, og þurrmat frá LYO á kvöldin,“ segir hún. 

„Yfir daginn borðaði ég hitt og þetta, til dæmis mikið af lifrapylsu, smjöri og þurrkuðum ávöxtum. Það er alveg magnað hvað okkur fer að langa í orkumikinn mat og lítið í sykur í svona ferðum, enda erum við að brenna um 3.000 til 4.000 kaloríum á dag og maginn færi á hvolf ef við ætluðum að borða það allt í formi sykurs,“ bætir Helga við. 

Það þarf að passa vel upp á næringu í ferðum …
Það þarf að passa vel upp á næringu í ferðum eins og þessari.

Hvað var mest krefjandi í ferðinni?

„Það er auðvitað krefjandi að draga 35 kílóa púlku upp brekkur og troða snjó á sama tíma. Þurfa svo í lok dags að tjalda, ganga frá dóti og elda kvöldmat með kalda fingur!

En það var líka skemmtilegt á sinn hátt. Í raun var ekkert sérstaklega krefjandi né leiðinlegt við ferðina – bara mis skemmtilegt.“

Helga segir ekkert hafa verið sérstaklega krefjandi eða leiðinlegt í …
Helga segir ekkert hafa verið sérstaklega krefjandi eða leiðinlegt í ferðinni.

En skemmtilegast?

„Ferðafélagarnir voru skemmtilegastir, það er alltaf svo skemmtileg orka í fólki í útivist og það var mikið hlegið! Einnig finnst mér mjög skemmtilegt að skíða langa daga yfir hvíta eyðimörk og leyfa huganum að hvílast. Það er mikil núvitund falin í því að hafa bara eitt markmið yfir daginn og vera ein með sjálfri sér og púlkunni á skíðum.“

Það var mikið fjör í ferðinni eins og sést!
Það var mikið fjör í ferðinni eins og sést!

Ertu með einhver ferðalög plönuð í sumar?

„Já það er nóg framundan bæði hjá mér og hjá Útihreyfingunni. Næsta ferð sem ég leiðsegi er þverun Langjökuls en það er dásamleg ferð sem ég hef farið nokkrum sinnum. Þá þverum við Langjökul á einni nóttu og horfum á sólina setjast fyrir aftan okkur á sama tíma og hún rís fyrir framan okkur. Einnig mun ég leiðseigja snargönguferð um Öskjuveg í Ódáðahrauni í sumar, en snarganga er orð sem við notum yfir ferðir þar sem við göngum hratt yfir með tiltölulega létta bakpoka. Svo er ég með bæði hlaupaferð og gönguferð um hina dásamlegu Dólómíta á Ítalíu í haust. Í frítímanum mínum mun ég svo ferðast um landið með fjallahjólið og hlaupaskóna.“

Það er margt spennandi framundan hjá Helgu í sumar!
Það er margt spennandi framundan hjá Helgu í sumar!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert