Töfrar fram ótrúlegustu flíkur með prjónum og garni

Hér sést Ásdís klædd Simone-prjónakápu en uppskriftina að henni er …
Hér sést Ásdís klædd Simone-prjónakápu en uppskriftina að henni er að finna á blaðsíðu 83 í bókinni. Samsett mynd

Ásdís Loftsdóttir er sannkallaður snillingur með prjónana og getur töfrað fram ótrúlegustu flíkur með prjónum og garni. Hún gaf nýverið út sína fyrstu prjónabók, titluð Hughrif, sem inniheldur ríflega 30 prjónauppskriftir sem henta byrjendum sem og reynsluboltum í prjónaskap.

Ásdís er menntaður fatahönnuður, hannar undir merkinu Blacksand, og á að baki langan starfsaldur í faginu. Hún er í dag búsett í sænsku borginni Uppsala, nálægt einni dóttur sinni og fjölskyldu hennar, og er alltaf með eitthvað skemmtilegt á prjónunum.

„Ég flutti frá Íslandi haustið 2020 og flaug rakleitt inn í kórónuveirufaraldinn. Ég var orðin astmasjúklingur og vissi bara að hlýrra landslag myndi gera mér gott,“ útskýrir Ásdís sem lét gamlan draum rætast þegar hún fluttist búferlum til Suður-Frakklands og kom sér upp heimili í aldagömlum bæ sem ber heitið Pézenas. Þar bjó hún í þrjú ár. 

„Ég prjóna aldrei annað en það sem ég hanna sjálf“

Síðastliðinn vetur ákvað Ásdís að flytja til Uppsala í Svíþjóð þar sem hún vildi vera nær börnum sínum og barnabörnum.

Hvernig lýsir þú borginni?

„Uppsala er háskólabær og takturinn þar er alþjóðlegur. Maður heyrir fjölda tungumála allt um kring. Miðbærinn og elsti hluti borgarinnar er mjög fallegur, ég elska að skoða og lesa um allt sem áður var. Restin af Uppsala er ekki mikið fyrir augað, blokkir og aftur blokkir. 

Mikið er lagt upp úr því að fólk geti hjólað og almenningssamgöngur eru til fyrirmyndar. Það tekur mig eina klukkustund að ferðast til Stokkhólms með lest og þar er endalaust hægt að skoða sig um.“

Það er mikil haustfegurð í Uppsala.
Það er mikil haustfegurð í Uppsala. Ljósmynd/Ayadi Ghaith

Hvernig er draumadagurinn þinn í borginni?

„Draumadagar eru nú flestir dagar þar sem ég get vaknað í rólegheitum og látið mér líða vel. Ég er og hef alltaf verið fréttasjúk svo á meðan ég nýt tesopans og meðlætis þá fletti ég helstu fréttasíðum og tek stöðuna á heimsmálunum. 

Ég ræð tíma mínum sjálf en flesta morgna sest ég við prjónapælingar, elska að hafa margt á prjónunum, bókstaflega! Ég prjóna aldrei annað en það sem ég hanna sjálf og þó ég sé búin að vera prjónandi í áratugi er alltaf eitthvað sem ég á eftir að prufa, skoða og endurgera eða finna upp á. Svo nýt ég þess að fara út að labba og uppgötva ný umhverfi.

Þá daga sem ég hitti barnabörnin eru bestir og eftir dagsstund með þeim fjörkálfum þá er tilvalið að horfa á einhverja „whodunit“ ráðgátu helst breska, með prjónana auðvitað.“

Áttu þér uppáhaldsstað í borginni til að setjast niður og prjóna?

„Veitingastaðurinn Joy’s Foodbar í miðbæ Uppsala heldur prjónakvöld einu sinni í viku, ég kíki stundum. Þar er hægt að panta gómsætt sesar-salat og prjóna í góðum félagsskap.

Ég hef samt komist að því að það er hvergi eins mikill áhugi á prjóni eins og á Íslandi. Það kom mér mjög á óvart að uppgötva að hér finnst ekki mikið af sænsku garni, það eru nokkrir litlir framleiðendur en ekkert í líkingu við stóra framleiðendur eins og á hinum Norðurlöndunum.”

Lærði að prjóna sex ára gömul

Ásdís hefur verið prjónandi frá barnæsku og lærði réttu handtökin hjá móður sinni.

„Ég lærði að prjóna hjá mömmu minni um sex ára aldurinn og síðan þá hef ég alltaf getað haft eitthvað fyrir stafni því þegar band og prjónar koma saman gerast ævintýri.”

Ásdís er alltaf að hanna eitthvað sniðugt.
Ásdís er alltaf að hanna eitthvað sniðugt. Ljósmynd/Aðsend

Hvað heillar þig við prjónaskapinn?

„Að sjá hugmynd verða að veruleika verður aldrei gamalt eða þreytt. Þó svo ég hafi starfað við fatahönnun leynt eða óljóst frá unglingsaldri þá er prjónið alltaf efst í huga því þar eru möguleikarnir óendanlegir og hver elskar það ekki?”

Uppskrift af þessari fallegu peysu má finna í bókinni.
Uppskrift af þessari fallegu peysu má finna í bókinni. Ljósmynd/Arnu Petra Sverrisdóttir

Það tók Ásdísi tvö ár að vinna bókina.

Hvaðan kemur titilinn?

„Titill bókarinnar vísar í það ástand að verða fyrir hughrifum og sýnir bókin uppruna og kveikju hugmynda sem urðu að prjónaðri flík.“

Hvað er fram undan?

„Ég verð með netnámskeið sem ég kalla Hannað með Ásdísi þann 30. október næstkomandi. Þar kenni ég hvernig fatahönnuður ber sig að við hönnun á prjónaflík frá hugmynd að uppskrift og tilbúinni flík. Einnig er von á nýjum vörum frá mér í vefverslun Blacksand og ég er þegar ákveðin í að gera aðra bók og er á fullu að hanna fyrir það verkefni.

Hughrif er glæsileg bók fyrir byrjendur sem og lengra komna …
Hughrif er glæsileg bók fyrir byrjendur sem og lengra komna í prjóni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert