„Maður fékk bara hroll við að horfa yfir“

Heba Fjalarsdóttir fær ekki nóg af því að ferðast.
Heba Fjalarsdóttir fær ekki nóg af því að ferðast. Samsett mynd

Heba Fjalarsdóttir, markaðsstjóri flugfélagsins Play, hefur verið haldin ævintýraþrá frá því að hún man eftir sér. Hún elskar að skoða heiminn og auka þekkingu sína á öðrum menningarheimum. Heba ætlar að eyða jólunum í New York ásamt sambýlismanni sínum, Birgi Haraldssyni, og ætlar svo að byrja nýja árið á skíðum í Madonna á Ítalíu.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Heba komið víða við í íslensku viðskiptalífi, enda sprenglærð og drifin. Hún er með BSc-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í Brand and Communications Management frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn.

Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum?

„Já, það er óhætt að segja það. Alveg frá því að ég var ung höfum við fjölskyldan ferðast mikið, mest innan Evrópu en einnig til meira framandi landa. Þá bjó ég á Möltu í tvö ár sem barn vegna vinnu föður míns. Ég fór í heimsreisu með vinkonu minni þegar ég var tvítug þar sem við ferðuðumst um Suðaustur-Asíu og Ástralíu. Svo fór ég í skiptinám í meistaranáminu til Kína og fékk þá tækifæri til að ferðast mikið um Austur-Asíu. Þannig má segja að áhugi minn á ferðalögum hafi kviknað mjög snemma og eftir að ég varð sjálfráða snýst alltaf allt um næstu utanlandsferð.“

Heba heimsótti Kínamúrinn.
Heba heimsótti Kínamúrinn. Ljósmynd/Aðsend

Hvert er eft­ir­minni­leg­asta ferðalagið þitt?

„Indland er klárlega eftirminnilegasta ferðalagið með fjölskyldunni. Menningin og allt við Indland þótti mér áhugavert og allt öðruvísi en það sem ég þekkti heiman frá Íslandi. Í seinni tíð ferðast ég mjög mikið með sambýlismanni mínum og þá er ferðalag okkar til Hydra á Grikklandi mér minnistæðast. Hydra er lítil eyja nálægt Aþenu sem er þekkt fyrir að vera einstaklega falleg og sjarmerandi. Það eru engir bílar á eyjunni og asnar eru helsti ferðamátinn fyrir vöruflutninga t.d. Það er alveg magnað að vera á Hydra og ég get hreinlega ekki mælt meira með því.“

Asnar eru aðal ferðamátinn á Hydra.
Asnar eru aðal ferðamátinn á Hydra. Ljósmynd/Aðsend

Hver er eft­ir­minni­leg­asta ferðam­inn­ing­in?

„Þegar ég var að ferðast í Asíu eftir skiptinámið fór ég að landamærum Suður- og Norður-Kóreu. Það var alveg súrrealískt að sjá gaddavírinn sem skilur löndin að, hermennina á vakt og skilaboðin sem fólk hefur hengt á grindverkin með kveðjum til fjölskyldunnar hinum megin við. Það var svo mikil þögn og maður fékk bara hroll við að horfa yfir til Norður-Kóreu.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Mig dreymir mest um að fara til Cape Town í Suður-Afríku. En ég er líka með ansi marga staði á óskalistanum fyrir næsta sumar, eins og Split í Króatíu og sigla þar á milli eyja, Madeira í Portúgal, sem er líka kallað Havaí Evrópu, og svo langar mig mikið að fara til Marrakesh í Marokkó.“

Hvað legg­ur þú áherslu á á ferðalög­um?

„Ódýrt flug, góðan mat og gott veður.“

Heba er á leið í julefrokost-ferð til Kaupmannahafnar á næstu …
Heba er á leið í julefrokost-ferð til Kaupmannahafnar á næstu dögum. Ljósmynd/Aðsend

Hver er upp­á­halds­borg­in þín í Evr­ópu?

„Uppáhaldsborgin mín í Evrópu er Lissabon. Hún er höfuðborg Portúgals og þar er alltaf gott að vera. Borgin er stórfenglega falleg og þar eru fullt af ungum listamönnum sem flykkjast til borgarinnar, svo falleg list er alls staðar. Maturinn í Lissabon er geggjaður og það er líka mjög ódýrt miðað við aðrar borgir í Evrópu, auk þess sem veðrið er gott mestan hluta ársins. Ég fór þangað í síðasta mánuði og keyrði í lítinn strandbæ rétt fyrir utan sem heitir Comporta og var fullkomin staður fyrir haustferð.“

Það ríkir mikil kyrrð á Comporta.
Það ríkir mikil kyrrð á Comporta. Ljósmynd/Aðsend

En fyr­ir utan Evr­ópu?

„New York er alltaf í miklu uppáhaldi. Ég kynntist sambýlismanni mínum þar og eins og allir sem hafa komið þangað vita þá iðar borgin af lífi.“

Hef­ur þú heim­sótt eitt­hvað af sjö undr­um ver­ald­ar?

„Já, ég hef farið á Kínamúrinn, Taj Mahal og Hringleikahúsið.“

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi erlendis?

„Ég fékk einu sinni veirusýkingu í Hong Kong og lenti á spítala. Annars nei…“

Er einhver staður í heiminum sem þú vilt ekki heimsækja?

„Nei, ég er alltaf til í að heimsækja nýja staði og finnst skemmtilegast að upplifa nýja menningarheima.“

Heba og Birgir eru mikið útivistarfólk og njóta sín á …
Heba og Birgir eru mikið útivistarfólk og njóta sín á skíðum. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Þarna kemurðu inná mitt sérsvið. Númer eitt, tvö og þrjú er að bóka gott sæti. Ég reyni alltaf að bóka mér sæti framarlega í vélinni því oft kostar það ekki of mikið og forðar manni frá hættunni á því að sitja aftast í vélinni, kannski á milli tveggja ókunnugra. Ég vil líka alltaf sitja við ganginn, sérstaklega ef ég ferðast ein því það er þreytandi að þurfa að biðja annað fólk um að standa upp þegar maður þarf á klósettið. Ég fer líka ekki í flug án þess að hafa með mér svefngrímuna mína, góðan varasalva, handáburð, augndropa, og hálspúða – bara svona ef ske kynni að maður þurfi að nota þessa hluti. Svo er ég alltaf með hlaðin heyrnatól (e. air pods) og síma og góða bók. Allra mikilvægasta er að hafa góða peysu eða trefil með í flugi, því það verður oft kalt.

Getur þú sofið í flugvél?

„Já svo sannarlega, sérstaklega ef ég er með höfuðpúðann góða og svefngrímuna.“

Hefur þig alltaf langað að starfa innan ferðageirans?

„Nei ekki beint, en það hefur þó alltaf blundað í mér enda elska ég ferðalög. Þegar ég fékk starf hjá PLAY fattaði ég um leið hvað þetta hentaði mér vel. Ég elska að markaðssetja áfangastaði félagsins því ég hef svo mikinn áhuga á ferðalögum og þá í raun vörunni sem ég er að selja.“

Heba elskar að heimsækja New York og ætlar að eyða …
Heba elskar að heimsækja New York og ætlar að eyða jólunum í borginni ásamt sambýlismanni sínum. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig verður jólavertíðin hjá Play, eitthvað spennandi fram undan?

„Við erum alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og nú fer jólasalan alveg á fullt fyrir jólaferðirnar. Það er alltaf svolítið gaman að selja gjafabréf í kringum jólin enda þægilegasta gjöfin til að gefa og besta gjöfin að fá.“

Ertu komin í jólagírinn?

„Jájá, ég er amk byrjuð að finna til seríuna og kertin.“

Ætlar þú að halda jólin á Íslandi eða erlendis?

„Ég held jólin í New York með Birgi manninum mínum. New York er alveg geggjuð yfir jólin og ég get ekki beðið eftir að eyða jólunum þar. Uppáhalds jólin mín voru þegar ég var síðast í New York yfir jól svo ég er mjög spennt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert