Gunnhildur greiddi 735.000 krónur fyrir draumaferðina

Gunnhildur Lind Hansdóttir fór til Kosta Ríka í janúar og …
Gunnhildur Lind Hansdóttir fór til Kosta Ríka í janúar og segir það hafa verið mikla upplifun. Samsett mynd

Gunnhildur Lind Hansdóttir er 34 ára sjálfstætt starfandi ljósmyndari. Hún er mikil ævintýrakona og nýtur þess að ferðast innan lands sem utan. Hún ferðast oft ein og fór í janúar á þessu ári í slíka ferð til Kosta Ríka, þar sem hún fór í brimbrettabúðir.

„Ég er ekki eins dugleg að ferðast eins og ég hefði viljað. Mest hef ég farið til Spánar sem krakki með fjölskyldunni. Svo bjó ég í fimm ár í Bandaríkjunum þegar ég var í námi þar frá 2011-2016. Á þeim tíma nýtti ég tækifærið til að ferðast innan Bandaríkjanna og fór t.d. til Flórída, Texas, Arisona, Kaliforníu, Mississippi, Kansas og Nevada og til stórborgarinnar New York. Einnig hef ég ferðast aðeins um Evrópu og núna síðast fór ég til Kosta Ríka í Mið- Ameríku.“

Hvernig kom það til að þú fórst í ferðina til Kosta Ríka?

„Að fara til Mið-Ameríku hefur verið draumur frá því ég var í grunnskóla. Ég hef alltaf verið heilluð af matnum, tónlistinni og dansmenningunni. Auk þess hefur mig alla tíð langað til að læra spænsku sem þriðja mál og ég er að vinna í því hægt og rólega í gegnum Duolingo appið. Í háskólanáminu í Bandaríkjunum gerði ég lokaverkefni í spænsku um Kosta Ríka og var það líklega stór ástæða fyrir því að landið varð fyrir valinu,“ segir Gunnhildur. 

Hér er Gunnhildur að skemmta sér á ströndinni.
Hér er Gunnhildur að skemmta sér á ströndinni. Ljósmynd/Aðsend


Hún nefnir aðra ástæðu fyrir því að Kosta Ríka varð fyrir valinu. 

„Önnur ástæða er sú að ég hafði kynnst stelpu frá Sviss í brimbrettabúðum í Portúgal vorið 2019 sem var býr núna með fjölskyldu sinni í strandbænum Santa Teresa í Kosta Ríka. Við urðum góðar vinkonur þarna í Portúgal, báðar að ferðast einar, og héldum sambandi eftir dvölina þar. Það var því heillandi að ferðast til Kosta Ríka og þekkja eina búsetta þar. Janúar og febrúarmánuður er góður tímapunktur fyrir mig að fara í „sumarfrí“ frá minni vinnu svo þessi ferð var sumarfrísferð.“

Ævintýrin voru á hverju strái.
Ævintýrin voru á hverju strái. Ljósmynd/Aðsend

Hvað kostar slík ferð?

„Ég bókaði stóran hluta af ferðinni í gegnum Kilroy og óskaði sérstaklega eftir því að fara í LaPoint brimbrettabúðirnar sem ég vissi af í Santa Teresa. Þetta eru sömu búðir og ég heimsótti í Portúgal.“

Playa de Carmen strönd í smábænum Santa Teresa í Kosta …
Playa de Carmen strönd í smábænum Santa Teresa í Kosta Ríka. Ljósmynd/Aðsend

Átta daga brimbrettabúðir

„Hlutinn sem ég greiddi til Kilroy var 735.000 krónur og innifalið í því verði var allt flug ásamt gistingu í New York þar sem ég þurfti að millilenda bæði á leiðinni út og heim. Á leiðinni út fékk ég tvo heila daga til að skoða mig um þar áður en ég flaug svo til San José, höfuðborgar Kosta Ríka. Einnig var innifalið í þessu verði að fara í fimm daga road-trip ferðalag en þar gerðum við fullt af skemmtilegum hlutum eins og að fara í stærsta zip-line í heimsálfunni og á kaffikynningu á alvöru kaffibýli. Loks, þá voru brimbrettabúðirnar í Santa Teresa í pakkanum frá Kilroy en þær voru átta dagar. Eitthvað af mat var innifalið bæði í road-trip ferðinni og brimbrettabúðunum. Það voru nokkrir daga hér og þar á milli prógramma, þar sem ég þurfti að bóka mér hótel og rútu sjálf og ég myndi hugsa að allt í allt hafi ferðin kostað í kringum 1,2 milljónir. Þá er ég að tala um allt flug, gistingu, skipulagðar ferðir, matur og allt sem ég keypti mér.“

Gunnhildur tengd við zip-line búnað í regnskógi.
Gunnhildur tengd við zip-line búnað í regnskógi. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var hefðbundinn dagur hjá þér í Kosta Ríka?

„Hefðbundinn dagur byrjaði á því að vakna eldsnemma til að fara á brimbretti. Það er besti tíminn því þá er ekki of heitt. Eftir að ég var búin á brimbrettinu, sem var alltaf um tvær klukkustundir í sjónum, var farið heim í sturtu, fengið sér morgunmat og kaffibolla. Það var nánast alltaf borðað úti, undir skyggni. Mér fannst það æðislegt, ég hafði útsýni út á Kyrrahafið og naut hafgolunnar með kaffibollanum. Eftir það fór ég oft í sólbað og í hádeginu hitti ég yfirleitt stelpurnar og við borðuðum saman. Eftir hádegismat fórum við kannski á röltið, eða ég hitti hina vinkonu mína sem var búsett þarna og hún fór með mig á rúntinn á fjórhjólinu sínu.“

Gunnhildur dvaldi í nokkra daga í New York á leiðinni …
Gunnhildur dvaldi í nokkra daga í New York á leiðinni út, hér er hún með Brooklyn brúna í bakgrunn. Ljósmynd/Aðsend

Safnast saman á ströndinni

„Það er algjör hefð í Kosta Ríka að fara á ströndina og horfa á sólsetrið, sem er svo ótrúlega fallegt á þessum stað. Við stelpurnar hittumst oft á ströndinni í lok dags, horfðum á sólsetrið, fórum svo og fengum okkur kvöldmat áður en farið var heim. Ég elskaði þessa rútínu, vakna snemma og fara að sofa snemma.“

Er erfitt að læra á brimbretti?

„Ég lærði fyrst á brimbretti fyrir fimm árum. Það var mjög erfitt en með endurtekningum, þolinmæði og þrjósku er þetta hægt. Ég hugsa að það hjálpi að hafa einhverskonar bakgrunn í íþróttum eða dansi til að geta beitt líkamanum sínum rétt. Ég var viss um að ég þyrfti að læra allt upp á nýtt þegar ég fór aftur í brimbrettabúðir. En það kom skemmtilega á óvart hvað mikið var vistað í vöðvaminninu og hvað ég var fljót að ná hreyfingunni.“

Bókaðir þú allt sjálf?

„Ég bókaði u.þ.b. helming af ferðinni í gegnum Kilroy. Hitt bókaði ég sjálf, en ég fékk hjálp frá vinkonu minni sem er búsett þarna ásamt því að ég Googlaði eða horfði á YouTube myndbönd frá fólki sem hafði að ferðast um svæðið.“

Hefbundinn morgunmatur, eftir að brimbrettaþjálfun morgunsins var lokið.
Hefbundinn morgunmatur, eftir að brimbrettaþjálfun morgunsins var lokið. Ljósmynd/Aðsend

Lumar þú á ferðaráðum fyrir þá sem eru að spá í að fara til Kosta Ríka?

„Ferðaþjónusta er risastór iðnaður í landinu, ekkert ósvipað og hérlendis. Það er því auðvelt að finna t.d. rútuþjónustur og þess háttar til að koma sér á milli staða. Þjónustulundin er ein sú allra besta og það situr enn í mér hvað fólk var indælt, kurteist og af öllum vilja gert til að hjálpa manni. Slagorð landsins er Pura Vida eða Hreint Líf, sem sést og finnst vel hjá Kosta Ríka búum. Þeir eru jákvæðir, brosmildir og afslappaðir, engin dramatík.“

„Annað sem mér dettur í hug er það að flest samskipti fara fram í gegnum Whatsapp forritið, þá er þægilegt að nota það til að senda skilaboð á hótel eða leigubíl. Best er að spyrja hótelin hvort þau séu með númer hjá leigubíl svo hægt sé að senda á og panta far á milli staða. Leigubílagreiðslur eru allar greiddar með pening, annað hvort bandarískum dollurum eða gjaldmiðli landsins sem er colones. Landið hefur upp á að bjóða svakalegt landslag, það er mikið um brekkur svo það er mjög gott að hafa númer hjá leigubíl.“

Gunnhildur segir heimamenn safnast saman á ströndinni og horfa á …
Gunnhildur segir heimamenn safnast saman á ströndinni og horfa á sólsetrið nánast öll kvöld. Ljósmynd/Aðsend


Hvað er á döfinni hjá þér, eru einhver ferðaplön?

„Mig dauðlangar aftur til Portúgals að skoða meira þar. Fara þá til Porto og keyra niður ströndina að Lisbon. Ég heillaðist upp úr skónum af því landi þegar ég heimsótti það í fyrsta skipti og langar mikið að skoða meira þar. Ég væri líka alveg til í að fara aftur til Kosta Ríka. Svo langar mig að fara til Mexíkó, Kúbu, Króatíu, Ítalíu, Frakklands og Tyrklands.“

Kaffibaunir af kaffibýli en mikið er um kaffiframleiðslu í landinu.
Kaffibaunir af kaffibýli en mikið er um kaffiframleiðslu í landinu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert