Sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszynski, kom ásamt eiginkonu sinni, Margherita Bacigalupo-Pokruszynska, færandi hendi í Vallaskóla á Selfossi mánudaginn 28. maí sl. Það hefur vakið hrifningu hjá sendiráðinu að Vallaskóli er einn fárra skóla hér á landi sem kennir pólsku og er kennslan í umsjón Anetu Figlarska sem einnig er ráðgjafi í kennslu tvítyngdra barna hjá skólaþjónustu Árborgar.
Helmingur allra tvítyngdra barna í leik- og grunnskólum Árborgar eru af pólskum uppruna og því er mikilvægt að geta sinnt kennslunni vel og allri þjónustu við hópinn enda er kennslan í Vallaskóla í boði fyrir alla nemendur af pólskum uppruna. Gerard og Margherita færðu hverju barni bókargjöf og Vallaskóli fékk að gjöf pólskar námsbækur. Auk nemenda sóttu foreldrar, kennarar og fulltrúar sveitarfélagsins samkomuna sem var með hátíðarblæ. Eftir athöfn í sal var boðið upp á hressingu í mötuneytinu. Til upplýsingar þá er Vallaskóli skráður á pólska gagnagrunnsíðu yfir skóla sem kenna pólsku, sjá nánar hér.