5 uppeldisráð Guðrúnar Kaldal

Jói G. og Guðrún Kaldal ásamt sonum sínum, Krumma Kaldal …
Jói G. og Guðrún Kaldal ásamt sonum sínum, Krumma Kaldal og Jóhanni Kaldal.

Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvar Tjarnarinnar hefur unnið í uppeldisumhverfi barna og unglinga í yfir 25 ár. Hún gefur hér lesendum mbl.is fimm uppeldisráð. Guðrún er meðal annars menntuð íþróttakennari og stjórnsýslufræðingur, sýndi og kenndi dans í áraraðir ásamt því að þjálfa og dæma fimleika.

Eitt af helstu hlutverkum Guðrúnar í sinni vinnu er forvarnastarf og er hún því vel meðvituð um helstu verndandi þætti í æsku barna. Í vinnu sinni í frístundamiðstöðinni vinnur hún náið með sérfræðingum hjá rannsóknarmiðstöðinni Rannsóknir og greining sem sérhæfir sig í rannsóknum á högum og líðan barna og unglinga. Þeir hafa sett fram hið íslenska módel sem aðrar þjóðir líta mikið til varðandi forvarnir. Mikinn árangur í forvarnamálum á Íslandi má þakka samfélagsbreytingu sem hófst fyrir um það bil 20 árum þegar markvisst var farið að nota niðurstöður rannsókna í markmiðasetningu varðandi forvarnir. Helstu þættir sem eru verndandi fyrir börn og unglinga eru að foreldar verji með þeim tíma, að foreldar viti hvar börnin þeirra eru, þekki foreldra vina barna sinna, að börn stundi skipulagðar tómstundi og upplifi stuðning frá foreldum.

Guðrún er gift leikaranum Jóa G. og á með honum synina Jóhann Kaldal 19 ára og Krumma Kaldal 15 ára.

Fyrir utan það að elska börnin sín skilyrðislaust og knúsa þau mikið þá hafa Guðrún og Jói haft þessi ráð til hliðsjónar við uppeldi á sínum drengjum.

1. Samvera

Samvera er eitt allra mikilvægasta uppeldisráðið sem ég get gefið. Foreldar eiga að tala mikið við börnin um margs konar hluti strax frá fæðingu og halda því áfram alla tíð. Það skiptir máli að eiga sameiginlegar upplifanir til dæmis ferðast saman og fylgja börnunum eftir í áhugamálum þeirra. Það ætti heldur ekki að vanmeta það að vera bara heima í kósý á náttfötunum og gera ekkert en það getur verið jafn mikilvægt og að fara saman í sund eða í göngutúr. Sterk tengsl við stórfjölskylduna eru einnig dýrmæt og það er einnig gott að vera dugleg að fara í heimsókn til ömmu og afa eða eldri vina og ættingja sem muna tímanna tvenna. Við erum heppin að eiga frábærar fjölskyldur og reynum að verja miklum tíma með þeim.

Þegar foreldar sýna áhuga og eru til staðar veitir það börnum öryggistilfinningu og þau læra að treysta. Það er líka mikilvægt að þekkja foreldra vina barna sinna. Við erum svo heppin að eiga mjög góða og trausta vini á Seltjarnarnesi í gegnum strákana okkar og með þeim höfum við farið í fjöldamörg ferðalög.

Þegar börnin verði unglingar er jafn mikilvægt að verja tíma með þeim og vera til staðar fyrir þau og þegar þau eru lítil.

2. Sterk og jákvæð sjálfsmynd, góð félagsfærni og færni í sjálfsstjórn

Að hjálpa börnunum að efla sjálfsmynd sína, kenna þeim að þekkja tilfinningar sínar og annarra og geti sett sig í spor annarra er mikilvægur þáttur í uppeldinu. Það skiptir máli að setja börnum strax skýr mörk og hjálpa þeim við að læra að stjórna tilfinningum sínum. Það hefur sýnt sig að börnum sem hafa góða stjórn á tilfinningum sínum vegnar betur í lífinu. Til að stuðla að því er gott að kenna þeim að vera sveigjanleg í leik, hugsunum og hegðun og að skipuleggja tímann sinn vel. Börn þurfa að læra að sýna öðrum virðingu og gæsku og ekki dæma aðra. Það er gott að kenna börnum að þekkja styrkleikana sína og hjálpa þeim í að verða einn betri í því sem þau eru góð í. Foreldrar ættu að leggja áherslu á að greina styrkleika barnanna frekar en fókusera á veikleikana.

Krummi Kaldal í landsleik með U16.
Krummi Kaldal í landsleik með U16.

3. Þátttaka í skipulögðu tómstundastarfi

Það er mjög mikilvægt að aðstoða börnin við að finna tómstundastarf sem þau hafa gaman af. Það þarf að styðja börnin og veita þeim aðhald fyrstu árin svo þetta er óneitanlega vinna fyrir foreldrana fyrst um sinn. Forvarnagildi þess að stunda skipulagðar tómstundir er hins vegar margsannað og það er því mikið undir að aðstoða barn við að finna rétta tómstund þar sem það nær að blómstra.

Við styðjum strákana okkar í íþróttaiðkun þeirra, en þeir eru báðir miklir íþróttamenn. Þeir hafa æft alls kyns íþróttir frá því að þeir voru stubbar og eru enn á fullu í fótbolta og handbolta. Við vitum hvað það hefur mikið forvarnagildi að stunda íþróttir og hvað það undirbýr börn vel fyrir lífið sjálft. Í íþróttum er tekist á við mótlæti og sigra og þar á sér stað mjög mikill lærdómur í félagsfærni því að í hópíþróttum þarf að læra að standa saman og taka tillit til annarra. Þegar börn vinna í liðsheild styrkir það mjög tilfinningagreind þeirra. Við hjónin höfum bæði verið mjög virk í sjálfboðaliðastarfi hverfisíþróttafélagsins, Gróttu, vorum alltaf liðsstjórar þegar þeir fóru á mót og fylgjum þeim enn vel eftir þótt þeir séu orðnir stálpaðir.

4. Heilbrigður lífsstíll og góðar fyrirmyndir

Foreldrar eru helsta fyrirmynd barna sinna. Þau fylgjast með öllu sem við gerum og taka það inn, bæði það góða og það slæma. Það er mikilvægt að vera meðvitaður um það og senda rétt skilaboð varðandi lestur, næringu, hreinlæti, áhugamál, hreyfingu, vinskap og flest annað sem gerir okkur að því sem við erum. Það er gott að kenna börnum fljótt að passa upp á þessa grundvallarhluti, útskýra til dæmis fyrir þeim mikilvægi nætursvefns og af hverju settur hefur verið útivistartíma barna, þá læra þau fljótt að passa upp á slíka hluti sjálf.

Ef foreldrar tala fallega um samfélagið, vinnustað, fjölskyldu og vini læra börnin að vera góðar manneskjur sem gefa af sér út í samfélagið og passa upp á bekkjarfélaga sem einhverra hluta vegna hafa fengið færri tækifæri í lífinu.

Það gefur börnum ótrúlega mikið að foreldrar lesi og syngi fyrir þau. Ég vil líka hvetja foreldra til að vera duglega að fara á menningarviðburði, t.d. í leikhús og á tónleika þar sem hlustað er á íslenskt mál. Að kenna börnum njóta listsköpunar og fegurðar, hvort sem það er út í náttúrunni eða á söfnum, er einnig lærdómur sem fylgir þeim inn í fullorðinsárin

5. Gleði, húmor, von og seigla

Að hafa gaman og taka sig ekki of alvarlega með börnunum sínum finnst mér skipta mjög miklu máli. Hlæja og fíflast, grína og glensa. Við erum nú svo heppin að maðurinn minn og pabbi strákanna minna, hann Jói G., er alveg sérlega skemmtilegur maður og getur glatt okkur hin í fjölskyldunni mikið.

Að kenna börnum að vera þakklát fyrir það sem þau hafa og við foreldrarnir að vera þakklát fyrir að eiga þessi yndislegu börn því það er sannarlega ekki öllum gefið að eignast börn.

Svo er það vonin og bjartsýnin. Að halda í vonina og kenna börnum að líta á björtu hliðarnar. Seigla er hæfniþáttur sem mikilvægt er að þjálfa upp hjá börnum, að gefast ekki upp strax þó að á móti blási, takast á við áskoranir og ná að yfirstíga þær veitir hamingju. Lífið er ekki auðvelt, það er eðlilegt að mistakast en þá er svo mikilvægt að læra af því í stað þess að gefast upp.

Fjölskyldan bregður á leik í myndatöku.
Fjölskyldan bregður á leik í myndatöku. Ljósmynd/Jónatan Grétarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda