Ákvað í ágúst hvert þemað í 3 ára afmælinu ætti að vera

Hrönn Bjarnadóttir er tveggja barna móðir í fæðingarorlofi. Á dögunum varð eldri dóttir hennar þriggja ára og hélt Hrönn, sem er afar sniðug þegar kemur að afmælisveislum, dásamlega afmælisveislu með regnbogaþema. Í október varð hún tveggja barna móðir þegar sonurinn fæddist. Hrönn hefur áður komið við sögu á mbl.is en árið 2018 sagði hún frá því að hún hefði verið búin að skipuleggja eins árs afmæli dóttur sinnar áður en hún fæddist. 

Hrönn Bjarnadóttir er hér með Emblu þegar hún var nýfædd.
Hrönn Bjarnadóttir er hér með Emblu þegar hún var nýfædd.

„Embla dóttir mín varð stóra systir þegar litli bróðir kom í heiminn í október. Hann kom að vísu 7 vikum fyrir tímann svo við byrjuðum á því að vera á Vökudeildinni í 10 daga áður en við fengum að koma heim en hann var ótrúlega kraftmikill og duglegur þrátt fyrir að vera lítill og smár og það hefur gengið rosalega vel með hann,“ segir Hrönn. 

Oft er sagt að eitt barn sé eins og ekki neitt en tvö sem tíu. Finnur þú fyrir þessu?

„Já ég held ég verði að vera svolítið sammála þessu. Maður áttar sig ekki á því hvað maður hefur það gott með fyrsta barn,“ segir hún og hlær. 

„Ég bjóst alveg við því að það væri meiri vinna að vera með tvö börn heldur en eitt og taldi mig vera vel undirbúna undir það en ég verð að viðurkenna að þetta er aðeins erfiðara en ég bjóst við. Auðvitað eru þetta gríðarlega miklar breytingar fyrir litla manneskju að eignast systkini og þurfa allt í einu að deila athyglinni og því ósköp eðlilegt að við foreldrarnir fáum aðeins að finna fyrir því. Sem betur fer er Embla alveg ofsalega góð við litla bróður og vill stöðugt vera að leika við hann og knúsa hann. Það er líka ákveðið vandamál að finna þennan gullna meðalveg þar sem maður vill auðvitað leyfa henni að taka þátt og vera með í öllu en á sama tíma passa að litla krílið verði ekki fyrir hnjaski frá stórri systur sem gerir lítinn greinamun á litla bróður og Babyborn dúkku. Það þekkja svo eflaust allar mömmur þetta samviskubit sem gerir vart við sig þegar maður upplifir það að geta allt í einu ekki sinnt eldra barninu nógu vel þegar það þarf á manni að halda og maður er til dæmis að gefa brjóst og kemst ekki frá. Mér er þó sagt af reynslumeiri mæðrum að það komist ákveðið jafnvægi á þetta ástand eftir svona 6 mánuði svo við erum nú þegar komin hálfa leið,“ segir Hrönn. 

Hvernig er að vera í fæðingarorlofi?

„Mér finnst yndislegt að vera í fæðingarorlofi og hafa allan daginn til að hugsa um litla krílið mitt. Ég er þó þannig týpa að ég verð helst alltaf að hafa meira en nóg að gera svo ég er dugleg að finna mér einhver hliðarverkefni eins og þetta 3ja ára afmæli. Við erum núna að stefna á skírn í febrúar svo það verður nóg að gera og græja þá líka. Flest mín hliðarverkefni tengjast veislum og veisluhöldum enda eitt það skemmtilegasta sem ég geri.“

Embla dóttir Hrannar varð 3 ára 10. janúar síðastliðinn og var ekkert til sparað í að gera afmælisveisluna sem skemmtilegasta. Í afmælinu var regnbogaþema og var allt skraut og veitingar með því þema. 

Hvað bauðstu gestunum upp á?

„Það var kalt kjúklingapastasalat og súrdeigsbrauð fyrir fullorðna fólkið og pylsur fyrir börnin en það er einn af uppáhalds réttum dóttur minnar sem gæti borðað pylsur í öll mál ef það væri í boði! Ég var svo með 2 stórar kökur, kökupinna, bollakökur, smákökur og ávexti á sæta borðinu.“

Hvað varstu lengi að undirbúa afmælið?

„Ég ákvað hvaða þema yrði í afmælinu í ágúst og var búin að plana skreytingar og annað að mestu þá. Ég pantaði flest allt skrautið að utan og gerði það tveimur vikum fyrir afmælið. Ég bakaði svo allar kökurnar helgina fyrir afmælið og setti í frysti til að auðvelda undirbúninginn dagana fyrir afmælið. Síðustu þrír dagarnir fyrir afmælið fóru svo í þetta að mestu, bæði að klára veitingar og föndra og setja upp skreytingar,“ segir hún.  

Er það að halda barnaafmæli eitt af því skemmtilegasta sem þú gerir?

„Það skemmtilegasta sem ég geri er klárlega að halda veislur og sérstaklega veislur með sérstöku þema sem er auðvitað tilvalið að gera í barnaafmæli. Þetta var eitt af því sem ég hlakkaði mikið til að fá að gera þegar ég var ólétt og ég var búin að skipuleggja bæði skírnina og 1. árs afmælið í þaula meðan ég var enn ólétt af Emblu! Ég er líka strax farin að hugsa um hvaða þema við getum haft á næsta ári og er nú þegar komin með nokkrar hugmyndir,“ segir hún. 

Hvað hefur móðurhlutverkið gefið þér?

„Móðurhlutverkið hefur gefið mér svo ótrúlega margt. Að fá að vera móðir eru þvílík forréttindi og ég hugsa um það daglega hvað ég er ótrúlega lánsöm að hafa fengið að upplifa þetta. Það er magnað að finna þessa ótrúlega miklu ást sem vex og vex með hverjum deginum og eykst svo bara um helming þegar þú átt allt í einu tvö börn. Þetta er klárlega besta hlutverk í heimi en á sama tíma eitt það erfiðasta og maður lærir ótrúlega mikið um sjálfan sig á því að verða móðir. Ég var með mjög sterkar skoðanir á því hvernig ég ætlaði að hafa þetta allt með mitt barn og alls ekki gera hitt og þetta en svo er þetta bara allt öðruvísi þegar á hólminn er komið og maður er fljótur að komast að því að þú hefur nákvæmlega enga stjórn á hlutunum heldur er mættur lítill einstaklingur sem stjórnar lífinu algjörlega fyrir þig.“

Þótt móðurhlutverkið sé skemmtilegt og gefandi þá verða mömmur líka þreyttar. Hvað gerir þú þegar þú ert þreytt og alveg búin á því?

„Þegar ég er þreytt og algjörlega búin á því kemur góður kaffibolli mér ansi langt. Á góðum degi næ ég að drekka hann ein og án truflana sem gerist örsjaldan þessa dagana. Það er samt ótrúlegt hvað eitt bros eða eitt knús frá litlum gullmola getur alveg þurrkað í burtu alla þreytuna. Ég allavega kemst upp með mun minni svefn núna en ég gerði áður en ég átti börn. Ef ég er með mörg verkefni sem ég þarf að klára, eins og til dæmis fyrir barnaafmæli, finnst mér best að búa til verkefnalista og skrifa niður sirka hvað hvert verkefni tekur langan tíma og raða þeim svo niður á dagana fyrir afmælið. Með þessu ertu með mun betri yfirsýn yfir hvað á eftir að gera og hvað það tekur langan tíma og eins geturðu þá raðað verkefnunum betur saman svo sem minnstur tími fari til spillis.“

Embla varð þriggja ára en litli bróðir fæddist í október.
Embla varð þriggja ára en litli bróðir fæddist í október.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert