Kvíði og þunglyndi er orðið vaxandi vandamál hjá unglingum nú til dags. Líf þeirra er um margt ólíkt foreldra þeirra. Tækniframfarir, samfélagsmiðlar, félagslegur þrýstingur – allt þetta er afar streituvaldandi fyrir ungt fólk til viðbótar við hinar hefðbundnu hormónabreytingar unglingsáranna.
Í viðtali við Times gefur Erica Komisar sálgreinir foreldrum ráð um hvernig bregðast megi við þessum krefjandi árum unglinga.
„Sem foreldrar verðum við að vera eins mikið til staðar og hægt er, líkamlega og andlega. Foreldrar gegna lykilhlutverki í andlegri heilsu barna sinna. Það virðist ríkja mikill misskilningur um hversu mikilvægir foreldrar eru á þessum árum. Auk þess sem lítill skilningur virðist vera á eðli unglingsáranna almennt. Unglingsárin byrja um níu ára aldur, miklu fyrr en almennt er talið, og enda í kringum 25 ára, mun síðar en almennt er talið,“ segir Komisar og leggur áherslu á að foreldrar séu alltaf til staðar.
„Foreldrar þurfa að vera stöðugt á varðbergi og leita að merkjum og hlúa að andlegri heilsu barnanna. Það að vera mikið til staðar er betra en að gefa bara nokkrar gæðastundir hér og þar. Börnin þurfa á þér að halda þegar þau þurfa á þér að halda en ekki þegar þú gefur þér loks tíma til þess.
Foreldrar þurfa að veita öruggt rými fyrir allar tilfinningar barnanna en ekki sigta bara út þær góðu. Foreldrar mega til dæmis ekki skamma börn fyrir að lýsa fyrir þeim hugsunum um að svipta sig lífi. Ef þeir geta ekki sagt foreldrum sínum þetta, þá hverjum?“
Komisar segir þó að til sé tegund kvíða sem er eðlileg. „Við getum greint á milli eðlilegs kvíða og alvarlegri með því að horfa á hversu lengi einkennin vara og hversu alvarleg þau eru. Það er til dæmis alveg eðlilegt að taka einn dag í að vera þungur í skapi en kvíðinn ætti ekki að vera varanlegur félagsskapur. Þá þarf að spyrja sig hvort þetta aftri þeim frá eðlilegu lífi. Er svefninn í lagi? Er enn verið að umgangast vinina?“