Brotnaði niður þegar fimmti strákurinn var sagður á leiðinni

Danielle Lloyd ásamt dóttur sinni sem hún þráði svo heitt.
Danielle Lloyd ásamt dóttur sinni sem hún þráði svo heitt. Skjáskot/Instagram

Danielle Lloyd er bresk fyrirsæta og fyrrum Ungfrú Bretland. Hún segist hafa brotnað algerlega niður þegar henni var tjáð að hún ætti von á fimmta stráknum. 

Hætti við að velja kynið

Lloyd fer ekki í neinar grafgötur með það að eftir að hafa eignast fjóra stráka þá var hún staðráðin í að eignast stelpu. Hún íhugaði meira að segja alvarlega að fara í tæknifrjóvgun svo hún gæti valið kynið. Hjónin höfðu bókað slíka aðgerð í Dúbæ en það er ólöglegt í Bretlandi að velja kyn barns nema læknisfræðilegar forsendur krefji. Þá kom heimsfaraldur og þau hættu við og ákváðu að geta barnið með náttúrulegum hætti.

Brotnaði niður

Þegar hún var svo komin sex vikur á leið fór hún í blóðprufu til þess að vita kynið á barninu. Þegar læknirinn sagði henni að hún ætti von á strák þá brast eitthvað innra með henni.

„Ég grét. Ég var í öngum mínum. Ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera við mig. Maðurinn minn hafði varað mig við að fara í svona próf,“ segir Lloyd.

„Við höfðum sagt að þetta yrði síðasta barnið okkar. En ég fór bara strax að hugsa að þetta yrði ekki síðasta barnið, við yrðum að fara í tæknifrjóvgun til þess að velja kynið!“

Lloyd vonaðist til þess að prófið væri rangt en hafði sætt sig við fréttirnar í 16 vikna sónarnum en þá kom í ljós að þetta væri stelpa.

„Ég grét alla leiðina heim. Ég trúði ekki að stelpan mín væri loksins á leiðinni.“

Snýst ekki um bleiku fötin

Lloyd segir að þetta snúist ekki um tækifærið til þess að klæða barnið í bleikt. „Sem kona þá bý ég yfir svo mikilli reynslu sem ég vil miðla til dóttur minnar. Ég var náin móður minni og ég virkilega þráði samskonar tengingu við dóttur mína. Þegar maður eignast dóttur þá er hún besta vinkona manns út lífið. Þetta er öðruvísi með stráka.“

Sögð vanþakklát

Margir hafa gagnrýnt Lloyd og sagt hana vera vanþakkláta.

„Ég er ekkert vanþakklát fyrir að vilja eignast stelpu. Ég er þakklát fyrir það sem ég á og elska strákana mína. Fjölmargir hafa sent mér skilaboð og sagst vera í sömu sporum en þora bara ekki að viðurkenna það fyrir öðrum.“

„Þegar karlmaður eignast barn þá þykir það í lagi þegar hann segist langa í son. En þegar kona kveðst vilja ákveðið kyn þá þykir það ljótt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert