Óhrædd við að viðurkenna mistök

Leikkonan Julia Roberts talar opinskátt við börnin sín þrjú um …
Leikkonan Julia Roberts talar opinskátt við börnin sín þrjú um mistök sín og erfiða daga sem fylgja móðurhlutverkinu. AFP

Leikkonan Julia Roberts segist vera opin við börnin sín þrjú um foreldrahlutverkið og viðurkennir það fúslega þegar hún gerir mistök. Roberts og eiginmaður hennar, kvikmyndatökumaðurinn Danny Moder, eiga 15 ára son og 17 ára tvíbura. 

Roberts viðurkennir að mestu áhyggjur hennar snúi oft að mistökum hennar sem móður gagnvart börnum sínum. „Stundum tekur yfir mig mikill ótti um að mistakast,“ sagði leikkonan. Fram kemur á vef People að leikkonan hafi því ákveðið að tala opinskátt um móðurhlutverkið við börnin sín og um þá daga þegar hún segist „klúðra því að vera mamma.“

Erfitt að vera fjarri fjölskyldunni

Þó leiklistin sé draumur leikkonunnar segist hún eiga annan jafn mikilvægan draum, en það sé lífið sem hún á með fjölskyldu sinni. Roberts hefur áður talað um hve erfitt það getur verið að vera fjarri fjölskyldunni við tökur, en nýlega dvaldi hún í 62 daga í Ástralíu við tökur á kvikmyndinni Ticket to Paradise. 

Roberts segir George Clooney, meðleikara sinn, hafa bjargað sér í Ástralíu þar sem hún eyddi miklum tíma með konunni hans, Amal og börnunum þeirra. „Clooney fjölskyldan bjargaði mér frá einmanaleika og algjörri örvæntingu,“ sagði hún. 

„Ég hef aldrei verið jafn lengi frá fjölskyldu minni og held ég hafi ekki eytt svona miklum tíma með sjálfri mér síðan ég var 25 ára,“ útskýrði Roberts. 

Julia Roberts og George Clooney.
Julia Roberts og George Clooney. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert