„Fyrstu mánuðirnir mest krefjandi“

Marteinn Urbancic og Sara Hrund Helgadóttir ásamt dóttur sinni Alexöndru …
Marteinn Urbancic og Sara Hrund Helgadóttir ásamt dóttur sinni Alexöndru Ellu Urbancic.

Marteinn Urbancic og unnusta hans, Sara Hrund Helgadóttir, eignuðust sitt fyrsta barn, Alexöndru Ellu Urbancic, í febrúar 2021. Þau voru staðráðin í því að láta það ekki halda aftur af ævintýrum sínum og hefur fjölskyldan því ferðast víðsvegar bæði innanlands og erlendis síðastliðin tvö ár. 

Marteinn er menntaður atvinnuflugmaður og hóf nýverið störf hjá Icelandair, en hann er um þessar mundir að venjast nýrri rútínu sem fylgir starfinu og segist vera spenntur fyrir því að sjá hvernig tekst að samtvinna flugið og fjölskyldulífið. Samhliða fluginu starfar Marteinn sem fyrirsæta og hefur gert í yfir áratug hjá Eskimo, en hann er einnig menntaður í markaðsfræði og sölustjórnun. 

Marteinn og Sara kynntust árið 2011 í gegnum sameiginlega vinkonu og hafa verið óaðskiljanleg síðan. „Sagan er þannig að vinkona okkar komst inn á Facebook-aðgang Söru og „poke-aði“ nokkra sæta stráka sem hún þekkti. Ég beit á agnið og við ákváðum að hittast á stefnumóti með vinkonu hennar og vini mínum. Þær eru ennþá góðar vinkonur og við erum á leið í brúðkaup til hennar í sumar í Bretlandi,“ segir Marteinn. 

Marteinn og Alexandra í góðum gír í sólinni.
Marteinn og Alexandra í góðum gír í sólinni.

Fæðingin erfið og skemmtileg upplifun

Hinn 17. febrúar 2021 kom Alexandra í heiminn. Aðspurður segir Marteinn það bæði hafa verið erfitt og skemmtilegt að vera á hliðarlínunni í fæðingu dóttur sinnar. „Þetta er ótrúlegt ferli sem konur ganga í gegnum og maður gerir sér kannski ekki alveg grein fyrir því hversu langar og erfiðar fæðingar geta verið,“ segir Marteinn.

„En ég hef aldrei verið jafn stoltur af Söru og þessa nótt sem við fórum upp á fæðingardeild. Ég reyndi eftir bestu getu að taka myndir og svo skrifaði ég í „notes“ í símanum allt sem gerðist frá því hún byrjaði að fá hríðir og þangað til Alexandra fæddist. Það var mjög gaman fyrir okkur að lesa fæðingarsöguna dagana eftir fæðinguna því það fer allt í einn graut í hausnum á manni á meðan þetta gengur yfir,“ rifjar hann upp. 

„Það er líka magnað að sjá ýmis persónueinkenni frá mér …
„Það er líka magnað að sjá ýmis persónueinkenni frá mér og Söru í henni.“

„Erfitt að sjá litla barninu sínu vera illt“

Marteinn segir fyrstu mánuðina hafa reynst mest krefjandi, en að hans sögn var Alexandra mikið kveisubarn og fékk miklar eyrnabólgur, bakflæði, hlaupabólu og svo var vara/tunguhaftið klippt svo eitthvað sé nefnt. „Það var mjög erfitt að sjá litla barninu sínu vera illt og eiga erfitt með að tjá sig um hvað væri í gangi,“ segir hann. 

Fjölskyldan leggur mikið upp úr því að halda í fasta rútínu fyrir svefninn og les því alltaf saman á kvöldin, en Marteini þykir þær stundir sérstaklega dýrmætar. „Það sem hefur verið mest gefandi er að svæfa barnið sitt og lesa bók fyrir það. Það er svo mikil nánd sem fylgir því að sitja saman í kósí-horninu hennar Alexöndru og lesa saman. Hún er líka á þeim aldri núna að hún getur tjáð sig svo vel og segir stundum svo fallega hluti við mann sem bræða alveg pabbahjartað,“ segir Marteinn. 

Feðginin alsæl í skíðaferð í Austurríki.
Feðginin alsæl í skíðaferð í Austurríki.

„Lífið krefst meira skipulags með barn“

Marteinn segir forgangsröðunina hafa gjörbreyst eftir að hann varð pabbi. „Maður planar lífið í kringum Alexöndru og hennar þarfir, en á sama tíma þá tókum við Sara meðvitaða ákvörðun um að láta hennar komu ekki breyta lífinu of mikið – hún bara kemur með okkur til útlanda eða út að borða,“ útskýrir Marteinn. 

„Lífið krefst meira skipulags með barn, en maður þarf að hugsa fram í tímann og skipuleggja sig í kringum lúra og matmálstíma. Það er aðeins erfiðara að hoppa út úr húsi fyrstu mánuðina, en það er strax miklu auðveldara núna þegar hún er orðin tveggja ára,“ bætir hann við. 

Stuð í sundi!
Stuð í sundi!

Auðvelt að setja barnið sitt í fyrsta sæti

Spurður út í hvað hafi komið honum mest á óvart við föðurhlutverkið segir Marteinn það vera hve auðvelt það er að setja barnið sitt í fyrsta sætið fram yfir allt annað. „Það er líka ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og hvað þau læra hluti hratt. Hún er algjör svampur í augnablikinu og orðaforðinn vex með hverjum degi,“ útskýrir hann.

„Svo hefur það komið mér á óvart hversu miklar samræður er hægt að eiga við tveggja ára barn og hversu sterkar skoðanir börn geta haft á mat, fötum, tónlist og fleiru,“ bætir hann við. 

Leggja áherslu á kurteisi og setja mörk

Í uppeldinu hafa Marteinn og Sara verið mjög samtaka og haldið í sömu áherslur. „Ég held að það sé mikilvægt að börn fái sömu línu hjá foreldrum sínum. Við höfum lagt mikið upp úr kurteisi, til dæmis að þakka alltaf fyrir sig og spyrja fallega hvort hún megi fá hluti. Við höfum líka verið dugleg að setja henni mörk svo hún kunni að fá svarið nei. Við veitum henni umbun fyrir jákvæða hegðun og hundsum neikvæða hegðun eftir besta megni, en það virkar mun betur en skammir,“ segir Marteinn. 

„Alexandra er á dásamlegum leikskóla sem heitir Brákarborg, en þar er lagt upp með lausnarhringnum þar sem börnunum er kenndur jákvæður agi og gagnkvæm virðing í samskiptum. Þeim er til dæmis kennt að „stjórna sér“, bjóða knús og segja fyrirgefðu sem hefur gengið vel með að yfirfæra heim. Svo notum við skjánotkun sem spari, oftast bara um helgar,“ segir Marteinn og bætir við að þau leggi áherslu á að skilaboð séu skýr og hafa góða rútínu ávallt í forgangi.

Skíðaferðin til Austurríkis stendur upp úr

Fjölskyldan hefur verið dugleg að ferðast saman síðastliðin tvö ár, enda ákváðu Marteinn og Sara að halda áfram að lifa lífinu og leyfa dóttur sinni að koma með hvert sem þau færu, jafnt innan- sem utanlands.

„Við höfum reynt að vera dugleg að heimsækja bróður minn og hans fjölskyldu í Kaupmannahöfn, en hann á son sem er sex dögum yngri en Alexandra. Við höfum líka farið í sumarfrí með hana til Króatíu og Ítalíu, sem og í skíðaferð til Austurríkis og jólafrí til Lanzarote,“ segir Marteinn.

Marteinn segir ferðalögin með Alexöndru hafa gengið vonum framar. „Hún er mjög dugleg í flugvél og finnst alltaf gaman að ferðast með okkur, en skemmtilegast var þó að fara í skíðaferðina þar sem Theó litli frændi hennar kom með líka og þau fengu að leika saman alla daga,“ segir hann og bætir við að þau hafi verið dugleg að ferðast innanlands í kórónuveirufaraldrinum, en þá var Alexandra sex mánaða. 

„Það hefur komið mest á óvart hvað fólk erlendis brosir mikið til Alexöndru og hefur gaman af litlum börnum. Ég hafði alltaf mestar áhyggjur af því að ég væri með of ungt barn sem væri að gráta og skemma frí fyrir öðrum, en það var akkúrat andstæðan,“ útskýrir Marteinn. 

Besta ferðaráð Marteins er að hafa nóg fyrir börnin að gera í flugvélinni til að stytta tímann. „Það getur verið erfitt fyrir lítil börn að sitja í marga klukkutíma og hafa ekkert að gera á meðan,“ segir hann og bætir við að það hafi komið honum verulega á óvart hversu mikið dót fylgir litlum börnum sem þarf að taka með til útlanda.

Spenntur fyrir sumrinu í háloftunum

Í byrjun maí lauk Marteinn þjálfun hjá Icelandair, en hann er spenntur að sjá hvernig það mun ganga að samtvinna flugið og fjölskyldulífið á næstu mánuðum. „Ég hef ekki trú á öðru en að þetta gangi vel upp. Við eigum bæði mjög gott bakland – ömmur og afar bíða í röðum eftir að passa þennan engil,“ segir Marteinn.

„Svo er flugið þannig að það koma oft nokkrir dagar inn á milli þar sem maður er í fríi í miðri viku, þannig maður getur nýtt þá daga í samveru og sótt Alexöndru fyrr á leikskólann. Svo munum við reyna að nota frídagana í að skreppa í heimsókn til frænda í Danmörku með Alexöndru,“ bætir hann við. 

Sumarið framundan er því að mestu óplanað en Marteinn segir að fjölskyldan muni þó reyna að fara eitthvert út í sólina þegar tíminn gefst. „Ég er sjálfur að fara að hlaupa Laugarveginn Ultra í júlí og á ættarmót í Vestmannaeyjum,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert