Hvert barn stækkar veröldina

Pétur Markan og eiginkona hans Margrét Lilja Vilmundardóttir ásamt börnum …
Pétur Markan og eiginkona hans Margrét Lilja Vilmundardóttir ásamt börnum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Pétur G. Markan, biskupsritari Íslensku þjóðkirkjunnar, á von á sínu fjórða barni í apríl. Pétur sem er meðal annars fyrrverandi knattspyrnumaður grípur til fótboltalíkingar þegar hann lýsir uppeldinu en það getur verið mikill hasar á heimili hans og eiginkonu hans Margrétar Lilju Vilmundardóttur. 

Þegar Pétur er spurður hvernig föðurhlutverkið hafi breytt honum segir hann það hafa aukið ástina, félagsnándina og hamingjuna í lífinu. 

„Að elska einhvern meira en sjálfan sig er bæði krefjandi áskorun og þversögn í sjálfhverfu ástandi mannsins – en þar liggur líka einn stærsti þroskalykill okkar. Svo er ég heppinn að tilheyra kynslóð og tímum þar sem föðurhlutverkið er að breytast mikið, og til hins betra, það er líka afar þakkarvert,“ segir Pétur. Elstu börnin eru fædd 2012 og 2013. Það yngsta er fætt 2018 en auk þess hikar hann ekki við að telja systurson sinn með þegar hann talar um börnin sín. 

Pétur og systursonur hans Flóki Hrafn.
Pétur og systursonur hans Flóki Hrafn. Ljósmynd/Aðsend

Sá konu sína í nýju ljósi

Hvernig er að standa við hlið eiginkonu sinnar í fæðingu?

„Við fæddum öll þrjú börnin okkar fyrir vestan, á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Umönnunin og umhverfið algjörlega fyrsta flokks – Vestfirðingar gera allt vel sem þeir taka sér fyrir hendur. Fyrst og fremst var þetta stórkostleg lífsreynsla – en ég fann líka fyrir miklum vanmætti, jafnvel hræðslu í fyrsta skiptið, í þessum aðstæðum. Í öllu þessu sér maður maka sinn í öðru ljósi – það eiginlega ekki hægt að lýsa þeirri aðdáun, ást og þakklæti sem fyllir út í hjarta, sál og skrokk.“

Fannstu mikinn mun þegar börnunum fjölgaði á heimilinu? 

„Við eignuðumst tvö börn með skömmu millibili – mér fannst það mikil breyting. Úa kom í heiminn 2018, þá hættum við að geta dekkað maður á mann og tókum upp svæðisvörn. En við vorum bæði eldri og reyndari, sem skiptir máli. Heilt yfir er það mín tilfinning og reynsla að hvert barn stækkar veröldina manns og gerir hana að betri stað.“

Ljósmynd/Aðsend

Rútína hentar öllum best

Hvað hafa börnin þín kennt þér?

„Skilyrðislausa ást.“

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

„Kannski rauði þráðurinn sé þakklæti, sjálfstraust og sjálfsþekking og mildi. Svo er það bara einn dag í einu á skítafloti hversdagsins.“

Ertu með gott ráð til að tækla úlfatímann?

„Rútína er besta hegðunameðal allra tíma – fyrir fullorðna og börn.“

Ljósmynd/Aðsend

Gott að komast í sund

Hvað gerir fjölskyldan skemmtilegt saman um helgar eða þegar hún á lausa stund?

„Vikan hjá fjölskyldunni er mjög annasöm – foreldrarnir í krefjandi vinnum og börnin virk í öllu mögulegu. Helgarnar yfirleitt fullbókaðar á mótum og öðru eins. Okkar föstu punktar eru við kvöldverðarborðið – við leggjum mikla áherslu á að elda góðan mat og sitja við á kvöldin. Oft förum við í kvöldsund í Suðurbæjarlaug á eftir. Þar er farið yfir drama daganna, spunnin ævintýri, sagt af hlátri og grátri. Hvergi verða litir daganna jafn skýrir og yfir þeirri umræðu. Þarna fæ ég reglulega sannfæringu um að lífið sé gott – erfitt, lýjandi og stundum leitt, krefjandi og krassandi – umfram allt gott, leggi maður til vinnuna.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert