Pétur G. Markan bæjarstjóri í Hveragerðisbæ er orðinn fjögurra barna faðir. Hann tók nýverið á móti sínu fjórða barni ásamt eiginkonu sinni sr. Margréti Lilju Vilmundardóttur.
Fyrir eiga Pétur og Margrét þrjú börn, Hörð Markús sem er fæddur árið 2012, Sigrúnu Ísabellu sem er fædd árið 2013 og Úu Maríu sem er fædd árið 2018.
Pétur tilkynnti gleðifregnirnar í færslu á Facebook þar sem hann birti fallega mynd af mæðgunum. „Þarna eru þær, nýjustu mæðgur Íslands. Lítil stúlka komin í heiminn. Heilbrigð, hugrökk og falleg eins og mamma sín. Fjölskyldan stækkar og heimurinn hlær af hamingju.“
Í ársbyrjun fór Pétur í viðtal á fjölskylduvef mbl.is þar sem hann ræddi um föðurhlutverkið á einlægan máta. „Að elska einhvern meira en sjálfan sig er bæði krefjandi áskorun og þversögn í sjálfhverfu ástandi mannsins – en þar liggur líka einn stærsti þroskalykill okkar. Svo er ég heppinn að tilheyra kynslóð og tímum þar sem föðurhlutverkið er að breytast mikið, og til hins betra, það er líka afar þakkarvert,“ sagði Pétur í viðtalinu.
Það er nóg um að vera hjá Pétri um þessar mundir, en hann var ráðinn bæjarstjóri í Hveragerðisbæ í síðustu viku. Fyrir það hafði Pétur sinnt embætti biskupsritara og stýrt samskiptamálum kirkjunnar og verið sem slíkur hluti af yfirstjórn Þjóðkirkjunnar að því er fram kemur í tilkynningu frá bænum.
Fjölskylduvefurinn óskar Pétri og Margréti innilega til hamingju!