Kötturinn Teddi elskar ferðalög, útilegur og fjallgöngur

Langþráður draumur Eyrúnar Reynisdóttur rættist fyrir þremur árum þegar kötturinn …
Langþráður draumur Eyrúnar Reynisdóttur rættist fyrir þremur árum þegar kötturinn Teddi kom inn í líf hennar. Samsett mynd

Eyrún Reynisdóttir er fædd og uppalin á Skaganum þar sem hún er búsett ásamt kærasta sínum Jósef Halldóri Þorgeirssyni og kettinum þeirra honum Tedda. Eyrún veit fátt skemmtilegra en að ferðast og hefur Teddi notið góðs af því, en hann hefur ferðast um allt land og farið í útilegur, fjallgöngur, hjólatúra, gist á hótelum og farið í ótal sumarbústaðaferðir.

Eyrún starfar sem fram­kvæmda­stjóri Fim­leika­fé­lags ÍA ásamt því að sinna hinum ýmsu verk­efn­um fyr­ir Íþróttabandalag Akraness og þjálfa skemmti­lega hóp­tíma á Skag­an­um.

Eyrún, Jósef og Teddi hafa verið dugleg að ferðast um …
Eyrún, Jósef og Teddi hafa verið dugleg að ferðast um allt land.

„Teddi er rútínukall“

Fyrir þremur árum síðan rættist langþráður draumur Eyrúnar um að eignast kött af tegundinni Ragdoll, en hún hafði lengi haft augastað á tegundinni og voru það himinbláu augun og silkimjúki feldurinn sem heilluðu hana upp úr skónum. 

„Teddi er rútínukarl, elskar athygli og er fullkomlega uppáþrengjandi og í raun bara lang bestur. Honum þykir fátt skemmtilegra en að fá að vera með í öllu sem maður gerir, hvort sem það er að fara út í göngur, hjóla, bíltúr, ferðalög eða bara horfa á mann í sturtu,“ segir Eyrún.

Eyrún og Teddi eiga fallegt samband og njóta þess að …
Eyrún og Teddi eiga fallegt samband og njóta þess að eyða tíma saman.

Hvernig lágu leiðir ykkar saman?

„Við lögðum inn „ættleiðingarumsókn“ til Gæfuræktunar þann 16. nóvember 2021 og voru þá ansi margir á biðlista svo við bjuggumst í raun ekki við að fá kisu næsta árið eða svo. Ég varð því aldeilis hissa þegar ég vaknaði einn morgun í janúar 2022 við skilaboð frá ræktandanum, henni elsku Dýrleif, um að við ættum kisu sem væri tilbúin til afhendingar í febrúar. Við fengum hann Tedda svo til okkar á Valentínusardaginn sjálfan, þann 14. febrúar 2022.“

Þegar Eyrún og Jósef lögðu inn umsókn voru margir á …
Þegar Eyrún og Jósef lögðu inn umsókn voru margir á biðlista eftir kettling af tegundinni.

Hvað var það sem heillaði þig við tegundina?

„Mig var lengi búið að langa að fá mér kött af þessari tegund en þeir eru bara svo rosalega fallegir með þessi himinbláu augu og með svo mjúkan og fallegan feld. Ragdoll kettir eiga að vera þannig að þegar haldið er á þeim slaka þeir svo fullkomlega á að þeir minna helst á tuskudúkku, en af því draga þeir nafn sitt Ragdoll. Einhvern veginn hélt ég því að við myndum fá kött sem væri hægt að tuskast með eins og dúkku sem reyndist vera stór misskilningur, en hann Teddi okkar er alls ekki til í neitt svoleiðis grín.“

Það er ekki erfitt að heillast af fegurð Ragdoll-tegundarinnar sem …
Það er ekki erfitt að heillast af fegurð Ragdoll-tegundarinnar sem er með himinblá augu og fallegan feld.

„Ragdoll kettir eru sagðir mjög leikglaðir og fljótir að læra sem reyndist vera staðan með hann Tedda okkar, en við kenndum honum til dæmis strax að setjast og gefa „high-five“. Hann sækir dótið sem er kastað og kemur svo með það aftur eins og hundur, að vísu bara þegar honum hentar. Það er auðvelt að kenna Ragdoll köttum ýmsar kúnstir. Þeir eru hlýjir og vingjarnlegir að eðlisfari og vilja vera með þér öllum stundum. Þeir þurfa mikla athygli og njóta þess að liggja hjá eigandanum.“

Eyrún og Jósef hafa kennt Tedda ýmsar kúnstir.
Eyrún og Jósef hafa kennt Tedda ýmsar kúnstir.

Áttir þú gæludýr þegar þú varst yngri?

„Ég held að ég hafi allt í allt komið með sjö ketti heim til foreldra minna á mínum æskuárum. Bæði einhverja sem bara alveg óvart „eltu mig heim“ en þrjá ketti fékk ég þó gefins eða keypti. Alla fékk ég mér þó í leyfisleysi, foreldrum mínum til mikillar gleði og hamingju. Ég átti líka þrjár sætar kanínur á tímabili sem var kannski ekki besta hugmyndin í bland við að eiga á þeim tíma veiðióðan kött.“

Eyrún hefur alltaf verið mikil kattarmanneskja.
Eyrún hefur alltaf verið mikil kattarmanneskja.

Hverjir eru kostirnir við að eiga kött?

„Ég myndi segja að kosturinn við það að eiga kött sé fyrst og fremst að það taki alltaf einhver á móti þér þegar þú kemur heim. Það er líka best í heimi að eiga svona mjúkan vin sem elskar að kúra með manni. Það er mjög gefandi að eiga hann Tedda og hann hefur bara haft góð áhrif á líf okkar síðan við fengum hann.“

Eyrún segir Tedda hafa haft afar góð áhrif á líf …
Eyrún segir Tedda hafa haft afar góð áhrif á líf fjölskyldunnar.

En ókostirnir?

„Það eru fáir ókostir sem fylgja því að eiga kött að mínu mati en eini alvöru ókosturinn við það að eiga kött, eins og önnur gæludýr, er að geta ekki tekið hann með sér hvert sem maður vill. Við ferðumst mikið og reynum að taka hann með okkur allt sem við getum hérna innanlands en það er alltaf erfitt að skilja hann eftir þegar við förum erlendis.“

Það er alltaf jafn erfitt að skilja gæludýrin sín eftir …
Það er alltaf jafn erfitt að skilja gæludýrin sín eftir heima þegar haldið er í ferðalag erlendis.

Hver er ykkar daglega rútína?

„Eins og ég sagði áður þá er minn allra besti frekar vanafastur og mikill rútínukarl. Hann byrjar yfirleitt á að fara snemma út á morgnanna, eða um klukkan fimm eða sex, og kemur svo aftur inn sirka klukkutíma seinna í aðeins meira kúr. Við förum svo venjulega saman frammúr og byrjum á að fá blautmat, en minn sleikir bara sósuna – að sjálfsögðu.

Á þeim dögum sem ég vinn ekki heima skutla ég honum svo í pössun til foreldra minna en þar getur hann verið mikið úti í öruggu hverfi að leika við besta vin sinn sem býr í næsta húsi, hann Mola. Teddi er svo sóttur og við förum í smá bíltúr áður en við förum heim, en hann elskar fátt meira en góðan ís-rúnt – ég fæ ís, hann fær rúnt.“

Teddi elskar að fara í bíltúr.
Teddi elskar að fara í bíltúr.

„Svo er í raun engin dagskrá, við förum stundum út að labba og hann kemur að sjálfsögðu með, enda aldrei langt undan blessaður. Við leikum líka mikið og svo slær hann aldrei hönd á móti góðu kúri. Dagurinn endar svo yfirleitt þannig að hann fer aðeins út áður en við förum í háttinn og svo skríður hann upp í þegar hann er klár. Við förum oftast að sofa á sama tíma, hann stundum aðeins á undan en það verður alltaf að „kasta og sækja“ eina teygju fyrir háttatíma, það er algjör skylda.“

Að sögn Eyrúnar er Teddi mikill rútínukall.
Að sögn Eyrúnar er Teddi mikill rútínukall.

Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum eða skemmtilegum minningum?

„Bara hvar á ég að byrja. Við höfum alveg frá því við fengum Tedda verið rosalega dugleg að taka hann með okkur allt svo hann er vanur því að ferðast og koma á nýja staði. Hann er því rólegur og líður vel þegar hann ferðast. Við höfum ferðast saman út um allt land – farið Vestfirði, Snæfellsnes, Suðurland og norður til Akureyrar, á Mývatn og til Húsavíkur.“

Fjölskyldan hefur ferðast saman um allt land.
Fjölskyldan hefur ferðast saman um allt land.

„Við höfum farið í útilegu saman og vorum líklega vinsælust á svæðinu þá helgi, gist á sveitahótelinu Hótel Hraunsnef, á gistiheimilum og farið í ótal margar bústaðaferðir. Við erum mjög sjaldan með hann í bandi og treystum honum 100% þegar við förum á nýja staði. Ef hann fer eitthvað út t.d. þegar við erum uppi í sumarbústað þá er hann aldrei langt undan og kemur reglulega til okkar og lætur vita af sér. Svo er hann líka með GPS-ól svo við getum fylgst vel með honum.“

Teddi var vinsæll í útilegunni.
Teddi var vinsæll í útilegunni.

„Ferðalagið sem stendur þó upp úr er líklega ferðin sem við fórum í fyrrasumar norður á Strandir. Við gistum í þrjár nætur á Drangsnesi, fórum á ættamót og keyrðum um firðina, inn að Djúpuvík og alla leið að Krossneslaug þar sem einkasonurinn fékk að sjálfögðu að koma með, tveir fullorðnir og einn köttur takk – það var frítt fyrir ketti!

Á sumrin förum við oft út að hjóla og við höfum einnig tekið hann með okkur í nokkrar fjallgöngur, þá gengur hann annað hvort sjálfur eða er í sérstökum bakpoka og nýtur þess að láta aðra sjá um allt labbið á meðan hann slakar á og skoðar.“

Á sumrin fær Teddi að fara með í fjallgöngur og …
Á sumrin fær Teddi að fara með í fjallgöngur og hjólreiðatúra.

Er kötturinn með einhverjar sérþarfir eða séviskur?

„Teddi leikur sér í raun bara með því að fara í eltingaleiki með okkur og svo elskar hann að leika sér með hárteygjur, hann kemur gjarnan heim með hárteygjur og staka sokka sem hann vonandi finnur úti en ekki heima hjá öðru fólki. Hann drekkur bara ferskt vatn úr krananum eða úr vaskinum og það er mikilvægt að það sé ekki of kalt eða of heitt, ekki séns að fá hann til að drekka öðruvísi.“

Teddi sættir sig ekki við neitt nema ferskt vatn beint …
Teddi sættir sig ekki við neitt nema ferskt vatn beint úr krananum.

„Hann vill verja öllum stundum með mér og Jósefi, við erum svo sannarlega hans fólk. Það er alveg stranglega bannað að loka hurðum á heimilinu, en við getum t.d. gleymt því að fara í sturtu með lokaða hurð, hann vill helst fylgjast með okkur 24/7.

Hann borðar ekkert nema þurrmat nema það sé blautmatur frá Whiskas, þá sleikir hann sósuna og skilur kjötið eftir. Heima hjá foreldrum mínum má enginn klappa honum nema hann fái verðlaun eða nammi í staðinn. Fyrir háttatíma stendur hann svo alltaf við rúmið þangað til ég hef tekið teygjuna úr hárinu á mér og kastað henni svo hann geti sótt.“

Teddi vill verja öllum stundum með fjölskyldu sinni.
Teddi vill verja öllum stundum með fjölskyldu sinni.

Hvernig gengur að skipuleggja frí með dýr á heimilinu?

„Það hefur gengið mjög vel að fara í ferðalög, en eins og ég hef komið inn á þá ferðumst við mikið og ef við getum ekki tekið hann með þá hafa foreldrar mínir verið duglegir að passa hann fyrir okkur. Honum líður rosalega vel hjá þeim. Við höfum einu sinni farið erlendis með stórfjölskyldunni en þá var ræktandinn, hún Dýrleif, svo yndisleg að passa hann fyrir okkur í þessa viku sem við vorum í burtu.“

Teddi alsæll í hjólreiðatúr.
Teddi alsæll í hjólreiðatúr.

Ertu með einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?

„Það er mikilvægt að gefa sér tíma til að veita þeim þá athygli sem þau þurfa. Elska þau skilyrðislaust, alltaf og taka þeim eins og þau eru.“

Fjölskyldan á ferðalagi og Teddi auðvitað með.
Fjölskyldan á ferðalagi og Teddi auðvitað með.

„Ef viljinn er að eiga kött sem er til í að fara í ferðalög eins og hann Teddi þá er er mikilvægt að byrja strax að venja gæludýrið á það. Einnig mæli ég mikil með að fjárfesta í GPS-ól – við erum með frá Tractive, svo maður þurfi ekki að hafa áhyggjur af loðnu vinum sínum í ferðalögum.“

Eyrún mælir með því að fólk venji kettina sína strax …
Eyrún mælir með því að fólk venji kettina sína strax á að fara í ferðalög.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert