Uppeldisráð Sylvíu Briem: Koddaspjallið er mikilvægt

Sylvía Briem Friðjónsdóttir.
Sylvía Briem Friðjónsdóttir. Ljósmynd/Elísabet Blöndal
Athafnakonan Sylvía Briem Friðjónsdóttir og Emil Þór Jóhannsson eiga saman þrjá drengi, þá Sæmund Karl Briem 9 ára, Hólmbert Briem 5 ára og Henning Örn Briem sem kom í heiminn fyrir rúmlega fjórum mánuðum.
 
Sylvía hefur áður talað um í hlaðvarpsþættinum Normið, sem hún heldur úti ásamt Evu Mattadóttur, að hún komi úr stórri og náinni fjölskyldu en hér deilir hún fimm af sínum bestu uppeldisráðum.
Parið Emil Jóhannsson og Sylvía Briem Friðjónsdóttir ásamt derngjunum þeirra …
Parið Emil Jóhannsson og Sylvía Briem Friðjónsdóttir ásamt derngjunum þeirra Sæmundi Karli Briem og Hólmberti Briem. Ljósmynd/Aðsend

„Mikilvægt að þora að vera byrjandi og gera mistök“

„Þetta er mikið til umræðu heima hjá mér, þar sem við eigum það oft til að vera feimin við að taka af skarið eða prófa eitthvað nýtt. Það hefur verið mikið rætt að það vaknar enginn frábær í einhverju. Það krefst aga og æfingar til að ná árangri hvort sem það er fótbolti eða gítar. Við erum öll byrjendur á einhverjum tímapunkti, eigum að þora að vera þar þegar við erum ekki með þetta í puttunum, erum hrikaleg asnaleg og finnum að þetta er okkur ekki eðlislægt. Það er oft erfitt að byrja nefnilega, við eigum það til að gefast upp á byrjunarreitnum, það er synd.

Við getum átt fyrirmyndir sem að eru að standa sig og þá er gott að vera meðvitaður um að sá einstaklingur iðkaði eitthvað sama í hvaða skapi þeir eða þær voru. Maður nær ekki árangri í neinu nema þora, mæta, æfa og hafa gaman. Við mætum á æfinguna þó svo við séum ekki í skapi til þess, því innri hvötin okkar er ekki alltaf til staðar. Það er líka mikilvægt að vita að það er baráttan sem að skiptir máli en ekki að vinna leikinn. Ef við gefum okkar allra besta í eitthvað þá er það sigurinn.

Strákarnir mínir æfa báðir fótbolta og handbolta, okkur finnst mikilvægt að vera góður liðsmaður. Við tölum um okkur sem liðsmenn heima líka. Góður liðsmaður eru þeir sem að mæta og hvetja þegar illa gengur og eru oftast mikilvægastir þá. Halda haus þegar andinn í liðinu er að detta niður.“

Sylvía Briem Friðjónsdóttir og ungi drengurinn hennar Henning Örn Briem …
Sylvía Briem Friðjónsdóttir og ungi drengurinn hennar Henning Örn Briem Emilsson. Ljósmynd/Aðsend

„Fagnaðu því að vera skrítin/n/ið“

„Ég heillast alltaf af skrítnasta fólkinu en þau eru oft á skornum skammti því við viljum falla inn í samfélagslegan rammann. Mér finnst mikilvægt að hamra á því að þora að vera maður sjálfur, eins skrítinn og maður er. Ef að fólk gerir grín að okkur þá það þeirra því: „Engum sem líður vel í eigin skinni hefur þörf á því að láta öðrum líða illa“. Þetta er erfitt verkefni að reyna að fá börnin sín til að þora að vera algjörlega þau sjálf. En dropinn holar steininn og þetta verkefni er nauðsynlegt svo við þurfum ekki að lenda í lífstílskreppu seinna á leiðinni og þurfa að fara í langt ferðalag aftur til að kynnast okkur sjálfum seinna meir í framtíðinni. Það er ekkert betra en að sitja vel í sjálfum sér og vera sátt/ur í eigin skinni.“ 

„Koddaspjallið er oft mikilvægasti parturinn af deginum“

„Horfast í augu og tala saman um allt og ekkert. Stundum er verið að létta á sér og stundum erum við bara að ræða eitthvað skemmtilegt sem að gerðist yfir daginn. Ég trúi því að þessi spjöll mín við strákana mína styrki tilfinningagreind þeirra. Ég vill líka að þeir fái að ranta eða tala af og til. Ég vill ekki að þeim líði illa yfir einhverju þegar þeir eru einir. Manni á aldrei að líða illa einum hvort sem þú ert lítill eða stór. Það eru nefnilega svo margir sem að berjast í laumi við tilfinningar sínar. Ég vil að strákarnir geti alltaf leitað til mín ef það er eitthvað og fái góða ró í líkamann eftir spjall við mig. Ég vill líka að þeir geti sagt mér allt án þess að ég dæmi þá og við hjálpumst að við að greiða í gegnum erfiðar tilfinningar. Svo er líka mikilvægt að fara bara í gott hláturskast saman og syngja skemmtileg lög.“ 
Sylvía Briem Friðjónsdóttir og bræðurnir Sæmundur Karl Briem og Hólmbert …
Sylvía Briem Friðjónsdóttir og bræðurnir Sæmundur Karl Briem og Hólmbert Briem Emilsynir. Ljósmynd/Aðsend

„Tökum hróshring við matarborðið“

„Við höfum alltaf fjölskyldu daga núna undanfarið hafa það verið pítsa föstudagarnir. En við höfum verið að vinna með að hrósa hvort öðru fyrir eitthvað sem við sáum vel gert yfir daginn eða síðustu daga. Nú á ég 9 og 5 ára strák og einn 4 og hálfs mánaðar. Við hjálpum þessum yngri að koma orðunum áleiðis. Það er líka gaman að sjá hvað þetta er fljótt að koma. Mér finnst eiginlega fallegast þegar ég sé strákana mína hrósa hvorum öðrum fyrir eitthvað sem að þeir hafa tekið eftir. Þarna erum við bara að þjálfa okkur í að sjá styrkleika annarra og heyra styrkleikana um okkur sjálf. Strákarnir biðja núna alltaf um þetta sjálfir og tala um þetta sem hápunkt dagsins.“
Sylvía Briem Friðjónsdóttir og drengurinn hennar Hólmbert Örn Briem Emilsson.
Sylvía Briem Friðjónsdóttir og drengurinn hennar Hólmbert Örn Briem Emilsson. Ljósmynd/Aðsend

„Fjölskyldufundir mikilvægir“

„Ég lærði þetta af bestu vinkonu minni og vini sem að halda svokallaða fjölskyldufundi fyrir ákvarðanatöku. Mér finnst þetta frábært „concept“ sérstaklega þegar maður er að leggja línurnar eða setja einhverjar reglur t.d. varðandi tölvunotkun, svefntíma og útitíma. Þetta er gert í léttum gír ég segi t.d.: „Jæja það er fjölskyldu fundur, allir að setjast í sófann“. Þegar allir eru sestir: „Velkomin á þennan fjölskyldu fund það eru brýn málefni á dagskrá. Fyrsta málefni er hvenær við eigum að fara sofa“. Ég kem svo með tillögu að því og rökstyð af hverju mér finnst ákveðin tímasetning best til að fara sofa. Ég varpa svo hugmyndinni á strákana: „Hvað segið þið eru þið með betri tillögu?“ Þeir eru það yfirleitt ekki því ... mamma veit best, smá grín.
En þeir koma með sínar tillögur við finnum leið sem að hentar öllum. Þá hafa þeir eitthvað um þetta allt saman að segja og ég næ að útskýra fyrir þeim af hverju sumar reglur gilda á heimilinu. Þetta endar oft í einhverju hláturskasti eða góðri samveru sem að mér finnst lykillinn í þessu. Við erum nefnilega saman í liði og jú við foreldrarnir setjum ákveðnar reglur en við viljum samt heyra hvað öllum finnst. Reglur er nefnilega oft svo leiðinlegt og ég tengi við það. Þetta gerir það að verkum að þeir verða jákvæðari fyrir rammanum og hafa eitthvað um hann að segja. Þeir hafa áhrif!“ 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert