Fannst hún vera með uppeldishlutverkið á hreinu

Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og fagurkeri.
Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og fagurkeri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og umhverfisfræðingur hjá Stúdíó Jæja, segir mikilvægt að taka mið af hverju og einu barni þegar kemur að uppeldi.

Hún og eiginmaður hennar Hreiðar Levy Guðmundsson eiga samtals fjögur börn og því getur verið mikið fjör á heimilinu. Þau eiga tvær stelpur saman sem eru þriggja og sex ára en fyrir átti Hildur stelpu sem er 13 ára og Hreiðar strák sem er 14 ára.

Fyrsta barnið var eins og klukka

„Það eru auðvitað mörg góð uppeldisráð en systkini, meira að segja með sama DNA og sömu aðstæður, geta verið svo mismunandi að það þarf alltaf að aðlaga allt að börnunum og það er mismunandi hvað virkar,“ segir Hildur.

„Mér fannst ég svo algjörlega vera með uppeldishlutverkið á hreinu þegar ég var einstæð móðir með eitt barn. Sú fylgdi svefnbókinni góðu eins og klukka, svaf gjarna þrjár klukkustundir í vagninum sem ungabarn og alla nóttina frá sex vikna aldri í eigin rúmi. Þegar hún var orðin eldri þá kyssti ég hana á ennið eftir kvöldlesturinn og sagði góða nótt, en ég skildi aldrei hvernig vinkonur mínar nenntu að hanga í kannski klukkutíma að „svæfa“. Ég náði að klára mastersgráðu númer tvö með hana í fæðingarorlofi enda var hún einstaklega vær og góð.“

Ætlaði að gera allt eins með annað barnið

„Þegar ég eignast mitt annað barn, þá með Hreiðari manninum mínum, þá ætlaði ég að gera allt eins… og ég reyndi það virkilega. Sú var hins vegar með ungbarnakveisu og vildi nánast ekkert sofa nema ef hún lá ofan á mér… Hreiðar var þá í fullri vinnu á fasteignasölu, í löggildingarnámi á kvöldin og æfði handbolta á kvöldin og spilaði um helgar. Alltaf þegar hann kom heim dauðþreyttur eftir langan dag þá rétti ég honum barnið og hann tók við að rugga henni næstu klukkustundirnar.“

Mömmulífið er um það bil svona.
Mömmulífið er um það bil svona. Ljósmynd/Aðsend

Aldrei eins þreytt á ævinni

„Ég hafði séð fyrir mér að eyða fæðingarorlofinu á kaffihúsum og að dunda mér við einhver sniðug verkefni en þess í stað þá labbaði ég nánast allan daginn um með hana í vagni því barnið svaf bara á ferð. Ég hef aldrei verið eins þreytt á ævinni eins og á þessu tímabili. Það sögðu mér allir að þetta eltist af barninu en hún var byrjuð að kunna á alla lása á heimilinu fyrir tveggja ára aldur og vaknaði auðvitað á undan öllum og var komin út á trampólín ýmist á bleyjunni eða allsber nánast fyrir dögun.“

„Í dag er hún sex ára og er sem betur fer búin að læra að leyfa móðurinn sinni að sofa, en hún sefur minnst af öllum í fjölskyldunni og er alltaf á ferðinni, fer um allt hverfið í leit að nýju ævintýri… ætli það sé ekki öllu rugginu að kenna. Það er samt varla til skemmtilegra barn og mér líður eins og hún geti allt.“

„Við vorum þó mjög þakklát þegar sú yngsta kom í heiminn og það sýndi sig að hún elskar fátt meira en að sofa út og dunda sér í legó eða hlutverkaleik. Við hefðum einfaldlega verið of gömul fyrir fleiri andvökuár.“

Hildur leggur áherslu á gæðastundir með fjölskyldunni.
Hildur leggur áherslu á gæðastundir með fjölskyldunni. Ljósmynd/Aðsend

1. Knúsa of oft og segja ég elska þig of oft….

„Það er svo mikilvægt að börn finni og fái að heyra að þau séu elskuð. Meira að segja þegar þær eru eitthvað ósáttar við mig fyrir að banna þeim eitthvað þá býð ég þeim knús. Ég segi við þær oft á dag að ég elski þær og reyni alltaf að hrósa þeim fyrir það sem er vel gert.“

2. Leggja áherslu á að vera góð við aðra og virða mörk

„Við leggjum áherslu á það að þær séu góðar við aðra í kringum sig og virði mörk annarra. Mín kenning er sú að ef þær læra að virða mörk annarra, t.d. þegar einhver segir „hættu“ þá geri þær kröfu um það sama gagnvart sér. Þessi samskipti eiga sér oftast stað hér heima en þær systur eru langoftast góðar vinkonur en eiga það þó til að rífast og verða ósáttar hvor við aðra. Hér heima er líka mikið talað um mikilvægi þess að vera alltaf góðar við systur sínar að það sé ófrávíkjanleg regla.“

3. Eiga gæðastundir, sem þurfa ekki alltaf að vera við matarborðið

„Við borðum ekki oft öll saman við matarborðið. En við elskum að föndra saman og baka saman og fleira þess háttar. Svo finnst stelpunum oft gaman að hjálpa mér að mála, setja saman húsgögn eða eitthvað álíka en við stöndum í uppgerð á litlu hóteli og nóg af slíkum verkefnum að taka. Svo förum við oft á kaffihús saman og lesum þá jafnvel einhverjar skemmtilegar bækur, sú yngsta er alveg að fara að komast á þann aldur að nenna að sitja á kaffihúsi sem er mikið gleðiefni.“

4. Reyna að vera samstíga

„Þetta er meira fyrir foreldra en þetta getur verið mjög flókið, sérstaklega fyrir blandaðar fjölskyldur eins og okkar en maðurinn minn átti son fyrir og ég dóttur. Það var oft sérstaklega flókið þegar þau voru yngri því mín var til dæmis með skjátíma, ég hélt mikið að henni bókum og hún var með frekar skilgreindan háttartíma en maðurinn minn var algjör tívolípabbi alltaf þegar stjúpsonur minn var heima. Ég skil það samt ótrúlega vel því hann býr á Akureyri og þegar hann kom aðra hverja helgi þá var skiljanlegt að maðurinn minn vildi gera allt sem hann gat fyrir hann. Þetta átti það alveg til að skapa smá pirring en það hefur lagast mikið eftir að krakkarnir eru orðnir eldri og við vonandi eitthvað aðeins búin að samstilla okkur.“

5. Hugsa jákvætt og viðurkenna mistök

„Ég vil að stelpurnar mínar viti að ég get gert mistök alveg eins og þær og að þær megi alveg benda mér á það. Líka að mistök eru eðlilegur hluti af því að læra og vera til og tækifæri til þess að læra.“

Öll fjölskyldan saman að fagna fermingu sonarins.
Öll fjölskyldan saman að fagna fermingu sonarins. Ljósmynd/Aðsend
Fjölskyldan saman á góðri stund.
Fjölskyldan saman á góðri stund. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert