Fékk ekki dagmömmupláss og byrjaði með mömmuleikfimistíma

Hildur Karen Jóhannsdóttir heldur úti æfingatímunum Afreksmömmur í líkamsræktarstöðinni Afrek …
Hildur Karen Jóhannsdóttir heldur úti æfingatímunum Afreksmömmur í líkamsræktarstöðinni Afrek í Reykjavík ásamt fjarþjálfuninni Móður kraftur.

Meðgöngu- og mömmuþjálfarinn, Hildur Karen Jóhannsdóttir, er verðandi tveggja barna móðir. Dóttir hennar fæddist í apríl 2021, en á meðgöngunni var hún ráðalaus hvað varðaði hreyfingu og svo vantaði hana líka dagvistunarpláss fyrir dóttur sína. Hún ákvað því að skella sér í nám til að afla sér þekkingar og fann strax að þetta var eitthvað sem hún vildi rækta meira.

Hildur byrjaði að þjálfa nýbakaðar- og verðandi mæður árið 2022 og síðan þá hafa tímarnir hennar og fjarþjálfunin notið mikilla vinsælda enda er heilbrigði og hreysti mæðra gríðarleg mikilvægt. 

Hvað varð til þess að þú fórst að þjálfa nýbakaðar- og verðandi mæður?

„Á meðgöngunni með dóttur mína fannst mér ég rosalega ráðalaus hvað varðaði hreyfingu á meðgöngu og ég vissi ekki hvert ég gæti leitað. Ég ákvað því að skrá mig í nám til að afla mér þekkingar og fann strax að þetta var klárlega mitt áhugasvið. Afrek var ný líkamsrætkarstöð að opna í Skógarhlíðinni á sama tíma og ég var að klára orlof með dóttur mína. Vinnkona mín Freyja Mist Ólafsdóttir Clausen, einn af eigendum Afreks, spurði hvort ég hefði ekki áhuga á að þjálfa og halda utan um mömmutímana þar. Ég verð henni ævinlega þakklát því eftir það var ekki aftur snúið. Dóttir mín þjálfaði fyrstu tímana með mér níu mánaða gömul svo fékk hún óvænt pláss hjá dagmömmu sem hún hafði verið á biðlista hjá. Þetta var algjör heppni og einhvern veginn small allt saman. Ég gat þá sinnt þjálfuninni af fullum krafti og það má segja að ég hafi algjörlega fundið þar mína hillu.“

Hildur Karen Jóhannesdóttir, sambýlismaður hennar Snorri Sigurðarson og dóttir þeirra.
Hildur Karen Jóhannesdóttir, sambýlismaður hennar Snorri Sigurðarson og dóttir þeirra. Ljósmynd/Lilja Kristjánsdóttir

Tók dótturina með í vinnuna

Hildur sá ekki fram á að dóttirin fengi dagmömmu eða leiksólapláss og fór því strax að reyna að finna starf þar sem viðráðanlegt væri að taka stúlkuna með í vinnuna. 

„Fyndið að segja frá því í kjölfarið af umræðunni sem Sylvía Briem Friðjónsdóttir er búin að vekja svo mikilvæga og flotta athygli á, en ég sá nefnilega ekki fram á að fá leikskóla- eða dagmömmupláss fyrir dóttur mína, sem fæddist í apríl 2021. Eins og svo margir aðrir foreldrar eru að upplifa, þá leit allt út fyrir að ekkert myndi losna fyrr en hún yrði kannski 18 mánaða ef ég væri heppin. Á sama tíma reyndi ég að finna leið til að geta starfað við eitthvað þar sem ég gæti haft hana með mér í vinnu eða unnið að hluta til heiman frá. Ég hafði áður verið að þjálfa og hafði mikinn áhuga á því.“

Hverjar eru helstu áherslurnar í tímunum þínum?

„Eins og staðan er í dag þá er sama prógram fyrir bæði konur á meðgöngu og eftir fæðingu. Ef ég er með óléttar konur í tíma hjá mér þá reyni ég alltaf að setja upp á töflu eða sýna aðrar æfingar sem hægt er að gera í staðinn ef það eru æfingar sem henta þeim mögulega ekki. Það skiptir mig miklu máli að halda vel utan um konur á meðgöngu svo ég reyni að vinna æfingarnar mikið í samráði við þær eftir verkjum, líðan og meðgöngulengd. Í Afreksmömmum leggjum við mikla áherslu á að styrkja konur eftir barnsburð. Það er sérstaklega mikilvægt að styrkja mjaðmir, grindarbotns-, kvið-, rass- og bakvöðva sem nýtist vel í athöfnum daglegs lífs. Við förum líka yfir öndun í æfingum og hvernig við getum notað hana til að virkja grindarbotns- og kviðvöðva enn betur í æfingum. Svo svitnum við auðvitað svolítið líka og höfum gaman.“

Hildur hefur lengi haft ástríðu fyrir hreyfingu og þjálfun mæðra.
Hildur hefur lengi haft ástríðu fyrir hreyfingu og þjálfun mæðra. Ljósmynd/Gunnar Jónatansson

Mikil eftirspurn

Hildur vonast til að geta boðið upp á fleiri Afreksmömmutíma í framtíðinni en vegna mikillar eftirspurnar er uppbókað í tímana. Hún bætir því við að hún hefur sérstakt auga á þeim sem byrja hjá henni mjög stuttu eftir fæðingu. 

„Við höfum hingað til ekki getað boðið upp á sérstakt grunnnámskeið fyrir konur sem eru nýbúnar að eiga vegna svo mikillar eftirspurnar í Afreksmömmutímana en það er vonandi eitthvað sem við munum geta boðið upp á í framtíðinni. Ég reyni að vera svolítið á bremsunni hjá þeim sem koma mjög stutt eftir fæðingu, sérstaklega hvað varðar þyngdir og erfiðleikastig sumra æfinga. Margar eru mjög spenntar að byrja aftur að hreyfa sig sem mér finnst geggjað en það tekur lík tíma að jafna sig eftir fæðingu og við viljum að sjálfsögðu komast hjá því að upplifa síendurtekin bakslög. Ég hvet þær til að vera vakandi fyrir ákveðnum einkennum eins og þyngslum í grindarbotni sem dæmi og reyni að vera dugleg að spyrja þær hvernig þeim líður í líkamanum til að vega og meta framhaldið.“

Er það eitthvað sérstakt sem margar konur í tímum hjá þér glíma við eftir fæðingu?

„Ég hef kannski ekki endilega tekið eftir einhverju sérstöku sem allar konur eiga sameiginlegt að glíma við eftir fæðingu. Ég held samt að nýbakaðar mæður séu allar að fara í gegnum mismunandi bataferli eftir fæðingu þar sem ótrúlega margir þættir spila inn í. Það sem ég hef hins vegar tekið eftir og finnst einkenna Afreksmömmurnar mínar er klárlega hvað þær eru þrautseigar! Ég dáist alltaf jafn mikið af því! Að vera mögulega vansvefta og nenna að burðast með bílstól, barn, skiptitösku, kannski vagninn líka og allt dót sem fylgir því að eiga barn, á æfingu tvisvar eða þrisvar sinnum í viku þar sem sumar að keyra 15-20 mínútur eða lengra, finnst mér svo aðdáunarvert. Þær láta ekkert stoppa sig því þær ætla að mæta á æfingu og gefa sér tíma fyrir andlegu og líkamlegu heilsuna. Suma daga ná þær jafnvel bara fimm mínútum upphitun og svo er æfingin búin því litlu dúllurnar auðvitað stjórna því oft hvernig æfingin fer. Þær mæta samt alltaf aftur og einhvern veginn láta hlutina bara ganga. Mér finnst það geggjað og vona að ég verð með sömu þrautseigju í orlofinu mínu með minn gaur.“

Mömmuhópurinn eftir kröftuga og skemmtilega æfingu.
Mömmuhópurinn eftir kröftuga og skemmtilega æfingu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hafa viðbrögðin verið?

„Þau hafa gjörsamlega fram úr öllum mínum væntingum. Ég var í öðru starfi samhliða þjálfuninni til að byrja með. Ég starfaði þá í markaðsmálum fyrir Wodbúðina en þurfti á endanum að hætta þar því aðsóknin í Afreksmömmur var orðin svo mikil. Við byrjuðum með einn hóp í janúar svo allt í einu var þeim búið að fjölga í sjö. Það kom mér líka á óvart hversu margar mömmur komu aftur mánuð eftir mánuð og sumar lengur en ár. Mér finnst það svo yndislegt að fá að fylgjast með þeim styrkjast og litlu dúllunum þeirra stækka á sama tíma,“ segir hún. 

Hvert stefnir þú á næstu fimm árum? 

„Ég elska vinnuna mína og mér finnst ekkert skemmtilegra en að þjálfa konur á þessum yndislega en á sama tíma oft krefjandi tíma í þeirra lífi. Mig langar til að byggja upp vefsíðuna mína af meiri krafti. Að mennta mig enn frekar á sviði þjálfunar er líka ofarlega á listanum, sérstaklega fyrir þennan hóp. Síðan langar mig til að gera Afreksmömmur að enn betra námskeiði með því að mögulega bæta við námskeiðum fyrir konur á meðgöngu og bæta við grunnámskeiði fyrir mæður eftir fæðingu.“

Hildur með dóttur sinni á æfingu.
Hildur með dóttur sinni á æfingu. Ljósmynd/Lilja Kristjánsdóttir

Hvetur mæður að taka skrefið

Hildur segir að mömmutímarnir hjálpi konum ekki aðeins að finna aftur líkamlegan kraft heldur eru þeir líka gott andlegt stuðningsnet.

„Mig langar að hvetja konur á meðgöngu eða nýbakaðar mæður til að prófa að fara í mömmutíma. Það er til ótrúlega mikið af flottum þjálfurum í dag sem sérhæfa sig á þessu sviði og margt í boði, það þarf bara að þora. Ég skil vel að margar mikli þetta fyrir sér og hugsi, „hvað ef barnið mitt verður á orginu allan tímann?“ eða, „ég hef aldrei stundað svona hreyfingu áður, þetta er langt út fyrir minn þægindaramma“. Ég er viss um að flestar konur hafi fengið einhverjar svona hugsanir í kollinn áður en þær byrjuðu í mömmutímum en það sem er svo geggjað við þessa tíma er að konur geta æft og tekið barnið eða börnin með sér í tíma, þær hitta aðrar konur sem eru að ganga í gegnum svipaða hluti og tengt við hvor aðra, þær fara út úr húsi og andlega heilsan verður oft betri við það ásamt því að styrkja sig.“

Hildur að taka á því.
Hildur að taka á því. Ljósmynd/Gunnar Jónatansson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert