„Börn vilja rútínu, sérstaklega börn sem búa á tveimur heimilum“

Tónlistarparið Júlí Heiðar Hall­dórs­son og Þór­dís Björk Þorfinns­dótt­ir ásamt drengjunum …
Tónlistarparið Júlí Heiðar Hall­dórs­son og Þór­dís Björk Þorfinns­dótt­ir ásamt drengjunum þeirra og dóttur. Ljósmynd/Elísabet Blöndal
Tónlistar-og leikaraparið, Júlí Heiðar Halldórsson og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, eignuðust dóttur á dögunum en fyrir áttu tvo syni sem eru 6 ára og 7 ára. Þeir eru hjá þeim aðra hvora viku því þeir eiga aðra foreldra líka. Júlí Heiðar deilir fimm uppeldisráðum og segir að það séu ýmsir hlutir á heimilinu sem gera heimilislífið betra eins og að borða alltaf kvöldmat saman. 

Kvöldmatartíminn frábær núvitund

„Ég held að uppáhaldsfjölskylduráðið mitt sé að borða saman kvöldmat við eldhúsborðið án síma og sjónvarps. Það er eitthvað við það að eiga þessa stund öll saman sem gefur okkur bæði innsýn inn í hvað gerðist yfir daginn í vinnu, skóla og tómstundum. Það er líka bara svo mikill hraði á öllu í dag og stöðugt áreiti gegnum snjallsíma svo ég held að þetta sé bara frábær núvitund og góð samverustund. Við höfum haft þá reglu að það sé ekki farið frá borðinu fyrr en allir hafa klárað að borða. Þannig er alltaf dágóður tími við matarborðið saman. Við hvetjum líka strákana til þess að borða núna því það er ekki matur í boði á eftir nema kannski ávöxtur. Þetta minnkar áreitið í eldhúsinu og gefur okkur frekar tækifæri til þess að spila eða gera eitthvað skemmtilegt eftir að búið er að ganga frá matnum.“
Júlí Heiðar að taka lagið með syni sínum.
Júlí Heiðar að taka lagið með syni sínum. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Hvernig líður þér?

„Þrátt fyrir að strákarnir okkar séu orðnir 6 og 7 ára þá reynum við að hafa næturrútínuna okkar þannig að við förum saman og tannburstum, lesum bók og kúrum með þeim fyrstu mínúturnar í rúmunum þeirra. Þetta er kjörið tækifæri til að spyrja þá hvernig þeim líður, hvernig þeim fannst dagurinn vera og hvað er framundan á morgun. Það fer svo eftir þeirra líðan hvort við hinkrum þangað til þeir eru sofnaðir eða bjóðum þeim góða nótt og leyfum þeim að sofna sjálfir.“
Drengirnir voru yfir sig hrifnir af litlu systur.
Drengirnir voru yfir sig hrifnir af litlu systur. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Leggur stoltið til hliðar

„Eitt ráð vil ég gefa foreldrum sem eiga börn á tveimur heimilum. Mínir strákar hafa átt „bónusforeldra“ eða stjúpforeldra síðan þeir voru mjög litlir og þekkja ekkert annað. Ég tel það mikilvægt að krakkar, þá sérstaklega ungir krakkar sem eru að máta sig við þess konar fjölskyldulíf, fái algjört frelsi til þess að kalla „aukaforeldra“ sína það sem þau vilja. Það getur reynst hættulegt að setja þeim skorður eins og að banna þeim að kalla bónusforeldra sína mömmu eða pabba. Sama gildir með að þrýsta orðunum að þeim. Börn eru svo klár og næmar tilfinningaverur að með tímanum finna þau orðin sem þau vilja nota. Jafnvel þó að skilgreiningin sé til staðar í huganum þeirra koma orðin ekki alltaf strax og stundum aldrei en þau þurfa að fá rými til þess að finna út úr því sjálf. Maður þarf að leggja stoltið og sínar eigin tilfinningar til hliðar. Í mínu tilfelli fagna ég því ef t.d. sonur minn kallar annan mann líka pabba.“
Júlí Heiðar með nýbakaða dóttur sína.
Júlí Heiðar með nýbakaða dóttur sína. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Rútínan mikilvæg fyrir börn sem búa á tveimur heimilum 

„Fyrst ég er farinn að tala um börn sem búa á tveimur heimilum þá er rútína, skipulag og liðleiki eitthvað sem skiptir miklu máli. Börn vilja rútínu,sérstaklega börn sem búa á tveimur heimilum. Ég tel það því mikilvægt að halda alltaf sömu skiptidögum, reyna að ræða dagskrá barnsins reglulega þannig að það viti hvað er framundan og gera ekki snöggar breytingar án þess að vera búin að ræða það við barnið. Að því sögðu þarf líka að vera ákveðinn sveigjanleiki hjá öllum foreldrunum, aðstoða ef breytingar verða t.d. á heimilislífinu hinumegin svo sem ferðalög, áföll eða aðrar drastískar breytingar. Þetta þýðir að samstarfið þarf að vera gott, samskiptin góð og að þarfir barnsins séu settar í forgang en ekki þarfir foreldranna. Í okkar tilfelli eru þetta þrjú heimili sem þarf að samstilla og það getur oft verið meiriháttar hausverkur en ef allir eru liðlegir og vinna saman að því að láta barninu líða sem best þá er þetta ekkert mál.“
Júlí Heiðar, Þórdís og barnahópurinn.
Júlí Heiðar, Þórdís og barnahópurinn. Ljósmynd/Elísabet Blöndal.

Halda skjátíma í lágmarki og spila í staðinn

„Ég mæli með að sleppa snjallsímum eins lengi og hægt er, hafa sjónvarpsgláp í lágmarki og reyna frekar að t.d. spila. Við spilum mjög mikið með strákunum okkar allt frá Veiðimanni í klassísk borðspil. Það er hellings lærdómur í því að spila, strákunum og okkur finnst það gaman og við erum öll saman. Fínt að kenna krökkunum hvernig maður hagar sér þegar maður vinnur og þegar maður tapar en númer eitt, tvö og þrjú þá er þetta ótrúlega góð samverustund.“
Júlí Heiðar og Þórdís að kúra með ungu stúlkunni sinni.
Júlí Heiðar og Þórdís að kúra með ungu stúlkunni sinni. Ljósmynd/Elísabet Blöndal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert