Vill að börnin alist upp utan sviðsljóssins

Kerry Washington.
Kerry Washington. AFP/Valerie Macon

Leikkonan Kerry Washington hefur opnað sig um hvers vegna hún heldur börnunum sínum frá Hollywood-sviðsljósinu. Hún og eiginmaður hennar Nnamdi Asomugha, leikari, eru þekkt fyrir að halda einkalífi barnanna leyndu en saman eiga þau börnin Isabella tíu ára og Caleb sjö ára. Asomugha á einnig 18 ára dótturina Anaya. 

Leikkonan segir í samtali við fréttamiðilinn People að ekkert annað hafi komið til greina en að hlífa börnunum frá sviðsljósinu vegna þess að þau hjónin vildu að samband þeirra og fjölskyldulífið tilheyrði aðeins þeim. Hún bætir við að þau vilji gefa börnum sínum tækifæri á að finna hvað þau vilja gera í lífinu og koma í sviðsljósið á sínum eigin forsendum.

„Við erum þó klárlega ekki eins passasöm og áður, þau eru ekki læst í dýflissu heima en við finnum að við viljum bjóða þeim tækifæri til að skoða lífið í sviðsljósinu því það er nokkuð sem við þekkjum vel. Það yrði þó allt gert á þeirra eigin forsendum en við viljum leyfa þeim að vera börn í friði,“ segir Washington.

Stjörnuparið gifti sig árið 2013 í Idaho í Bandaríkjunum en þau héldu trúlofuninni leyndri í langan tíma til að fá að njóta sín saman fram að brúðkaupinu. 

Á þeim tíma faldi Washington trúlofunarhringinn hvert sem hún fór með því að festa hringinn með nælu á nærfötin sín en parið vildi ekki að neinn vissi af trúlofuninni. 

„Mér leið eins og það væri verið að fylgjast með hverju skrefi sem við tókum og það sama gilti um ferilinn okkar. Við héldum alltaf sambandi okkar mjög leyndu þegar við vorum að kynnast fyrst og við gerðum það bara til að verja okkur sjálf og til að passa upp á hvort annað,“ segir Washington. 

Us Weekly

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert