Fyrstu orð íslenskra ungabarna oft á ensku

„Það er ekki mælt með því að börn undir 18 mánaða horfi á sjónvarp en börn eru rosa misjöfn og mörg börn eru farin að horfa á sjónvarp fyrir þann tíma. Þá er kannski bara betra að þau séu að horfa á eitthvað efni sem er framleitt fyrir þau á íslensku og er fræðandi líka,“ segir Kristín Erla Tryggvadóttir í Dagmálum en hún ásamt tónlistarkonunni Auði Lindu framleiðir íslenskt barnaefni og miðlar í gegnum Youtube-rásina Frú Kristín

Framboð af íslensku barnaefni fyrir yngstu kynslóðina hefur verið af skornum skammti undanfarin ár. Það ráku þær Kristín Erla og Auður Linda sig á þegar þær sjálfar urðu mæður fyrir um tveimur árum.  

„Eins og stelpan mín, fimmtánda orðið hennar var „duck“ á ensku. Þá fékk ég svakalegt samviskubit svona mömmusamviskubit og þurfti þá bara að slökkva á Ms Rachel og ákveða að nú yrði bara sett á íslenskt efni,“ segir Kristín Erla sem ákvað að taka málin í sínar hendur og hóf framleiðslu á íslensku barnaefni í líkingu við það sem Youtube-stjarnan Ms Rachel hefur framleitt frá árinu 2019.

Móðurhlutverkið mesta innsæið

Spurðar út í bakgrunn sinn, þekkingu og reynslu á því að framleiða efni fyrir börn segja þær að móðurhlutverkið sé það sem nýtist þeim best.   

„Það er náttúrulega bara það að vera mæður,“ segir Kristín Erla. 

„Við lesum mjög mikið á netinu og notum heimildir úr Heilsuveru,“ bætir Auður Linda við en báðum þykir þeim brýnt að styðjast við ritrýndar og öruggar heimildir sem þær heimfæra inn í þættina.

„Við höfum sett svona áfanga inn í þættina út frá Heilsuveru. Þannig að það er miðað við að börn séu að byrja að klappa þegar þau eru um það bil tíu mánaða eitthvað svoleiðis og þá kemur texti inni í myndskeiðinu um þessa viðmiðun en öll börn eru rosa misjöfn,“ segir Kristín. „Þetta er allt eitthvað sem við höfum lært í ungbarnavernd með börnin okkar.“

Misjafnt hvenær börn fá að byrja að horfa

Þættir Frú Kristínar eru ætlaðir börnum á aldursbilinu 0-3 ára. Þáttunum er ætlað að örva, fræða og skemmta yngstu kynslóðinni með faglegum hætti. Þar spila einfaldleiki, látbragð, litagleði, tónlist, hljóð, form, söngvar, tákn, hreyfing og endurtekning á orðum stór hlutverk.

Þó að aldursviðmiðið sé 0-3 ára segja þær Kristín og Auður mjög misjafnt á hvaða tímapunkti börn fari að uppgötva tilurð sjónvarps- og snjalltækja og skynja það sem birtist þeim í gegnum tækin. 

„Það fer svolítið eftir foreldrunum og hvenær þeir vilja leyfa barninu sínu að byrja að horfa á sjónvarpið,“ segir Kristín Erla. 

„Við miðum alla vega við að þetta sé fyrir börn til sirka þriggja ára,“ segir Auður Linda en viðbrögð eldri barna en þriggja ára segja þær einnig hafa verið góð.

„Já, en ég hef nú alveg heyrt að eldri börn séu að horfa á þetta og finnist það skemmtilegt,“ segir Kristín Erla.

„Sérstaklega eins og með sum lögin eins og höfuð, herðar, hné og tær, þá eru þau að herma eftir og svona. Það finnst þeim ótrúlega gaman,“ segir Auður Linda sem sér um tónlistina í þáttunum.

Smelltu hér til að horfa eða hlusta á allt viðtalið í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert