Smánuð fyrir að finna nýjan mann of fljótt

Whitehouse á von á barni með nýja manninum.
Whitehouse á von á barni með nýja manninum. Skjáskot/Instagram

Anna Whitehouse er þekktur áhrifavaldur undir heitinu Mother Pukka. Hún er 43 ára og er nýskilin við mann sinn til margra ára. Fljótlega eftir skilnaðinn fann hún annan mann og eiga þau nú von á barni saman. Whitehouse segir marga hafa smánað hana fyrir að vera of fljót að finna hamingju í faðmi annars manns.

Sökuð um að fegra skilnað

„Ég tilkynnti um skilnaðinn minn á samfélagsmiðlum í september. Í maí var ég trúlofuð öðrum manni. Ég var sökuð um að fegra skilnaðinn um of en sannleikurinn var sá að ég var bara að segja satt. Ég og minn fyrrverandi lögðum mikið á okkur til þess að skilja í góðu, þá sérstaklega fyrir stelpurnar okkar. Auðvitað var skilnaðurinn sár og kostnaðarsamur en honum fylgdi líka léttir og ég var stolt af því hvernig við stóðum okkur,“ segir Whitehouse í viðtali við The Times.

Skildi í september og trúlofaðist um vorið

„Ég kynntist svo Olly á stefnumótaforriti undir lok ársins og við trúlofuðum okkur um vorið. Þá fóru gagnrýnisraddirnar allar af stað. Ég var að byrja nýtt líf of snemma. Þrátt fyrir að vera 42 ára á þeim tíma. Mun þroskaðri en þegar ég tók ákvörðun um að gifta mig í fyrra skiptið þá aðeins 24 ára. Raunin er sú að ef maður er kona þá má maður ekki „komast yfir skilnaðinn“ of snemma.“

„Þá hef ég líka lært að skilnaður fær fólk til þess að líða illa í kringum þig. Sérstaklega ef það er sjálft að upplifa erfiðleika í eigin hjónabandi. Hér áður fyrr varð ég öfundsjúk ef fólk sagðist vera að skilja. Ég öfundaði hugrekki þeirra og það að þau vissu hvenær komið væri gott.“

Karlar upplifa meiri samkennd

„Það kann að líta út fyrir að ég hafi „haldið áfram með lífið“ of fljótt en sannleikurinn er sá að hjónabandið var steindautt í þrjú ár áður en við tókum ákvörðunina um að skilja. Við höfum bæði fundið ástina aftur.“

„Fráskildir karlar upplifa meiri samkennd frá fólki. Fólk vill vita að það sé allt í lagi með þá. Við hrósum þeim fyrir að hugsa um eigin börn og þegar þeir kynnast nýrri konu þá fögnum við því innilega. Það sama gildir ekki um konur. Samfélagið ætlast til þess að konur einbeiti sér eingöngu að börnunum. Ekki að sjálfri sér.“

„Þegar ég tilkynnti um trúlofun mína þá bað fólk mig um að staldra við og hugsa um börnin. Enginn sagði slíkt hið sama við minn fyrrverandi þó að hann hafi náð sér í maka á undan mér. Við erum bæði hamingjusöm en ég er smánuð fyrir það en ekki hann. Ég kveið því fyrir að segja fólki frá óléttunni.“

Engin krísa til staðar

„Ég veit að margir telja að þessi maður sem ég er nú með sé einhvers konar „rebound“ maður og að ég sé í miðaldurskrísu að „finna mig“. En það var bara engin krísa. Bara tækifæri til þess að ljúka einum kafla og hefja nýjan. Lífið bara breytist.

„Aldur skiptir ekki máli. Það er hægt að finna hamingjuna með því að stíga út fyrir þægindarammann.“

Hvað með börnin?

„Einn spurði mig hvort ég ætti í rauninni skilið að vera hamingjusöm og ég svaraði já hví ekki? Kynslóðir kvenna hafa fórnað hamingjunni, verið með körlum fyrir sakir barnanna. Mín kynslóð vill frekar spyrja sig hvort sambandið færir þeim hamingju. Meiri hamingju en óhamingju.“

„Fólk gerir ráð fyrir því að það sé betra fyrir börnin að hanga saman. Það sem skiptir hins vegar meira máli er að mamman sé hamingjusöm. Hamingjusamir foreldrar skapa hamingjusöm börn. Og börnin mín eru hamingjusöm.“

„Þá ber að hafa í huga að börn eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af foreldrum sínum. Þau eiga ekki að þurfa stöðugt að hugsa um hvort það sé í lagi með mömmu og pabba. Þegar ég sagði mínum fyrrverandi frá óléttunni þá hringdi hann í börnin og talaði um hversu ánægður hann væri fyrir mína hönd. Þetta létti andrúmsloftið mikið að börnin vissu að allir væru sáttir.“

„Það er hægt að finna hamingjuna aftur eftir skilnað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert