„Ekki að ástæðulausu að þeir eru oft kallaðir besti vinur mannsins“

Vinirnir Kópur, Ynja, Húni og Skuggi.
Vinirnir Kópur, Ynja, Húni og Skuggi. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Langþráður draumur Ísaks Ólafssonar rættist fyrir fjórum árum þegar hundurinn Ynja kom inn í líf hans. Hann hafði lengi dreymt um að eignast hund af tegundinni Rough Collie en var aftarlega á biðlista eftir hvolpi þegar hann fékk óvænt skilaboð um að bláyrjótt tík úr gotinu væri laus.

Ísak er búsettur í Svíþjóð um þessar mundir þar sem hann er í meistaranámi í líffræði við háskólann í Lundi. Hann hefur mikinn áhuga á ljósmyndun og hefur sérstakt dálæti á bæði dýra- og náttúruljósmyndun, en á síðasta ári hafnaði mynd eftir Ísak í fimmta sæti í ljósmyndakeppni ferðavefs mbl.is. 

Ísak hefur mikinn áhuga á ljósmyndun, útivist og dýrum.
Ísak hefur mikinn áhuga á ljósmyndun, útivist og dýrum. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

„Ynja er 4 ára bláyrjóttur Rough Collie sem kemur frá ræktuninni Nætur Collie. Í ættbók fékk hún nafnið Nætur Ævintýri eftir hljómsveitinni Ævintýri en öll systkinin fengu nöfn eftir íslenskum hljómsveitum. Ég valdi nafnið Ynja fyrir hana því grái liturinn á henni minnir svolítið á litinn á úlfum en orðið ynja er kvendýrið hjá úlfum kallast úlfynja,“ segir Ísak.

„Svo hefur mér alltaf fundist rough collie svo tignarleg tegund og orðið ynja er einnig notað yfir gyðjur úr norrænni goðafræði (ásynjur), en mér finnst ásynjum einmitt alltaf vera lýst sem tignarlegum og fallegum persónum sem að er ekki mjög ólíkt því hvernig ég myndi lýsa  tegundinni. Því var Ynja nafn sem mér þótti passa vel við hana,“ bætir hann við. 

Ynja er af tegundinni Rough Collie sem margir kannast við …
Ynja er af tegundinni Rough Collie sem margir kannast við úr myndunum um Lassie. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Hvernig lágu leiðir ykkar saman?

„Ég fékk hana Ynju í apríl 2020 í miðjum kórónuveirufaraldrinum. Ég hafði loksins náð að sannfæra foreldra mína um að fá okkur aftur hund eftir að gamli hundurinn okkar Flóki fór frá okkur árið 2016.

Í ársbyrjun var ég byrjaður að skoða ræktendur og hafði fundið ræktanda á enskum Cocker Spaniel sem var með got. Cocker Spaniel var tegund sem kom mikið til greina hjá okkur en hann Flóki var einmitt amerískur Cocker Spaniel. Ég hafði því samband við ræktandann og við fórum og skoðuðum hvolpana og það leit allt út fyrir að við værum að fara að fá okkur hvolp þaðan.

Síðan einn morguninn, rúmri viku áður en við áttum að fá enska Cocker Spaniel hvolpinn sá ég að Rough Collie ræktandi hafði deilt mynd á Facebook af nýfæddum bláyrjóttum og þrílitum hvolpum. Rough Collie hafði verið mín draumategund alveg frá því ég man eftir mér svo ég þurfti þarna að ákveða hvort ég tæki áhættuna á því að geta mögulega fengið Rough Collie hvolp eða hvort ég myndi fá enskan Cocker Spaniel hvolp. Ég ákvað að hafa samband við Rough Collie ræktandann og hún setti mig á biðlistann og ég lét því hinn ræktandann vita af breyttum plönum hjá mér.“

Leiðir Ísaks og Ynju lágu saman í miðjum kórónuveirufaraldri.
Leiðir Ísaks og Ynju lágu saman í miðjum kórónuveirufaraldri. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

„Vikurnar liðu og heyrði ekkert frá ræktandanum fyrr en að ég senda aftur á hana og hún sagði mér að ég væri nú ekki ofarlega á biðlistanum og vonir mínar um að eignast draumahundinn minnkuðu því töluvert þennan dag. Allt í einu einn daginn sendi hún síðan á mig og spyr hvort ég hafi áhuga á bláum rakka sem að kom mér mjög á óvart, bæði því hún sagði að ég væri ekki hátt uppi á listanum en líka því ég sagðist hafa meiri áhuga á tík. En ég auðvitað sagðist hafa áhuga og ég var því aftur skrefi nær mínum draumi.

Ég byrjaði því að reyna finna nöfn sem mér fyndist passa við bláan rakka. Ræktandinn kom mér svo enn einu sinni á óvart þegar hún sendi síðan á mig hvort ég vildi frekar bláa tík og þar sem að mig langaði meira í tík en rakka sagði ég já við því og þar með var það ákveðið að Nætur Ævintýri, eða Ynja eins hún heitir hjá okkur, yrði partur að fjölskyldunni og draumur minn um að eignast minn eigin Rough Collie orðinn að veruleika.“

Það hafði verið langþráður draumur Ísaks að eignast hund af …
Það hafði verið langþráður draumur Ísaks að eignast hund af þessari tegund. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Hvað var það sem heillaði þig við tegundina?

„Rough Collie hefur svo lengi verið mín draumategund að ég man eiginlega ekki hvað það var sem heillaði mig fyrst við tegundina. Þegar ég var lítill fannst mér fátt skemmtilegra en að fletta í gegnum hundabækur og lesa mér til um hundategundirnar þar og að horfa á hundabíómyndir og það hefur verið þar sem ég kynntist þessari tegund fyrst. Útlitið á tegundinni er það fyrsta sem maður tekur eftir. Tegundin að mínu mati er mjög tignarleg með þennan mikla feld og hvernig hún ber sig. Svo hafði ég margoft horft á Lassie myndirnar og varð alveg heillaður af tegundinni út frá þeim.

Ég kynnti mér síðan tegundina betur og sá að það var svo margt við þessa tegund sem passaði vel við mig. Hún var upphaflega ræktuð sem fjárhundur og því eru þetta mjög klárir hundar sem eru auðveldir í þjálfun og njóta þeir þess að vinna og vera úti og var það eitthvað sem ég leitaðist eftir í hundi. Tegundin er mjög blíð og barngóð og tengist eigandanum vel og það er eitthvað sem ég tók eftir þegar ég horfði á Lassie. Þannig að fyrir mér var þetta hin fullkomna tegund og eftir að hafa eignast hana sjálfur er ég ennþá á þeirri skoðun.“

Ísak segir tegundina henta hans lífsstíl afar vel.
Ísak segir tegundina henta hans lífsstíl afar vel. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Áttir þú gæludýr þegar þú varst yngri?

„Fyrsta gæludýrið sem ég átti var kanínan Dúlla. Síðan átti ég dísarpáfagaukinn Kobba og ameríska Cockerinn hann Flóka. Svo það hafa nánast alltaf verið einhver dýr á heimilinu mínu og á tímabili voru Dúlla, Kobbi og Flóki saman en það var mikið fjör að hafa svona mörg dýr á heimilinu en einnig mikil vinna og skuldbinding.“

Hverjir eru kostirnir við að eiga hund?

„Það eru svo margir kostir við að eiga hund að ég held að það sé ómögulegt að nefna þá alla, en svo fer það líka eftir hundum og persónum. Fyrir mér þá er einn helsti kosturinn að hundar eru svo frábærir félagar. Það er ekki að ástæðulausu að þeir eru oft kallaðir besti vinur mannsins.“

Ynja og Ísak eru miklir vinir.
Ynja og Ísak eru miklir vinir. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

„Annar stór kostur fyrir mér er að hundar lifa alltaf í núinu. Fyrir manneskju eins og mig sem á það til að ofhugsa hluti og festast svolítið í framtíðarpælingum þá svo gott að hafa hund hjá sér sem kemur manni aftur í núið til að njóta augnabliksins. Þá hef ég kynnst ótrúlega mikið af frábæru fólki í gegnum hundana mína en hundar eru oft frábærir ísbrjótar í samræðum því fólki finnst hundar oft svo skemmtilegir og það er alltaf auðvelt að tala um hundana sína.

Hundarnir fá mann til að hreyfa sig meira og vera meira út í náttúrunni sem er mikill kostur að mínu mati og maður upplifir svo margt skemmtilegt sem hefði aldrei geta gerst ef ekki væri hundur á heimilinu. Það eru svo margir fleiri kostir en þetta er svona það helsta fyrir mig.“

Ísak hefur upplifað margt skemmtilegt með Ynju.
Ísak hefur upplifað margt skemmtilegt með Ynju. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

En ókostirnir?

„Það að eiga hund er vissulega mikil skuldbinding. Það þarf að sinna þeim og stundum þarf að fórna öðrum hlutum til að sinna þeim. Það getur verið kostnaðarsamt að eiga hund. Það þarf að kaupa hundafóður og alla þá nauðsynlegu hluti sem hundurinn þarf og svo þarf að fara til dýralæknis en það getur kostað sitt og þá sérstaklega ef eitthvað alvarlegt kemur upp. Hundarnir eru algjör hluti af fjölskyldunni svo ef eitthvað kemur upp á þá getur það tekið verulega á. Svo lifa hundar því miður ekki að eilífu svo það er mjög sárt þegar kemur að því að kveðja þá.“

Ynja er stór partur af fjölskyldunni.
Ynja er stór partur af fjölskyldunni. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Hver er ykkar daglega rútína?

„Þar sem ég er í námi erlendis núna og hafði því miður ekki tök á því að taka Ynju með mér höfum við enga daglega rútínu. En þegar ég kem til Íslands í frí þá reyni ég að eyða sem mestum tíma með henni og þá komumst við í einhverja smá rútínu.

Við förum alltaf í einn göngutúr fyrir hádegi alla daga. Ynja er reyndar lítið að stressa sig yfir því að fara strax út á morgnana eftir að ég vakna og liggur hún stundum í bælinu sínu án þess að rumska þar til um hádegisbilið. Síðan förum við yfirleitt í lengri göngutúr eða lausagöngu seinnipartinn þar sem ég hreyfi hana aðeins meira, fer í frisbí- eða boltaleik með henni. Hún fær síðan að borða í kringum sjö leytið eða eftir að við erum búin að borða kvöldmat.“

Ynja og Ísak njóta þess að fara í göngur saman.
Ynja og Ísak njóta þess að fara í göngur saman. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

„Við tökum því svo yfirleitt rólega á kvöldin og svo fyrir háttinn hleypi ég henni aðeins út til að pissa fyrir nóttina. Um helgar fer ég oft í fjallgöngur eða lengri göngutúra með hana og gef mér tíma til að snyrta hana aðeins, greiða og þess háttar því þessi tegund er með svolítinn feld sem þarf að sinna af og til.“

Þessum fallega feld fylgir svolítil vinna.
Þessum fallega feld fylgir svolítil vinna. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum eða skemmtilegum minningum?

„Í gegnum þessi fjögur ár sem Ynja hefur verið partur af fjölskyldunni höfum við upplifað og gert margt. Allir göngutúrarnir og ferðirnar sem við höfum farið í, en líka bara rólegu stundirnar heima þar sem ég sit í sófanum og horfi á sjónvarpið og Ynja kemur og hlammar sér ofan á fæturnar mína, gefur frá sér nokkrar þreytulegur stunur og steinsofnar þar. 

Þegar ég fékk Ynju hafði ég líka lengi haft áhuga á ljósmyndun en einhvernveginn aldrei gert neitt við þann áhuga. Þegar ég fékk Ynju ákvað ég að ég ætlaði að vera duglegur að taka myndir af henni til að eiga minningar til á mynd. Ég á því margar skemmtilegar minningar úr öllum ljósmyndaævintýrunum sem við höfum farið í og er kannski engin ein sem stendur mest upp úr.“

Ljósmyndaáhugi Ísaks jókst mikið eftir að hann fékk Ynju.
Ljósmyndaáhugi Ísaks jókst mikið eftir að hann fékk Ynju. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

„Eitt mjög skemmtilegt ljósmyndaævintýri sem við fórum í var þegar við keyrðum og heimsóttum Loftsalahelli og Reynisfjöru og hittum þar tvo erlenda hundaljósmyndara sem höfðu sérstaklega komið til Íslands til að taka myndir af hundum í íslenskri náttúru. En út af Ynju þá hefur ljósmyndaáhugi minn aukist mjög. Ég hef fengið tækifærið til að taka myndir af frábærum hundum og kynnst eigendunum þeirra og eru öll þau augnablik mjög eftirminnileg og dýrmæt fyrir mig.“

Ynja glæsileg á Reynisfjöru.
Ynja glæsileg á Reynisfjöru. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Er hundurinn með einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Ynja er mjög mikill karakter og lendi ég oft í því að hún gerir eitthvað sem ég bara skil alls ekki. Á þeim augnablikum óska ég þess oft að ég gæti bara spurt hana hvað væri í gangi og fengið svar frá henni. Hún er mjög næmur hundur og ef eitthvað er ekki eins og venjulega þá er hún mjög fljót að láta vita að hún sé ekki alveg sátt. Þá hleypur hún upp að mér og potar sínu langa trýni í fótinn, eða ef ég er sitjandi þá kemur hún og lyftir upp handleggnum mínum til að gefa mér merki um að hún vilji eitthvað eða eitthvað sé ekki eins og venjulega.“

Ísak lýsir Ynju sem miklum karakter.
Ísak lýsir Ynju sem miklum karakter. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

„Hún elskar líka allt fólk og hef ég oft lent í vandræðum í göngutúrum ef einhver er labbandi á eftir okkur því þá neitar hún að halda áfram fyrr en að hún hefur heilsað þessum manneskjum. Síðan ef við löbbum framhjá fólki og það nefnir hana Ynju óbeint og ekkert endilega við okkur  þá veit hún samt nákvæmlega að það var að tala um hana og hún verður að fá að fara til þeirra heilsa þeim.“

Hvernig gengur að skipuleggja frí með dýr á heimilinu?

„Það að skipuleggja frí með dýr á heimilinu getur verið svolítið flókið en sem betur fer á ég mjög mikið af góðu fólki í kringum mig sem að er til í að passa hana ef við þurfum á því að halda.

Núna þegar ég bý erlendis er ég svo heppinn með það að foreldrar mínir voru tilbúnir að sjá um hana á meðan ég er í náminu. Svo það hefur sem betur fer alltaf gengið frekar vel að skipuleggja frí en annars auðvitað reyni ég að hafa hana alltaf með ef aðstæður leyfa.“

Ísak reynir að taka Ynju alltaf með sér í ferðalög …
Ísak reynir að taka Ynju alltaf með sér í ferðalög þegar það er hægt. Ljósmynd/Ísak Ólafsson

Einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?

„Þetta er kannski svolítið klisjukennt svar en ég helst að mitt helsta ráð er bara að njóta þess tíma sem fólk hefur með gæludýrunum sínum. Þau verða ekki með okkur að eilífu svo það er mikilvægt að eyða sem mestum gæðastundum með þeim allt frá eftirminnilegu ævintýrunum og ferðalögunum, en ekki gleyma augnablikum hversdagslífsins því það eru þau sem skipta oft mestu máli. Takið nóg af myndum og myndböndum en ekki gleyma alveg að lifa í núinu með dýrunum ykkar.“

Ísak vill minna hundaeigendur á að njóta tímans með hundunum, …
Ísak vill minna hundaeigendur á að njóta tímans með hundunum, enda er hann afar dýrmætur. Ljósmynd/Ísak Ólafsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert