„Allt breyttist hjá mér“

Steinunn Ósk Valsdóttir markaðsstjóri GeoSilica og annar hlaðvarpsstjórnandi Skipulagt Chaos er þriggja barna móðir. Hún á tvíburastráka sem eru 12 ára og eina þriggja ára stelpu. Steinunn er með B.A. gráðu í miðlun og almannatengslum og Master í markaðsfræði og elskar allt sem viðkemur tísku og andlegri heilsu. Steinunn segist hafa fundið tilgang með lífinu eftir að hún varð mamma.

Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú ættir von á tvíburum?

„Það var mikið sjokk fyrst enda var ég aðeins 19 ára gömul og alls ekki á leið í barneignir á þeim tíma. En mikið voru þeir velkomnir og mikil hamingja sem því fylgdi.

Meðgangan gekk mjög vel en ég fór af stað á 32. viku og var stoppuð. Annars var ég ótrúlega góð mest megnið af henni. Fæðingin var ótrúlega góð og allt gekk vel. Mér fannst mjög skrítið að það var svona mikið af fólki og viðbúnaði en ég fékk mænudeyfingu sem hjálpaði mikið og það gekk vel að koma þeim í heiminn. Þeir fóru bara í smá stund á vöku og voru ótrúlega duglegir.“

Hvernig voru fyrstu vikurnar/mánuðirnir með tvö ungabörn?

„Þetta er komið í mjög mikla móðu núna en það gekk mjög vel, þetta var erfitt og ég man að mér fannst brjóstagjöfin mjög erfið. En ég sjálf var ótrúlega dugleg að tækla þetta verkefni.“

Hvernig hefur verið að fylgjast með þeim alast upp saman? Eru þeir t.d líkir/ólíkir á einhverjum sérstökum sviðum?

„Það er bara það fallegasta og skemmtilegasta sem lífið hefur boðið mér upp á. Þeir eru ótrúlega líkir, hafa svipuð áhugamál en á sama tíma svo ótrúlega ólíkir persónuleikar. Þeir eru mikið fyrir íþróttir og hafa æft fótbolta og körfubolta síðan þeir voru 4-5 ára gamlir. Ég fer með þeim á öll mót og finnst fátt skemmtilegra en að horfa á þá spila. Þeir eru gríðarlegir orkuboltar sem eru alltaf úti að leika og oft sakna ég þess að sjá þá heima.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú ættir von á öðru barni?

„Bara ótrúlega vel, ég var spennt að bæta í hópinn.“

Hvernig gekk sú meðganga?

„Meðgangan gekk vel en ég var mjög þreytt og mikil ógleði allan tímann. Mér fannst muna að vera 20 ára eða 28 ára að ganga með barn/börn.“

En fæðingin?

„Fæðingin gekk vel, það var Covid á þessum tíma þannig að mér fannst erfitt að fyrst þurfti ég að fara ein inn á Landspítala til þess að fara í rit og kærasti minn þáverandi var ekki með mér. Annars gekk allt ótrúlega vel, hún kom í heiminn fjórum tímum eftir að við mættum upp á spítala. Þessi fæðing var án deyfingar sem mér fannst skemmtilegt að fá að upplifa líka. Mig langaði að hafa mömmu en ég mátti það ekki vegna Covid. En það var fámennt í þessari fæðingu, frábrugðið hinni, og það var huggulegt.“

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst mamma?

„Allt breyttist hjá mér, ég fann metnað og tilgang fyrir lífinu. Hugarfarið breyttist, ég vildi verða góð fyrirmynd og fannst gott að þurfa að vera til staðar og ég fann mig algjörlega í þessu hlutverki. Börnin mín eru bestu vinir mínir.“

Gunnar Gauti, Steinar Aron og Jónína Svava.
Gunnar Gauti, Steinar Aron og Jónína Svava. Ljósmynd/Aðsend

Hvað hefur komið þér mest á óvart við móðurhlutverkið?

„Hvað það er gaman að vera mamma, hvað það er óeigingjarnt og gefandi. Að finna þessa hlið á sjálfum sér, þessa skilyrðislausu ást og umhyggju sem maður hefur að gefa og þolinmæðin, góðu tímarnir, hvað raunverulega skiptir máli í þessu lífi sem er fjölskyldan.“

Hvað getur þú sagt um hlaðvarpið sem þú varst að byrja með?

„Skipulagt Chaos er nýtt hlaðvarp sem við Selma stofnuðum út frá því að við erum báðar mjög drífandi og sterkir karakterar sem elskum að ræða alls konar málefni okkar á milli, sjálfsást og fleira sem okkur fannst eiga heima í hlaðvarpi. Við ræðum allt á mjög léttum nótum, elskum að taka fyrir hitamál og koma fram með okkar sjónarmið ásamt leiðum til að efla sig og ná lengra í lífinu. Við erum ótrúlega ánægðar með þessar frábæru viðtökur og hlökkum til að halda áfram.“

Jónína Svava er þriggja ára.
Jónína Svava er þriggja ára. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að byrja með hlaðvarp?

„Selma sendi óvænt á mig einn dag „Eigum við að byrja með hlaðvarp?“ og ég eiginlega átti ekki til orð því í mörg ár hefur mig langað en ég hef aldrei fundið neinn til þess að gera það með en við Selma eigum vel saman á mörgum sviðum svo þetta var eiginlega fullkomið. Við vorum snöggar að setja niður grunn hugmyndina að hlaðvarpinu því við vissum nákvæmlega hvað við vildum gera. Þá vega styrkleikar okkar upp á móti hvor annarri. Þetta var bara „perfect match“.

Hvernig kynntust þið Selma?

„Selma réð mig í vinnu á síðasta ári og þannig kynntumst við þannig við höfum ekki þekkst mjög lengi en áttum strax mjög vel saman.“

Hvernig hefur ferlið að byrja með hlaðvarp gengið?

„Það hefur allt gengið vel. Ég fann aldrei fyrir miklu stressi og ég er ekki feimin við að fara út fyrir þægindaramman og á auðvelt með að vera sama um hvað öðrum finnst. Við höfum aðallega bara haft gaman af þessu. Það hefur komið mér á óvart hvað við höfum fengið góðar viðtökur og mikla hlustun strax. Ég er spennt fyrir framhaldinu því við erum með hafsjó af skemmtilegum hugmyndum um það hvað við ætlum að gera í framhaldinu.“

Jónína Svava á yngri árum.
Jónína Svava á yngri árum. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert