„Það var alltaf smá hnútur í maganum eftir fósturmissinn“

Íris Freyja Salguero Kristínardóttir og Egill Fannar Halldórsson eignuðust nýverið …
Íris Freyja Salguero Kristínardóttir og Egill Fannar Halldórsson eignuðust nýverið sitt fyrsta barn. Samsett mynd

Fyrirsætan Íris Freyja Salguero Kristínardóttir og athafnamaðurinn Egill Fannar Halldórsson eignuðust sitt fyrsta barn saman fyrir rúmlega sjö vikum. Áður en Íris varð ófrísk að dóttur þeirra upplifðu þau fósturmissi sem tók mikið á. Þó svo að mikil gleði og ánægja hafi fylgt því þegar Íris fékk tvær línur á þungunarprófi stuttu síðar segisthún einnig hafa fundið fyrir hnút í maganum eftir missirinn. 

Íris og Egill kynntust í gegnum Instagram árið 2022 og kolféllu fyrir hvort öðru. „Þá bjó Egill í Kas í Tyrklandi og ég var að ferðast mikið og upptekin í undirbúningi fyrir Miss Supranational. Við byrjuðum svo að hittast um sumarið og eftir það var ekki aftur snúið – ég féll bara algjörlega fyrir honum, enda ekki annað hægt,“ segir Íris.

Egill og Íris fundu hvort annað árið 2022 og síðan …
Egill og Íris fundu hvort annað árið 2022 og síðan þá hefur ástin blómstrað. Ljósmynd/Birgisdóttir Photography

„Það var alveg ótrúlega erfitt“

Í ágúst 2023 komst Íris að því að hún væri ófrísk. „Þá var það alls ekki eitthvað sem við vorum búin að plana þannig ég var í smá sjokki, en á sama tíma alveg ótrúlega ánægð og mjög spennt að segja Agli frá fréttunum sem ég gerði það með því að gefa honum lítinn sólhatt og ullargalla frá 66°Norður. Við misstum svo fóstrið í september og það var alveg ótrúlega erfitt – ég samhryggist öllum innilega sem hafa gengið í gegnum það eða eitthvað svipað,“ segir Íris. 

„Þá vissum við að það að stækka við fjölskylduna væri eitthvað sem við vildum og vonuðum að við yrðum svo heppin að fá að upplifa það,“ bætir hún við. 

Egill og Íris voru svo stödd uppi í sveit hjá ömmu og afa Írisar þegar hún tók annað þungunarpróf í október 2023. „Það var jákvætt og við vorum alveg í skýjunum yfir því. Það var alltaf smá hnútur í maganum eftir fósturmissinn en Egill var svo góður og hjálpaði mér að lifa í mómentinu í gegnum fyrstu vikurnar,“ segir Íris. 

Íris komst að því að hún væri ófrísk að dóttur …
Íris komst að því að hún væri ófrísk að dóttur sinni í október 2023.

„Það fallegasta sem ég hef upplifað“

Aðspurð segist Íris hafa upplifað algjöra draumameðgöngu. „Ég elskaði hverja einustu mínútu af henni. Þrátt fyrir að hafa stundum upplifað mikla ógleði, þreytu og verki þá var þetta það fallegasta sem ég hef upplifað. Það var margt sem kom mér á óvart í meðgöngunni, en það helsta var hvað hún leið hratt,“ segir hún. 

Á meðgöngunni var Íris dugleg að hugsa um heilsuna og reyndi eftir bestu getu að undirbúa sig, bæði andlega og líkamlega, undir fæðinguna. „Það voru nokkur atriði sem ég tel að hafi hjálpað mér mest. Til dæmis að borða hollt, en ég gerði grænan búst nánast daglega til að passa að ég væri að fá hluta af helsta græna grænmetinu sem er gott fyrir okkur og barnið. Ég tók líka vítamín frá Venju,“ segir hún. 

Íris segir meðgönguna hafa verið draumi líkust.
Íris segir meðgönguna hafa verið draumi líkust. Ljósmynd/Birgisdóttir Photography

„Svo fór ég líka í jóga og þótti það yndislegur undirbúningur fyrir fæðingu, en það var mjög hjálplegt til þess að slaka á. Ég var hjá Yogaljós og mæli mikið með þeim. Ég var mikið á jógabolta eða standandi yfir daginn, sem sagt í vinnunni og heima, alla meðgönguna. Síðan fór ég til Alexöndru kírópraktor hjá Lífkíró einu sinni til tvisvar sinnum í viku næstum alla meðgönguna og það bjargaði mér alveg,“ bætir hún við. 

Á meðgöngunni fór Íris meðal annars í jóga og til …
Á meðgöngunni fór Íris meðal annars í jóga og til kírópraktors.

Kom á óvart að hafa ekki misst vatnið eins og í bíómyndum

Heimur Írisar og Egils breyttist svo þegar þau fengu dóttur sína í fangið þann 26. júní síðastliðinn. „Mér finnst ég vera svo heppin með upplifun á fæðingu, en við áttum litlu fallegu stelpuna okkar á Fæðingarheimili Reykjavíkur. Það var ekki margt sem kom mér á óvart í fæðingunni þar sem ég hafði lesið mig mikið til um fæðingu og dró Egil á þrjú fæðingarnámskeið,“ segir Íris. 

„Það sem kom kannski helst á óvart var að vatnið fór aldrei eins og maður sér oft í bíómyndum,“ bætir hún við. 

Falleg stund á Fæðingarheimili Reykjavíkur.
Falleg stund á Fæðingarheimili Reykjavíkur.
Íris er þakklát fyrir fæðinguna sem gekk vel.
Íris er þakklát fyrir fæðinguna sem gekk vel.

Aðspurð segir Íris fyrstu vikur fjölskyldunnar hafa gengið framar vonum, en þau kunna afar vel við sig í nýja hlutverkinu og eru afar lukkuleg með dóttur sína. „Hún er æðisleg, tekur brjóst og sefur vel. Hún vaknar sumar nætur oftar en aðrar en það er líka bara það sem börn gera. Egill er svo æðislegur pabbi og mér finnst við vinna svo vel saman í þessu nýja hlutverki. Það kom mér á óvart hvað ég var rosalega tilfinningarík fyrstu dagana, en allt gat látið mig fara að grenja úr gleði,“ segir hún. 

„Hjartað stækkaði svo mikið eftir að ég varð mamma – lífið er miklu fallegra með henni. Það er aðeins minni svefn á heimilinu eftir að hún kom, en við erum bara enn að kynnast henni og læra inn á allt,“ bætir hún við.

Foreldrarnir kunna afar vel við sig í nýja hlutverkinu.
Foreldrarnir kunna afar vel við sig í nýja hlutverkinu. Ljósmynd/Birgisdóttir Photography

Á heimilinu er einnig hundurinn Svenni, en Íris segir hann vera sallarólegan yfir nýjasta fjölskyldumeðliminum. „Hann Svenni okkar er ekki að sýna henni mikla athygli og er bara frekar rólegur yfir henni. En við erum að vonast til þess að þau verði bestu vinir eftir einhvern tíma,“ segir hún. 

Hundurinn Svenni er rólegur yfir nýjasta fjölskyldumeðliminum.
Hundurinn Svenni er rólegur yfir nýjasta fjölskyldumeðliminum.

Erfitt að þekkja ekki líkamann eftir fæðingu

Íris viðurkennir að henni hafi þótt erfitt að kynnast líkama sínum á ný eftir fæðinguna. „Ég minni mig daglega á að líkaminn þurfi tíma til að ná sér enda var hann að koma barni í heiminn fyrir nokkrum vikum, þannig ég þarf að vera þolinmóð. En það kom mér á óvart hvað mér fannst erfitt að þekkja ekki líkamann minn eftir fæðingu,“ segir hún. 

Íris er enn að kynnast líkama sínum eftir fæðinguna.
Íris er enn að kynnast líkama sínum eftir fæðinguna.

Er eitthvað sem er ómissandi að eiga á meðgöngunni?

„Ég mæli 100% með að vera með jógabolta, bæði í vinnunni og heima.“

Ertu með einhver ráð fyrir verðandi mæður?

„Að reyna að hugsa jákvætt. Ég veit að ég var mjög heppin að upplifa svona góða meðgöngu og fæðingu, en ég mæli með að hugsa jákvætt um fæðinguna, plana fæðingarstað og hvernig þig langar helst að hafa fæðinguna.“

„Hún er komin með nafn sem við eigum eftir að …
„Hún er komin með nafn sem við eigum eftir að tilkynna. Við erum mjög spennt að deila fallega nafninu hennar.“

Hvað er fram undan hjá ykkur?

„Við fjölskyldan erum bara að fara að njóta þess að vera saman næstu mánuði og vonandi náum við að fara í skemmtileg ferðalög og útilegur þegar litla daman er orðin aðeins eldri, en við erum mjög spennt fyrir því að fara með hana um allt land næsta sumar.“

Það eru ljúfar stundir framundan hjá fjölskyldunni sem hlakkar til …
Það eru ljúfar stundir framundan hjá fjölskyldunni sem hlakkar til að ferðast um landið næsta sumar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert